Þeir sem eru með almenna kvíðaröskun búast alltaf við að eitthvað hræðilegt gerist og hafa óeðlilega miklar áhyggjur, til dæmis af heilsunni, öryggi sínu eða annarra, heimilishaldi, fjármálum eða vinnu. Svo virðist sem um ótta sé að ræða þó svo að engin hætta sé til staðar og fólk geri sér yfirleitt ljóst að áhyggjur þess séu úr lausu lofti gripnar. Til að mynda getur viðkomandi haft af því stöðugar ástæðulausar áhyggjur að eitthvað hræðilegt komi fyrir ástvini hans. Annað dæmi er að óttast stöðugt að vera sagt upp vinnu þó svo að frammistaða sé óaðfinnanleg. Stundum er erfitt að festa reiður á það hvað það er nákvæmlega sem viðkomandi hefur áhyggjur af, það eitt að þurfa að takast á við hvunndaginn getur valdið kvíða.
Fólk með almenna kvíðaröskun virðist ekki geta losnað við áhyggjur sínar, jafnvel þótt það geri sér ljóst að kvíðinn er meiri en tilefni er til. Það virðist einnig ófært um að slaka á og á oft erfitt með að sofna eða halda svefni. Áhyggjunum fylgja oft líkamleg einkenni, sérstaklega skjálfti, taugakippir, vöðvaspenna, höfuðverkir, pirringur, sviti og hitaköst. Einnig getur fólk fundið fyrir svima eða andnauð. Sumir finna fyrir ógleði eða þurfa oft að fara á salernið og enn aðrir eru með kökk í hálsinum. Mörgum með almenna kvíðaröskun bregður auðveldar en öðrum. Algengt er að þeir sem eru með almenna kvíðaröskun séu oft þreyttir og eigi erfitt með einbeitingu.
Yfirleitt hefur almenn kvíðaröskun ekki í för með sér miklar hömlur á daglegt líf og starf einstaklinga. Ólíkt því sem verða vill með margar aðrar kvíðaraskanir forðast fólk með almenna kvíðaröskun yfirleitt ekki ákveðnar aðstæður. Almenn kvíðaröskun veldur því hins vegar að fólk er í stöðugri spennu sem dregur úr fólki mátt. Ef röskunin er mjög mikil getur hún því haft mikla heftingu í för með sér og valdið því að jafnvel einföldustu daglegu athafnir verða afar erfiðar.
Hvað einkennir almenna kvíðaröskun?
Almenn kvíðaröskun einkennist af því að einstaklingar finna fyrir viðvarandi áhyggjum og spennu sem ekki eiga sér eðlilegar skýringar miðað við aðstæður og eru mun meiri en sá kvíði sem eðlilegt er að fólk finni fyrir.
Algengustu einkennum almennrar kvíðaröskunar má skipta í þrennt:
Líkamleg einkenni:
Vöðvaspenna: skjálfti, geta ekki slakað á, eirðarleysi, þreyta, verkir í baki og hálsi og spennuhöfuðverkur. Örvun í ósjálfráða taugakerfinu: stuttur andardráttur, ör hjartsláttur, svitna, svimi, hita- og kuldaköst, tíð þvaglát, einkenni frá meltingarfærum svo sem magaverkir, ógleði, brjóstsviði, ropar, vindgangur og niðurgangur.
Hegðunareinkenni:
Oförvun: sífellt á verði, pirringur, bregður óeðlilega mikið, erfiðleikar við að sofna, vaknar oft.
Einkenni sem koma fram í hugsun:
Áhyggjur og kvíði varðandi framtíð: áhyggjur af eigin framtíð, fjölskyldu, vinum eða eigum.
Þeir sem þjást af almennri kvíðaröskun leita oft til heilsugæslu og algengt er að kvartanir þeirra leiði til tímafrekra og dýrra rannsókna á líkamlegum einkennum án þess að nokkur skýring finnist.
Fólk með líkamleg einkenni, svo sem meltingartruflanir eða höfuðverk, ætti að segja læknum sínum frá því hafi það áhyggjur og er yfirspennt, en slíkt gæti leitt til réttrar greiningar á almennri kvíðaröskun.
