Hið síðarnefnda þunglyndi telst til alvarlegri geðsjúkdóma og hefur verið nefnt geðhvarfasýki (manio-depressive psychosis), en hið fyrrnefnda flokkast með hugsýki (neuroses). Skilin á milli þessara tveggja flokka eru þó óljós, auk þess sem þunglyndi getur verið eitt af megineinkennum annarra geðsjúkdóma.
Þunglyndi er nú fremur flokkað eftir því hvort það birtist eingöngu sem þunglyndi án tillits til þess hversu einkennin eru alvarleg, og nefnist þá einhverflyndi, eða hvort það kemur fram í sama einstaklingi sem sveiflur á milli þunglyndis og örlyndis, og nefnist þá tvíhverflyndi.
Ég kýs hér að halda mig við hina eldri og hefðbundu skilgreiningu og líta á geðhvarfasýki eingöngu sem meiri háttar geðsjúkdóm eða geðveiki (psychosis), þunglyndi sem getur hvort heldur sem er verið einhverft eða, með örlyndi, tvíhverft.
Einkenni þunglyndis eru m.a. neikvæðar hugsanir, sektarkennd og sjálfsásakanir, lágt sjálfsmat, jafnvel sjálfsvígshugmyndir. Í alvarlegu þunglyndi geta auk djúpstæðra þunglyndiseinkenna einnig komið fram einkenni sem heyra til geðveiki, rofin tengsl við raunveruleikann, ranghugmyndir og ofskynjanir. Oft er erfitt að greina á þessu stigi hvort um geðklofa eða geðhvarfasýki er að ræða og ræðst það af framvindu sjúkdómsins eftir fyrstu meðferð.
Þegar geðhvarfasjúklingurinn er kominn út úr bráðaástandi sínu kemst hann venjulega í eðlileg raunveruleikatengsl og einkum sýnir hann eðlileg tilfinningatengsl við aðra, þar sem geðklofasjúklingurinn býr fremur enn yfir sínum ranghugmyndum og tengsl hans við aðra eru skert. Batahorfur einstaklings með geðhvarfasýki eru að jafnaði mun betri en geðklofasjúklings og hann getur náð fullri heilsu á tiltölulega skömmum tíma og verið laus við sjúkdómseinkennin í ár eða áratugi. Alltaf er þó hætta á að sjúkdómurinn taki sig upp og er mikilvægt að vel sé fylgst með honum og haft eftirlit með lyfjagjöf.
Þegar um tvíhverfa geðhvarfasýki er að ræða getur sjúkdómurinn byrjað hvort heldur sem er með þunglyndi eða örlyndi.
Þegar sjúklingurinn verður örlyndur (maniskur) byrjar það oft með ofvirkni og athafnasemi. Hann getur ekki sofið, hugsunin fer á flug og hann er fljótur að taka ákvarðanir. Hann fer kannski að taka íbúðina í gegn, þrífa og þvo eða henda öllu út úr geymslunum. Hann þarf að vera mikið á ferðinni, tala við marga, er hávær og jafnvel ofsakátur. Oft fylgir þessu ruglingsleg hugsun og ranghugmyndir.
Eftir nokkurn tíma er hann útkeyrður. Í kjölfarið fylgir síðan gjarnan djúpt þunglyndi með fyrrgreindum einkennum. Sumir vilja líta svo á að örlyndið sé nokkurs konar vörn gegn þunglyndi, andhverfing á því, og við sálfræðilegar prófanir á sjúklingum í örlyndisástandi kemur þunglyndið oft skýrt fram undir niðri. Hins vegar eru flestir þeirrar skoðunar að orsaka geðhvarfasýki sé að leita í líkamlegu ójafnvægi og að arfbundnir þættir leiki þar stórt hlutverk.
Oft hefur verið deilt um það hvort geðsjúkdómar séu arfgengir eða orsakist af uppeldi og umhverfisáhrifum. Vísast á hvort tveggja sinn þátt í meira eða minna mæli, en rannsóknir hafa sýnt að í geðhvarfasýki er erfðaþátturinn mjög áberandi, meira en í öðrum geðsjúkdómum.
Meðferð við geðhvarfasýki er fyrst og fremst í höndum lækna og þá aðallega lyfjameðferð. Fyrir nokkrum áratugum var ekki margra kosta völ í þeim efnum. Dr. Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppsspítala leit svo á að geðhvarfasýki stafaði af röskun á efnajafnvægi í líkamanum og gerði merkar rannsóknir á árunum fyrir seinna stríð á blóðsöltum hjá geðhvarfasjúklingum. Síðar kom í ljós að frumefnið lithium, sem er náskylt matarsalti, var mjög áhrifaríkt í að koma á jafnvægi og draga úr sveiflum, hvort heldur til þunglyndis eða örlyndis.
Segja má að þetta hafi valdið straumhvörfum í fyrirbyggjandi meðferð á geðhvarfasýki. Stöðugar framfarir hafa verið í gerð þunglyndislyfja og hefur árangur af lækningum með þeim stöðugt farið batnandi. Öðrum tegundum meðferðar hefur einnig verið beitt við geðhvarfasýki.
Við þrálátu þunglyndi hefur töluvert verið beitt raflostmeðferð, oft með góðum árangri, en þessi meðferð hefur verið umdeild, þar sem hætta er á minnistruflunum.
Við vægara þunglyndi er sálfræðilegri viðtalsmeðferð oft beitt og hún getur einnig átt rétt á sér í meiri háttar þunglyndi eða geðhvarfasýki samhliða annarri læknisfræðilegri meðferð.
Heimild: persona.is