Heimakoma er bráð húðsýking sem er venjulega vel afmörkuð, gljáandi, rauð, upphleypt, heit og viðkvæm fyrir snertingu. Heimakoma byrjar sem rauður blettur á húðinni, oftast þar sem er sprunga eða sár, og breiðist síðan út og stækkar dag frá degi. Stundum myndast blöðrur og jafnvel rauð strik út frá sýkta svæðinu í átt til nærliggjandi eitla. Heimakoma getur komið fram hvar sem er á líkamanum en er algengust á fótum eða fótleggjum eða í andliti. Þegar heimakoma er í andliti er hún oft báðum megin. Oft fylgir heimakomu sótthiti, skjálfti og almenn vanlíðan. Heimakoman getur komið fyrir hjá hvaða fólki sem er en er algengust hjá börnum og eldra fólki.
Heimakoma er sýking í yfirhúð og ystu lögum leðurhúðar og orsakast af ákveðinni bakteríutegund, svokölluðum streptókokkum (keðjukokkum). Ef ekkert er að gert getur heimakoma leitt til blóðsýkingar (blóðeitrunar) og hún getur komið fyrir aftur og aftur á sama stað og þá er hætta á langvarandi þrota og bjúg. Við grun um heimakomu er mikilvægt að leita læknis án tafar vegna hættu á alvarlegri blóðsýkingu. Stundum er til staðar langvarandi sveppasýking, t.d.milli táa, sem veikir húðina og gerir bakteríum mögulegt að komast í gegnum hana og valda endurtekinni heimakomu eða annars konar sýkingum. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að meðhöndla sveppasýkinguna til að loka fyrir leið baktería inn í líkamann. Aðrir áhættuþættir eru offita,exem og aðrir húðsjúkdómar,sykursýki,bláæða-og sogæðavandamál,sprautufíkn og einnig ákveðnar skurðaðgerðir eins og brottnám brjósta og holhandareitla.
Sjúkdómsgreining byggist aðallega á útlitinu, gangi sjúkdómsins og öðrum sjúkdómseinkennum (m.a. sótthita og slappleika), sem gefa vísbendingu um heimakomu. Stundum er þó erfitt að greina milli heimakomu og annarra sjúkdóma. Til eru margar aðrar gerðir húðsýkinga sem orsakast af bakteríum, veirum eða sveppum. Oftast er erfitt að rækta bakteríuna beint frá sýkingunni en hún ræktast stundum úr blóði.
Bakterían sem langoftast veldur heimakomu er venjulega vel næm fyrir algengum sýklalyfjum eins og penicillíni og erýtrómycíni og sjúkdómurinn læknast venjulega fljótt af slíkum lyfjum. Einstaka sinnum þarf að grípa til sterkari lyfja. Önnur meðferð snýr að bjúgmyndun sem fylgir oft sýkingunni og er þar beitt þrýstingsmeðferð með teygjusokkum eða vafningum með teygjubindum. Húðin getur einnig orðið mjög þurr og er þá mikilvægt að bera vel á rakagefandi krem. Áður fyrr var heimakoma hættulegur sjúkdómur sem gat leitt til alvarlegra veikinda og jafnvel dauða en nú á tímum öflugra sýklalyfja er sjúkdómurinn oftast auðlæknanlegur Þó er einstaklingum sem hafa einu sinni fengið húðsýkingu hættara við að fá sýkingu aftur á sama svæði.