Hverjir fá almenna kvíðaröskun?
Almenn kvíðaröskun myndast smám saman og venjulega finnur fólk fyrst fyrir henni í æsku eða á unglingsárum þó hún geti einnig byrjað eftir að fullorðinsaldri er náð. Almenn kvíðaröskun er algengust kvíðaraskana, fjórum sinnum algengari en felmtursröskun og þrisvar sinnum algengari en einföld fælni; hún er einnig þrisvar sinnum algengari en geðklofasjúkdómur og geðhvörf.
Erlendis hafa rannsóknir sýnt að um 4-7% einstaklinga þjáist af almennri kvíðaröskun einhvern tíma á ævinni og að ætla má að um 3-4% þjóðar hafi almenna kvíðaröskun á hverju ári. Á Íslandi virðast þessar tölur þó vera mun hærri. Í rannsókn Jóns G. Stefánssonar, Eiríks Líndal, Júlíusar K. Björnssonar og Ásu Guðmundsdóttur (1994) á 1087 Íslendingum fæddum árið 1931 kom í ljós að 21,7% þeirra höfðu uppfyllt greiningarskilmerki almennrar kvíðaröskunar einhvern tíma á ævinni og að 7,7% uppfylltu þau þegar rannsóknin var gerð. Því virðist sem Íslendingar séu kvíðnari en aðrar þjóðir.
Almenn kvíðaröskun er algengari hjá konum en körlum, erlendis eru um 55-60% þeirra sem greinast með almenna kvíðaröskun konur. Í rannsókn Jóns G. Stefánssonar, Eiríks Líndal, Júlíusar K. Björnssonar og Ásu Guðmundsdóttur (1994) kom í ljós að á Íslandi greinast tvær konur með almenna kvíðaröskun á móti hverjum karli. Ekki er ljóst af hverju þessi kynjamunur stafar. Almenn kvíðaröskun hjá öldruðum kemur eins fram og hjá þeim sem yngri eru.
Upphaf kvíðaröskunar er oft á tánings- eða unglingsaldri, jafnvel tala sumir um að hafa verið kvíðnir frá barnæsku eða svo lengi sem þeir muna eftir sér. Hjá börnum og unglingum snúast áhyggjur og kvíði oft um frammistöðu eða getu þeirra í skóla eða íþróttum jafnvel þó svo að ekki sé verið að meta þau þar. Sum börn verða óeðlilega upptekin af stundvísi, önnur hafa miklar áhyggjur af ýmiss konar hamförum, svo sem jarðskjálftum eða kjarnorkustyrjöldum. Börn með almenna kvíðaröskun eru oft sérlega hlýðin, afar óörugg og fullkomnunarsinnar sem vinna verkefni gjarnan aftur og aftur þar sem þau sætta sig ekki við árangur sinn. Algengt er að þau sækist mikið eftir hóli og viðurkenningu og þurfi stöðugt á hughreystingu að halda, bæði hvað varðar frammistöðu sína og aðrar áhyggjur. Mikilsvert er að greina almenna kvíðaröskun sem fyrst, en meðferð getur bætt lífsgæði fólks verulega og því ætti að beita henni svo fljótt sem auðið er.
Hvað veldur almennri kvíðaröskun?
Almenn kvíðaröskun á sér eins og flestar aðrar geðraskanir að einhverju leyti líffræði- og erfðafræðilegan grunn, en orsakast af samspili einstaklings og umhverfis hans. Eins og með aðrar raskanir er ekki ljóst hversu stór þáttur hvors um sig er.
