Inflúensa orsakast af veirum. Eins og með aðrar öndunarfærasýkingar þá verður smit fyrst og fremst við náin samkipti við smitaða einstaklinga, með munnvatnsúða, t.d. hósta eða hnerra.
Einkenni inflúensu eru oftast mun meiri en einkenni venjulegs kvefs: Hár hiti, þurr og sár hósti, særindi í hálsi, sár höfuðverkur, miklir beinverkir og mikil þreyta. Langflestir ná sér að fullu á u.þ.b. 2 vikum en sumir fá bronkítis og lungnabólgu.
Sem flestir ættu að láta bólusetja sig en eldra fólk og einstaklingar með skert ónæmiskerfi eða langvinna sjúkdóma eins og t.d. astma og hjartasjúkdóma ættu alltaf að láta bólusetja sig. Starfsmenn sem vinna í nánum samskiptum við aðra ættu sérstaklega að huga að bólusetningu vegna aukinnar smithættu. Skólafólk og þeir sem telja sig ómissandi til vinnu ættu að sjálfsögðu einnig að láta bólusetja sig.
Frábendingar gegn bólusetningu eru ofnæmi fyrir eggjahvítu, neómycini og formalíni.
Dauðum inflúensuveirum er sprautað undir húð / í vöðva. Við það virkjast ónæmiskerfið og myndar mótefni gegn viðkomandi veirum. Það tekur bóluefnið u.þ.b. 2 vikur að ná fullri virkni. Þegar inflúensa fer að ganga og smit berst þá eru mótefnin tilbúin og byrja strax að vinna gegn veirunni þannig að hún nær sér ekki á strik og veldur ekki veikindum.
Bólusetning veldur sjaldnast veikindum. Allmargir fá þrota og roða á stungustað og u.þ.b. 5-10% væga beinverki og höfuðverk.
Algengasti tími inflúensufaraldra á íslandi er frá nóvember til loka janúar. Því er algengast að bólusetningar fari fram í október og nóvember.
Inflúensuveiran breytist milli ára og því þarf nýtt bóluefni og bólusetningu á hverju ári. Ef lítil breyting verður á inflúensuveirunni milli ára þá getur líkaminn þekkt og munað eftir veirunni frá því í fyrra. Verstu inflúensufaraldrarnir hafa orðið þegar mikil breyting hefur orðið á stofninum milli ára.
Grein af vef doktor.is