Þunglyndi móður í kjölfar fæðingarinnar er nefnt fæðingarþunglyndi. Stundum reynist auðvelt að úskýra tilkomu þess, einkum þegar barnið er óvelkomið eða óeðlilegt. Oftast á þunglyndið sér þó engar eðlilegar skýringar, eins og tilvitnanir herma: "Ég hlakkaði svo til fæðingu barnsins og núna líður mér bara hræðilega. Hvað er eiginlega að mér?" "Fæðingin gekk svo vel, mun betur en ég bjóst við og allir eru búnir að vera svo frábærir, sérstaklega Jón. Af hverju er ég þá ekki í sjöunda himni?" "Ég var svo hrædd um að það yrði eitthvað að henni en hún er fullkomin. Af hverju nýt ég hennar þá ekki. Kannski er ég bara ekki gerð til að vera mamma."
Af orðum þessara kvenna heyrist að þær eru hvorki vanþakklátar né ómóðurlegar. Þær þjást aðeins af algengasta fylgikvilla fæðingar, fæðingarþunglyndi. En athugið, að enn eru allt of margar nýbakaðar mæður sem þjást að óþörfu, í þögn.
Hversu algengt er fæðingarþunglyndi?
Þeirri spurningu er fljótsvarað. Mjög algengt! Fjölmargar rannsóknir benda til þess að engu færri en 10% kvenna fá þunglyndi eftir fæðingu. Ábyrgðin að verða móðir orsakar algengasta sjúkdóminn sem tengist barnsburði. Þunglyndið getur varað mánuðum og árum saman, en sé það meðhöndlað í tæka tíð er unnt að koma í veg fyrir slíkar langvarandi þjáningar.
Flest tilfelli fæðingarþunglyndis koma upp innan við mánuð eftir fæðingu en geta birst allt að sex mánuðum síðar.
Hvað einkennir fæðingarþunglyndi?
Flestar konur upplifa breytingar á tilfinningalífi sínu eftir barnsburð. Margar eru ofurviðkvæmar fyrstu dagana, bresta til dæmis auðveldlega í grát eða eru óöruggar með sjálfar sig. Þetta er eðlilegt og líður hjá. Hjá mæðrum með fæðingarþunglyndi er hins vegar um langvarandi einkenni að ræða sem hafa mikil á líðan.
Depurð
er algengasta einkenni fæðingarþunglyndis. Móðirn verður döpur, óhamingjusöm og sinnulaus. Þunglyndið sveiflast oft yfir daginn, kannski verra á kvöldin eða morgnana. Dagamunur er líka á þunglyndinu sem veldur því að einn góður dagur gæti vakið falskar vonir um bata. Svo virðist á stundum að lífið sé ekki þess virði að lifa því, einmitt þegar sem það ætti að vekja ánægju og fögnuð.
Skapstyggð
fylgir oft og tíðum þunglyndinu. Skapstyggðin beinist gjarnan gagnvart eldri barni/ börnum, stundum að nýburanum, en oftast nær fær makinn að kenna á því og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið í öllum þessum ósköpum!
Þreyta
er algeng fyrstu dagana eftir fæðingu. Hins vegar er þunglynda móðirin svo gjörsamlega úrvinda að hún heldur jafnan að hún þjáist af einhverjum líkamlegum kvilla.
Svefnleysi
Þegar móðurinni tekst loksins að koma sér í rúmið nær hún ekki að festa svefn. Renni henni blundur á brá, þá er hún að vakna sí og æ jafnvel þótt að makinn annist barnið þá nótt.
Skortur á matarlyst
Þunglyndar mæður gefa sér venjulega ekki tíma til að borða eða hafa áhuga á mat. Svengd stuðlar líka að þreytu og önuglyndi. Svo eru sumar konur sem borða of mikið, kannski sér til huggunar, og líður ,ofan á allt annað, hörmulega yfir því að fitna.
Skortur á gleði
Það sem áður vakti áhuga er leiðinlegt, það sem áður veitti unað er andstyggilegt. Maki, sem er reiðubúinn að deila gleði og ánægju, t.d. í kynlífi, mætir tregðu eða afsvari. Þetta setur sambandið í enn frekari klípu.
Að finnast maður ekki geta neitt
Móðurinni finnst hún hafa of lítinn tíma eða þá að hún geri ekkert vel og það sem verra er, að hún geti ekkert bætt úr. Að þurfa svo síðan að annast lítið barn ofan á allt annað, er þunglyndri móður nánast ofviða.
Kvíði
Fæðingarþunglyndi og kvíði fara mjög oft saman. Kvíðinn kemur einna helst fram í því að móðirin verður hrædd við að dvelja ein með barninu. Barnið gæti byrjað á því að öskra, það gæti kafnað eða dottið eða meiðst á einhvern annan hátt. Sumar þunglyndar mæður skynja barnið í þriðju persónu, sem "það" og eru fjarlægar því í stað þess að þeim ætti að líða eins og þær hafi eignast fallegasta og yndislegasta barnið í heiminum. Öllu heldur sjá þær furðulega litla veru sem engan veginn er hægt að segja fyrir um hvað sé að hugsa, hverjar þarfir þess séu og hvernig eigi að fullnægja þeim. Verkefni móður, sem hefur ekki tengst barninu sínu, eru nánast óyfirstíganleg. Ástin kemur alltaf, að lokum, en oftast ekki fyrr en barnið er orðið eldra og áhugaverðara í augum móðurinnar.