Sterkar vísbendingar eru um að kvíðaraskanir gangi að einhverju leyti í erfðir. Athuganir á ættingjum þeirra sem hafa almenna kvíðaröskun hafa sýnt að 20% þeirra hafa líka almenna kvíðaröskun, 50% felmtursröskun, 31% einfalda fælni og 7% félagsfælni. Líffræðilegar rannsóknir á almennri kvíðaröskun hafa leitt í ljós að um einhver frávik sé að ræða í næmi viðtaka innan þeirra kerfa sem adrenalín verkar á. Ofvirkni serótóníns í ákveðnum hlutum heila virðist einnig hafa áhrif, en lyf sem draga úr framleiðslu eða virkni serótóníns draga úr kvíðaeinkennum. Greinilega er því um líffræðilegan grundvöll kvíðaraskana að ræða sem erfist að einhverju leyti. Þó er ljóst að líffræðilegir þættir eru einungis rótin að vanda hins kvíðna, reynsla einstaklingsins, viðbrögð hans og umhverfi viðhalda og magna einkennin. Hugrænar sálfræðikenningar telja að kvíði sé viðbragð við hættu sem einstaklingurinn skynjar. Stöðug bjögun í úrvinnslu upplýsinga veldur því að einstaklingur ofmetur hættur og fyllist því kvíða. Þeir sem eru kvíðnir óttast að geta ekki haft stjórn á eða ráðið við þær ógnir sem þeim finnist steðja að sér eða þá þætti í umhverfinu sem valda áhyggjum. Að auki virðist sem um áhrif lífsstíls sé að ræða þar sem eitt aðaleinkenni þeirra sem stöðugt eru með áhyggjur er að þeir færast mjög mikið fang og ofhlaða á sig verkefnum, ábyrgð og skyldum. Þegar þetta þrennt fer saman, líffræðilegur veikleiki, hugsanabjögun og of mikið álag verða líkur á almennri kvíðaröskun æ meiri.
Hvernig fer greining fram?
Greining á almennri kvíðaröskun á helst að fara fram hjá klínískum sálfræðingi eða geðlækni. Þar sem allar kvíðaraskanir geta haft líkamlega orsök eða áhrifaþátt er mikilvægt að læknisrannsókn fari fram áður en geðhjálpar er leitað. Til að mynda getur óhófleg áfengis-, lyfja- eða koffínneysla kallað fram einkenni sem eru afar lík kvíða. Einnig geta ýmsir sjúkdómar, svo sem truflun í skjaldkirtilsvirkni, valdið kvíðaeinkennum. Læknisrannsókn er sérstaklega mikilvæg ef einkenni koma snögglega fram en verða ekki rakin til æsku eða unglingsára.
Helstu upplýsingar við greiningu eru fengnar með ítarlegu viðtali, en jafnframt eru notuð stöðluð sálfræðileg próf, spurningalistar og jafnvel upplýsingar frá aðstandendum. Tvennt þarf að athuga við greiningu; í fyrsta lagi þarf að greina hvort um almenna kvíðröskun sé að ræða samkvæmt greiningarviðmiðum og hvort um einhverja aðra geðræna fylgikvilla sé að ræða. Í öðru lagi þarf að fá skýra mynd af því hvaða áhrif vandinn hefur á daglega virkni og líf einstaklingsins til að hægt sé að sníða meðferð og markmið hennar að þörfum hvers og eins. Sem dæmi má nefna að meðferð hefur mismunandi markmið eftir því hvort kvíðaröskunin hefur aðallega áhrif á starf, svefn eða samskipti einstaklings.
Greiningarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (ICD-10) setur eftirfarandi viðmið fyrir greiningu almennrar kvíðaröskunar:
Ráðandi kvíðaeinkenni flesta daga í að minnsta kosti nokkrar vikur, yfirleitt einhverja mánuði. Yfirleitt er meðal einkenna:
Þegar um börn er að ræða, mikil þörf á uppörvun og miklar líkamlegar kvartanir.
Einkenni annarra raskana (í nokkra daga í einu), sérstaklega þunglyndis, útilokar ekki greiningu almennrar kvíðaraskanar, en viðkomandi má ekki ná greiningarviðmiðum fyrir þunglyndi, fælni, felmtursröskun eða áráttu- þráhyggju.
Samkvæmt greiningarkerfi bandaríska geðlæknafélagsins (DSM-IV) þurfa eftirfarandi einkenni að vera til staðar til að hægt sé að greina almenna kvíðaröskun:
Greiningarviðmið fyrir almenna kvíðaröskun (DSM-IV)
1. Yfirdrifinn kvíði eða áhyggjur í fleiri daga en ekki í að minnsta kosti 6 mánuði. Kvíðinn og/eða áhyggjurnar hafa áhrif á mörg svið í lífi einstaklingsins (t.d. frammistöðu í starfi eða skóla).
