Aukin krafa er um að færa þjónustuna í nærumhverfi notenda, bæði til að grípa fyrr inn í og til að auðvelda aðgengi að úrræðum og fagaðilum. Almenn geðheilsueftirfylgd á heimilum landsins ætti auk þess að vera jafneðlileg og útbreidd og að fylgjast með líkamlegum einkennum. Við förum vel með okkur þegar við erum að fá kvef, en hvað gerum við þegar við erum döpur eða kvíðin?
Góðri heilsu er gjarnan tekið sem sjálfsögðum hlut þar til við veikjumst. Þá sjáum við hvað litlu hlutirnir í lífinu skipta miklu máli, því það er það sem við gerum á hverjum degi sem gerir okkur að þeim manneskjum sem við erum. Við veikindi, andleg eða líkamleg, fara daglegar venjur okkar úr skorðum og jafnvel þannig að við þekkjum ekki lengur okkur sjálf. Það getur tekið tíma að koma aftur undir sig fótunum og bera kennsl á okkar eigið daglega líf eftir veikindi, en bati er mögulegur. Að vera í bata er að upplifa stjórn á eigin lífi og búa við lífsgæði hvort sem einkenni veikindanna gætir eða ekki. Í andlegum bata er mikilvægt að aðgreina sjálfan sig frá sjúkdómnum og taka ábyrgð á eigin heilsu. Lyf eingöngu eða viðtöl við sérfræðinga, sama hvað þau eru regluleg, geta ekki ein og sér framkallað bata. Ekki frekar en að notkun insúlíns eingöngu virki ef einstaklingurinn fylgist ekki með blóðsykrinum, mataræðinu eða öðrum þáttum sem stuðla að heilbrigðu lífi.
Veikindi sjást sjaldan utaná fólki, en það sem er áþreifanlegt er oft skiljanlegra en hið ósýnilega eins og á jafnan við um andleg veikindi. Það sem veikindi eiga hins vegar öll sameiginleg er að þau hverfa ekki inná stofnunum, batinn verður ekki á spítala. Meira að segja þegar fólk fer í aðgerð til að fjarlægja eða laga mein þarf batinn að mestu að fara fram heima. Hann verður að eiga sér stað jafnt og þétt og í því umhverfi sem einstaklingurinn ver sérhverjum degi. Þegar veikindin hafa verið alvarleg eða langvarandi getur fólk jafnvel þurft á aðstoð að halda við að koma daglegum venjum aftur í horf og þá þarf fólk að geta leitað til iðjuþjálfa. Iðjuþjálfar hafa sérþekkingu á daglegu lífi og geta aðstoðað við endurhæfingu og uppbyggingu sem fylgir hvers kyns áföllum.
Iðjuþjálfar hjálpa skjólstæðingum sínum að koma auga á gildin sem þeir vilja virða í lífi sínu og hvað skiptir hvern og einn máli getur auðveldlega breyst í kjölfar veikinda. Það sem fólk hafði einu sinni áhuga á vekur ef til vill ekki áhuga lengur eða fólk hefur jafnvel misst trú á eigin áhrifamætti. Iðjuþjálfar hjálpa einstaklingum að finna áskoranir við hæfi sem geta eflt trú á eigin getu og hjálpað þeim að fóta sig að nýju í lífinu og í bata. Sumir hafa ef til vill veikst ungir og hafa ekki fengið tækifæri til að þroskast vegna veikindanna eða hafa haft færri tækifæri til þátttöku í samfélaginu. Þegar um andleg veikindi er að ræða hjálpa iðjuþjálfar skjólstæðingum sínum að finna fyrir eigin áhrifamætti, hafa uppbyggilegt vanamynstur og gefandi hlutverk í daglegu lífi. Batinn verður að samræmast daglegu lífi einstaklingsins og dagsskipulagið verður að vera skipulag einstaklingssins sjálfs en stjórnast ekki af skipulagi deilda eða fagaðila.
Til þess að árangur verði af meðferð er ekki nóg að taka lyfin eins og áður segir. Geðheilbrigði varðar alla og ætti ekki einungis að vera samvinnuverkefni heilbrigðisstéttanna heldur samfélagsins alls. Iðjuþjálfar gætu þar verið í lykilstöðu sem heilbrigðismenntaðir sérfræðingar í daglegu lífi. Iðjuþjálfar ættu einnig að vera bæði aðgengilegri og sýnilegri í nærumhverfi einstaklinga þannig að fleiri gætu nýtt sér þjónustu þeirra.
Alda Pálsdóttir og Guðrún Friðriksdóttir, iðjuþjálfar
Greinahöfundar starfa sem iðjuþjálfar í endurhæfingarbúsetu fyrir unga einstaklinga með geðraskanir.