En fæðingarþunglyndi getur líka komið til þótt móðurástin sé mikil. Móðirin er þá með stanslausar áhyggjur yfir því að hún missi barnið, af smitsýkingu, vöggudauða, illri meðferð o.s.frv. Kvefist barnið veldur það henni óumræðanlegum áhyggjum, hún veltir sér upp úr þyngd barnsins, hún hefur áhyggjur af því þegar barnið grætur eða það þegir. Hún leitar stöðugt að fullvissu þess um að allt sé í lagi með barnið, til maka, læknis, vina, fjölskyldu, nágranna eða hverra sem er.
Kvíði getur einnig valdið því að móðirin óttast eigið heilsufar. Hún fyllist kvíða aukist hjartsláttur hennar og heldur jafnvel að hún sé að fá hjartasjúkdóm eða áfall. Henni finnst hún alltaf vera svo þreytt og þreytan hljóti að stafa af einhverjum hræðilegum sjúkdóm og svo veltir hún því aftur á bak og áfram hvort hún muni einhvern tímann endurheimta orku á ný? Henni finnst sér líða svo skringilega, ætli hún sé ekki bara að verða geðveik? Svörin sem hún fær er NEI!
Óttinn við að vera skilin eftir heima og komast alein í gegnum daginn, getur fengið jafnvel sjálfsöruggustu konur til að ríghalda í maka sína og þrábiðja þá um að fara ekki til vinnu.
Hvað veldur fæðingarþunglyndi?
Ekki er vitað nóg um fæðingarþunglyndi til að segja fyrir um með vissu hvað veldur því. Sennilegast er engin ein viðhlítandi skýring. Þess í stað fléttast saman margar ástæður fyrir þunglyndinu. Þó hefur tekist að finna nokkra áhættuþætti. Hafa ber í huga að hérna er aðeins um áhættuþætti að ræða, stundum eru þeir til staðar og stundum ekki. Niðurstöður rannsókna hafa bent á þessa áhættuþætti fyrir fæðingarþunglyndi:
Móðir getur einnig þjáðst af þæðingarþunglyndi enda þótt enginn þessara þátta komi til og engin sjáanleg ástæða fyrirfinnist.
Skipta hormónar máli?
Það virðist líklegt að fæðingarþunglyndi sé á einhvern hátt tengt hinum miklu hormónabreytingum sem verða við fæðingu þótt ekki sé fullsannað. Magn östrógens, prógesteróns og annarra hormóna, fellur mikið við fæðingu barns, en munurinn á magni hormóna kvenna sem fá þunglyndi og þeirra sem ekki finna fyrir því er hverfandi. Sumar konur gætu þó verið viðkvæmari fyrir slíkum breytingum en aðrar.
Hvað er hægt að gera við fæðingarþunglyndi?
Heilmörg úrræði eru til staðar en fyrst af öllu þarf að greina sjúkdóminn.
Margar þunglyndar mæður gera sér engan veginn grein fyrir því hvað sé að. Þær skammast sín fyrir að upplifa að móðurhlutverkið höfði alls ekki til þeirra. Þeim finnst e.t.v. að láti þær tilfinningar sínar uppi muni barnið vera tekið af þeim (það gerist ekki). Sumir læknar og hjúkrunarfræðingar eru duglegir við að greina sjúkdóminn, þeir vita af honum og eru á varðbergi gagnvart honum á meðan öðrum sést yfir hann eða misgreina hann sem eitthvað annað.
Á undanförnum misserum hefur umræða um þunglyndi aukist til muna. Vonandi leiðir þessi aukna umræða til þess að auðveldara verði að greina fæðingarþunglyndi og fyrir mæður að leita sér aðstoðar. Spurningalisti með tíu spurningum er nú í útbreiðslu og hjálpar læknum og hjúkrunarfólki að greina vandann. Spurningalistinn kallast Edinborgarkvarðinn.
Um leið og grunur vaknar á ástandinu ætti móðurinni að verða léttara að segja frá því hvernig henni hefur liðið allt frá fæðingu barnsins. Ef hún segist hafa verið döpur, ómöguleg, kvíðin, uppstökk og alls ekkert of hrifin af barninu þá er því tekið með skilningi og hjálp, alls ekki skömmum og fyrirlitningu.
Rétt greining og fræðsla um fæðingarþunglyndi getur hjálpað mikið. Þá þekkir móðirinn í það minnsta óvininn. Hægt er að fullvissa hana um að hún sé hvorki slæm móðir né viðundur, að margar mæður séu rétt eins og hún. Að fæðingarþunglyndi sé mjög algengt og að allar konur geti fengið það eftir barnsburð (eins og kvef). Að henni muni líða betur og líta fram á bjartari daga, þótt slíkt geti tekið tíma, og ráðstafanir verði gerðar til þess að hún fái stuðning þar til henni er batnað.