2. Geta ekki stjórnað áhyggjunum.
3. Þrjú eða fleiri eftirtalinna einkenna til staðar fleiri daga en ekki síðustu sex mánuði (eitt einkenni nægir ef um barn er að ræða):
Eirðarleysi
Þreytast auðveldlega
Erfiðleikar við einbeitingu, geta ekki rifjað upp
Pirringur
Vöðvaspenna
Svefntruflanir (erfiðleikar við að sofna eða halda svefni eða slæmur svefn)1.
1. Áhyggjur snúast ekki einvörðungu um þau efni sem skilgreina aðrar geðraskanir svo sem að fá felmturskast (samanber felmtursröskun), verða sér til skammar (samanber félagsfælni), smitast (samanber áráttu-þráhyggju), vera fjarri heimili eða ættingjum (samanber aðskilnaðarkvíða), þyngjast (samanber lystarstol), hafa margvísleg líkamleg einkenni (samanber fjöllíkömnunarröskun) eða vera haldinn illvígum sjúkdómi (samanber ímyndunarveiki), að auki eiga einkennin sér ekki stað vegna áfallastreitu.
2. Kvíði, áhyggjur eða líkamleg einkenni valda umtalsverðum erfiðleikum eða hömlun hvað varðar félagsleg samskipti, starf eða önnur mikilvæg svið daglegs lífs.
3. Truflunin er ekki lífeðlisleg afleiðing efnanotkunar (til dæmis eiturlyfja eða lyfjameðferðar) eða líkamlegs sjúkdóms (til dæmis ofvirkni skjaldkirtils) og á sér ekki einvörðungu stað samhliða geð- eða þroskaröskun.
Fylgja aðrar raskanir almennri kvíðaröskun?
Um þriðjungur þeirra með almenna kvíðröskun hafa enga fylgikvilla.
Almenn kvíðaröskun og þunglyndi eiga það sammerkt að vera langvinnir kvillar með sveiflukenndri líðan. Um 25-30% þeirra sem hafa almenna kvíðröskun eru einnig þunglyndir og 20-30% þunglyndra ná einnig greiningarskilmerkjum fyrir almenna kvíðaröskun.
Allt að 50% þeirra sem hafa almenna kvíðaröskun eru persónuleikaraskaðir. Af þeim sem hafa almenna kvíðröskun sem mjög erfitt er að meðhöndla eiga 80% við persónuleikaröskun að stríða.
Algengt er að aðrar kvíðaraskanir greinist með almennri kvíðaröskun. Felmtursröskun greinist í 3-27% tilfella, einföld fælni hjá 21-55% og 16-59% eru félagsfælnir. Áfengis- eða fíkniefnavandi er oft samferða almennri kvíðröskun, í meira en helmingi tilfella er talið að kvíðinn komi í kjölfar áfengisvandans.
Meðferð
Því miður halda flestir sem hafa almenna kvíðaröskun að um óbreytanlegt persónueinkenni sé að ræða. Því leita þeir sér oft ekki meðferðar fyrr en kvíðinn hefur undið upp á sig, svo sem með áfengismisnotkun, felmtursröskun eða þunglyndi. Aðeins um fjórðungur þeirra sem eiga við almenna kvíðaröskun að stríða fá því meðferð.
Ýmiss konar meðferðum er beitt við almennri kvíðaröskun, en engin þeirra hefur reynst óskeikul. Verið getur um að ræða sálfræðimeðferð, lyfjameðferð eða bland beggja. Við vægari tilfellum dugar sálfræðimeðferð oft, en við umfangsmeiri vanda er lyfja-og sálfræðimeðferð gjarnan beitt samhliða. Mælt er þó með því að reyna fyrst að byrja meðferð án lyfja.
