Frá haustinu 2014 er jafnframt hægt að taka kjörsvið (í meistaranámi) í klínískri næringarfræði. Þá er lögð áhersla á samstarf við ýmsar deildir innan Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Næringarstofu Landspítala og aðrar heilbrigðisstofnanir þar sem starfandi eru næringarfræðingar eða næringarráðgjafar.
Lögð er áhersla á fræðilega þekkingu og verknám við mismunandi klínískar aðstæður (þ.e. vinna með sjúklingahópa).
Háskóli Íslands í samvinnu við Rannsóknastofu í næringarfræði (RÍN) og Matís og hafa staðið að fjölmörgum rannsóknum á sviði matvæla- og næringarfræði gegnum árin. Meistara- og doktorsnemar ásamt leiðbeinendum hafa fengið birtar fjölda vísindagreina í virtum ritrýndum tímaritum.
Á RÍN eru rannsóknir á mataræði og heilsu barna fyrirferðamestar, en jafnframt eru framkvæmdar rannsóknir á mataræði og heilsu annarra hópa t.d. unglinga, aldraðra og sjúklingahópa auk rannsókna á mataræði þungaðra kvenna. RÍN vinnur í nánu samstarfi við ýmsar stofnanir og fyrirtæki, sem og Evrópska háskóla. Jafnframt er RÍN þáttakandi í mörgum innlendum og alþjóðlegum samstarfsverkefnum.
Matís sinnir fjölbreyttu rannsókna- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði og sér nú í samstarfi við Háskóla Íslands um kennslu og rannsóknir mastersnema í matvælafræði.
Jafnframt er verkefni að fara í gang þar sem áhrif blöðruþangs á blóðsykurstjórnun eru skoðuð en það er dæmi um samvinnu matvæla- og næringarfræðinnar.
Hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands er verið að vinna að rannsóknum á örferjum fyrir lífvirk efni. Rannsóknirnar beindust í upphafi að þróun aðferða til að nota örhljóðbylgjur til að vinna kítín úr rækjuskel sem má nota í baráttu við offitu. Í framhaldi af þessari þróunarvinnu fóru af stað víðtækari rannsóknir á margskonar fæðubótarefnum og örferjum fyrir lífvirk efni.
Gagnagrunnur um matvæli spilar stórt og mikilvægt hlutverk í mörgum rannsóknum. Því er mjög mikilvægt að geta gengið að því vísu að hann innihaldi nýjustu upplýsingar og sé uppfærður reglulega.
Höfundur: Jóna Björk Viðarsdóttir
Höfundur er næringarfræðingur.