Afar mikilvægt er að fá makann inn í myndina til þess að hann skilji hvað hefur verið að konu hans. Hægt er að virkja hann til aðstoðar og hjálpar. Best er að láta honum eftir að veita stuðning, svo lengi sem hann fær örlítinn stuðning sjálfur. Ef um fyrsta barn er að ræða má jafnvel vera að honum hafi fundist sér ýtt til hliðar til að gefa barninu meira rými. Ef hann er svekktur á þennan hátt og gerir sér ekki grein fyrir því hversu mikinn stuðning maki hans þarf, getur verið að hann auki fremur á vandamálið en hitt. Vera má að hann finni fyrir gífurlegum létti við greiningu vandans og að fá ráð um úrbætur. Þegar þunglyndi lýkur er ekkert betra til en skilningsríkur hlustandi, þolinmóður, umhyggjusamur og jákvæður.
Meðferð
Samtalsmeðferð
Að eiga möguleika á að létta á sér við samúðarfullan og skilningsríkan hlustanda - sem gæti verið vinur, ættingi, sjálfboðaliði eða fagmanneskja - getur verið mjög hjálplegt.
Sérhæfðari meðferð hjá klínískum sálfræðingi eða geðlækni á stundum betur við og hægt er að fá ráðleggingar hjá heimilislækni um hvert skal leita. Einnig er hægt að panta tíma hjá starfandi sálfræðingum eða geðlæknum.
Lyfjameðferð?
Lyfjameðferð við þunglyndi hefur færst mikið í vöxt á undanförnum árum. Sýnt hefur verið fram á að þessi lyf bæta oft líðan þeirra sem þjást af þunglyndi. Þessi lyf:
Það skal þó haft í huga að örvingluð og þunglynd móðir þarfnast hvers konar samtalsmeðferðar, sérstaklega í byrjun. Það er því sjaldnast nóg að taka bara lyfin og vonast eftir að allt verði gott upp frá því.
Margar konur er uggandi vegna lyfjatöku og telja að betra sé að taka inn hormóna, eins og prógesterón og estrogen, vegna þess að það er "náttúrulegra". Hormónar eru ekki líklegir til að hafa áhrif og þeir eru ekki endilega skaðlausir þó að þeir séu náttúrlegir.
Prógesterón er best í stílformi en estrogen er stundum gefið með plástrum. Það er enginn vafi á að margar konur telja líðan sína betri eftir hormónameðferð en ennþá er ósannað hvort áhrifin séu hormónunum að þakka. Þau gætu allt eins verið stafað af von og væntingum um bata en ekki af hormónunum sjálfum.
Hvað ef ekkert er að gert?
Flestar konur jafna sig á nokkrum vikum, mánuðum, eða jafnvel árum ef ekkert er að gert. Hins vegar þýðir það miklar og óþarfar þjáningar eins og ráða má af við lestur greinarinnar. Fæðingarþunglyndi setur mark sitt á samband móður við nýfætt barn sitt, makann og fjölskylduna alla. Því styttri tíma sem það varir, því betra.
Er hægt að koma í veg fyrir fæðingarþunglyndi?
Við vitum enn ekki nóg um sjúkdóminn til að koma í veg fyrir hann áður en hann hefst en nokkur augljós atriði ættu að hjálpa:
Eftir að barnið fæðist:
ættir þú að nota hvert tækifæri til að slaka á, reyndu t.d. að læra að lúra. Maki þinn gæti einnig gefið barninu á nóttunni, drekki það úr pela.
ættir þú að reyna að borða vel. Heilsusamlegur matur eins og grænmeti, ávextir, ávaxtasafi, mjólk og kornmeti er af hinu góða, fullur af næringarefnum og þarfnast ekki mikils undirbúnings.
ættir þú að skemmta þér með makanum. Það er nauðsynlegt að hafa barnapíu nálæga svo að þið komist út að borða, í bíó, til að hitta vini eða eitthvað þess háttar.
ættir þú að leyfa þér að vera í náinni snertingu við maka þinn, jafnvel þótt þú sért ekki tilbúin í kynlíf. Kossar og kelerí fyllir ykkur bæði vellíðan og flýtir fyrir endurvakinni kynlífslöngun.
ættu ekki að heyrast skammir og nöldur hvort út í annað. Auðvitað eruð þið bæði þreytt en rifrildi veikir aðeins samband ykkar, einmitt þegar þið þurfið á að halda öllum ykkar styrk.
Ekki vera hrædd við að biðja um hjálp ef þér finnst þú þurfa hana. Fagfólk ætti frekar að greina fæðingarþunglyndi en mæðurnar sjálfar, en ef þú hefur heyrt um sjúkdóminn eða lesið um hann ættirðu að geta spurt sjálfa þig hvort það gæti verið að þú sért þunglynd.
Að lokum. Þótt fæðingarþunglyndið sé mikið þá loksins það er greint mun ráðgjöf eða lyfjameðferð hjálpa og flýta fyrir bata: Munið, það er aldrei of seint!
Heimild: persona.is