Lyfjameðferð
Lyfjameðferð er beitt ef kvíðaeinkennin eru alvarleg og hafa áhrif á daglega virkni einstaklingsins. Helstu lyfjaflokkar sem notaðir eru gegn almennri kvíðaröskun eru benzodíazepin- og þunglyndislyf. Lyfjameðferð læknar ekki almenna kvíðaröskun en hún getur slegið á einkennin. Yfirleitt er mælt með að lyf séu aðeins notuð um skamma hríð við almennri kvíðaröskun eða þegar einkenni eru mjög bráð. Þegar lyfjatöku er hætt koma einkennin oft fram aftur, einnig er nokkur hætta á aukaverkunum og jafnvel ánetjun. Ef einkennin eru yfirþyrmandi og gera einbeitingu ómögulega er lyfjameðferð oft beitt í fyrstu samhliða sálrænni meðferð.
Hugræn atferlismeðferð
Hugræn atferlismeðferð nefnist sú sálfræðimeðferð sem helst er mælt með við almennri kvíðaröskun. Kvíðið fólk óttast oft að ráða ekki við aðstæður, missa stjórn, missa vitið, verða sér til skammar eða að eitthvað hræðilegt komi fyrir ástvini þess. Þessar áhyggjur auka á kvíða og þar með er kominn vítahringur þar sem áhyggjur auka kvíðaeinkenni sem aftur leiða af sér meiri áhyggjur og svo koll af kolli. Helsta einkenni almennrar kvíðaröskunar er að fólk hefur ekki einungis áhyggjur af hverju sem er, heldur einnig óeðlilega miklar áhyggjur af því að vera með áhyggjur.
Þessar annars stigs áhyggjur snúast um eðli og tíðni áhyggjuhugsananna og til dæmis hvort þær muni leiða til þess að viðkomandi missi vitið. Að auki telur fólk oft að áhyggjurnar séu nauðsynlegar til að vera undir það búið ef eitthvað hræðilegt kemur fyrir eða til að gæta fyllsta öryggis. Áhyggjur leiða til aukins næmis fyrir neikvæðum upplýsingum sem aftur veldur því að fleiri og fleiri hörmungar virðast mögulegar og þar með fjölgar áhyggjuefnunum enn. Grunnhugmynd hugrænnar meðferðar er að hægt sé að finna og breyta þeim hugsunum eða áhyggjum sem kveikja og viðhalda kvíðanum. Fyrsta skrefið er að finna hvenær kvíðinn lætur á sér kræla og hvaða ósjálfráðu hugsanir fylgja honum. Hugsanirnar eru síðan vegnar og metnar og eftir því sem fólk gerir sér betur grein fyrir hversu órökstuddar þær eru er hægt að þróa nýjar leiðir til að takast á við þær aðstæður sem áður vöktu kvíða. Hugræn atferlismeðferð byggir að miklu leyti á heimavinnu, þar sem fólk er til dæmis látið fylgjast með og skrá eigin hugsanir, tilfinningar og hegðun. Þar sem ein afleiðing stöðugs kvíða er að fólk á erfitt með að slaka á er slökunarþjálfun oft stór þáttur í meðferð. Fræðsla um slökun, slökunaræfingar, slökun vöðvahópa og ímyndunartækni eru hluti af þeim aðferðum sem nýttar eru til að þjálfa hæfnina til að slaka á, jafnvel í aðstæðum sem annars hefðu valdið miklum kvíða. Sálfræðimeðferð þarf að sníða að hverjum og einum og sálfræðingur og meðferðaraðili ættu að semja saman meðferðaráætlun sem hægt er að endurmeta reglulega í samræmi við framvindu. Algengt er að fólk finni fyrir umtalsverðum bata eftir um átta til tíu tíma.
Aðrar sálfræðimeðferðir, svo sem stuðningsmeðferð eða sálgreining, taka yfirleitt lengri tíma. Öll vinna fer fram í tímunum. Sumir telja að slíkar aðferðir geti hentað betur en hugræn atferlismeðferð þeim sem eiga við almenna kvíðaröskun að stríða vegna áfalla eða ótta sem tengjast fortíð þeirra.
