Þvagrás karlmanna gegnir tveimur hlutverkum; annars vegar flytur hún þvag frá þvagblöðrunni við þvaglát og hins vegar flytur hún sæði við sáðlát. Inni í blöðruhálskirtlinum sameinast þvagrásin frá þvagblöðrunni tveimur sáðfallsrásum. Sæði inniheldur sáðfrumur og sáðvökva, en um fjórðungur af sáðvökvanum er myndaður í blöðruhálskirtlinum en afgangurinn í tveimur sáðblöðrum.
Blöðruhálskirtillinn er ekki eingöngu úr kirtilvef því þar eru einnig sléttir vöðvar sem hjálpa til við sáðlátið. Seyti blöðruhálskirtils er mjólkurlitað og svolítið súrt, en það inniheldur næringarefni fyrir sáðfrumur og nokkur ensím, svo sem sértækan vaka fyrir blöðruhálskirtilinn (e. prostate specific antigen, PSA), leysiensím (e. lysozyme) og storknunarensím. Hlutverk PSA og storknunarensíma er til dæmis að gera sæði sem hefur hlaupið vökvakennt á ný. Seyti blöðruhálskirtilsins berst inn í þvagrásina um margar rásir í kirtlinum og á það þátt í bæði hreyfanleika sáfrumna og lífvænleika.
Vandamál tengd blöðruhálskirtli eru ekki óalgeng. Sem dæmi má nefna að talið er að allt að 50% karla á aldrinum 50-60 ára séu með góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli og eykst tíðnin enn frekar með hærri aldri. Hægt er að lesa meira um þetta í grein Sólveigar Dóru Magnúsdóttur Góðkynja stækkun blöðruhálskirtils á Doktor.is og í grein Magnúsar Jóhannssonar Stækkaður blöðruhálskirtill.
Þess má einnig geta að krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein hjá karlmönnum.
Grein af vef doktor.is