Breytingar á lífsstíl með minnkun álags og almennri þjálfun daglegra bjargráða einstaklinga geta einnig haft mikil áhrif. Margir þeirra sem þjást af almennri kvíðaröskun eru alltaf "á fullu" og þar sem þeir hafa haft viðvarandi kvíða um lengri tíma gera þeir sér oft ekki grein fyrir því álagi og áhyggjum sem fylgir líffstíl þeirra. Að finna betra jafnvægi milli starfs, fjölskyldu, maka og eigin áhugamála getur verið afar mikilvægt. Við meðferð er mikilvægt að athuga lífsstíl einstaklingsins og greina álagsþætti og möguleg viðbrögð við þeim.
Sjálfshjálp er mikilvæg þegar um kvíðaraskanir er að ræða því að daglegar venjur hafa mikil áhrif á kvíðaeinkenni. Meðal þess sem magnar kvíða og hægt er að stjórna að einhverju leyti er svefn, reykingar, áfengisneysla, koffínneysla (kaffi, te, súkkulaði, kóladrykkir), lyf, lélegt mataræði, lítil hreyfing, ónóg slökun og fáar tómstundir.
Batahorfur
Batahorfur þeirra sem sækja meðferð við almennri kvíðaröskun eru yfirleitt góðar. Þar sem meðferð og markmið eru einstaklingsbundin getur verið að þó sumir geti stefnt að því að hætta að hafa áhyggjur af áhyggjum sínum þá eru aðrir sem vænta þess eins að geta náð eðlilegri virkni í daglegu lífi. Þess verður að gæta að kvíði er eðlilegur og nauðsynlegur undir ákveðnum aðstæðum. Þeim sem hafa átt við kvíðaraskanir að stríða hættir til að krefjast þess af sjálfum sér að finna ekki framar fyrir kvíða. Þegar eðlilegur kvíði lætur á sér kræla trúa þeir því að meðferðin hafi misheppnast og fara að hafa áhyggjur af kvíðanum sem leitt getur til þess að allt fari í sama far og áður. Því er afar mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að einhver kvíði er eðlilegur og hættulaust ástand.
Ýmsir þættir hafa áhrif á gang meðferðar, til að mynda versnar útlitið ef um mikla geðræna fylgikvilla eða áfengis- eða lyfjamisnotkun er að ræða. Séu líkamleg einkenni svo sem meltingartruflanir, verkir eða skjálfti mjög mikil vill einnig brenna við að einstaklingar efist um að um geðrænt vandamál sé að ræða og taki því ekki sálrænni meðferð af heilum hug.
Hvert er hægt að leita og hvað geta aðstandendur gert?
Hvert á að leita?
Ef um áberandi líkamleg einkenni er að ræða er nauðsynlegt að ganga úr skugga um að ekki sé um líkamlega sjúkdóma að ræða og því eðlilegt að leita fyrst til heimilislæknis. Einnig er hægt að leita beint til sálfræðinga eða geðlækna sem geta þá ýmist veitt meðferð eða vísað fólki áfram. Sálfræðinga og geðlækna er hægt að nálgast í gegnum bráðaþjónustu eða göngudeildir sjúkrahúsa og á stofum.
Hvað geta aðstandendur gert?
Aðstandendur sjá oft fyrr en hinn kvíðni hvenær um þverbak virðist ætla að keyra og geta þá bent viðkomandi á hvernig hin líkamlegu og andlegu einkenni tengjast og jafnvel hvatt hann til að leita sér sérfræðihjálpar. Þar sem líffstíll er ríkur þáttur í almennri kvíðaröskun er margt sem aðstandendur geta haft áhrif á sem stuðlar að rólegra lífi, meiri slökun og hollari lífsvenjum. Aðstandendur og vinir verða að minnast þess að ekki er um aumingjaskap eða vesaldóm að ræða heldur sjúklegt ástand. Mikilvægt er að hinn kvíðni finni stuðning vandamanna og að hann fái að lýsa áhyggjum sínum án þess að óttast að fæla fólk frá sér.
Guðrún Oddsdóttir, M.Sc. í sálfræði
Heimild: persona.is