Kuklað með kærleik í glasi
Talsvert gekk á í athugasemdum við blogg mín um detox og annað kukl sumarið 2009. Iðkendur þessara “óhefðbundnu lækninga” urðu sumir hverjir ári sárir yfir skrifum mínum og kölluðu mig ýmist “dóna”, “yfirlýsingaglaðan” eða “hrokafullan.” Sumir þeirra komu með langar athugasemdir þar sem miklu púðri var eytt í að benda á ófullkomleika læknastéttarinnar, rétt eins og það bæri í einhvern bætifláka fyrir þau gervifræði sem ég kalla kukl.
Kona ein, Agný að nafni, taldi ástæðu til að spyrja mig hvort að ég teldi mig vera í hópi “löggiltra, vestrænna” kuklara og sagðist bera ör eftir þá. Hún þakkaði mér fyrir (í kaldhæðni) að kalla hana kuklara, en hún sagðist vera cranio”kuklari” (aftur í kaldhæðni), þ.e. höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari. Þá taldi Agný iðkun sinni (m.a. að reyna hreyfa heilahimnur) til málsbóta að lýsa því yfir hversu svakalegt það væri hvernig læknar færu með höfuð barna í fæðingu með beitingu sogklukka. Sýnishorn frá Agný:
Hvað þá með helvíts sogklukku/drullusokkinn sem sogar sko heilabúið með og togar mænuslíðrið líka upp..jafnvel það mikið (að ég tel) að hásinarnar verði stuttar….og tengurnar sem kreista saman höfuðkúpuna valdi ekki skaða..
Heilabú -> hásinar! Hvað ætli komi næst? Heila-hásinaréttingar? Hún benti á grein skólastjóra “cranio”kuklsins sem hún þýddi og birti á blogginu sínu. Þar fer skólastjórinn í gegnum “fræðin” og telur loks upp þann aragrúa sjúkdóma eða kvilla sem meðferðin á að hafa gagnast við. Fjöldinn er svo mikill að mér er spurn að vita hvað hafi hindrað hann í að bæta svona 50 sjúkdómum til viðbótar. Kannski skortur á fjölbreyttari batasögum einstaklinga?
Haraldur Magnússon osteopati reis upp til varnar nuddi og sagðist hafa áreiðanlegar rannsóknir fyrir því að það hefði meiri áhrif en að vera aðeins til þæginda. Ég hef ekki kallað venjubundið nudd kukl, en talið það meðal meðferða sem hafa ekki sannaða virkni. Samt uppskar ég hálfgerð bókarskrif Haraldar í athugasemdafærslu hjá mér og þar sem eftirfarandi perla leit dagsins ljós:
Mér er það algjör ráðgáta afhverju stór hluti lækna hér á landi (takið eftir að ég alhæfi ekki með því að segja allir) séu svona hatrammir gagnvart óhefðbundnum aðferðum. Þetta er ekki svona í mörgum öðrum löndum.
Svo gaf hann dæmi m.a. frá Bretlandi þar sem læknar störfuðu með hómeópötum á sérstökum hómeópataspítölum. Það er mér mikill léttir að slík starfsemi skuli ekki vera hérlendis. Það er athyglisvert að Haraldur tali um hatramma afstöðu, þegar afstaðan byggir á gagnrýni á tilgátur og aðferðir hómeopata, en ekki persónuleika þeirra og engin hatursfull orð eru látin falla. Íslenskir læknar hafa að mestu látið hómeópata í friði með kukl sitt nema þá helst ég, Magnús Jóhannsson og nokkrir aðrir. Er það hatrammt að kalla það sem maður telur byggt á gervivísindum kukl? Kannski er það hart fyrir þá sem stunda það sem ég kalla kukl, en tæpast hatrammt. Aftur myndu e.t.v. einhverjir kalla þau orð (dóni, hrokafullur, yfirlýsingaglaður o.fl.) hafa fallið úr munni verjanda þessara gervivísinda um mig sem hatrömm, en ég lít ekki á það þannig. Kannski eru þau dálítið andúðarfull en ekki hatrömm gagnvart mér og mínum skrifum.
Gagnrýni mín á kuklfög stýrist ekki af andúð við fólkið sem iðkar þær heldur áhyggjum af því að kerfi blekkinga nái að fanga fleira fólk og að mikil vinna og tími fari í að nema og ástunda gagnslausa hluti. Að sjálfsögðu lítur það ekki þannig út í augum hins sannfærða kuklara og gagnrýni mín túlkast sem árás á þá og vinnu þeirra. Þegar fólk er gjörsamlega sannfært um að nýju fötin keisarans séu í raun hin fallegustu og nytsamlegustu föt, þá hljómar sannleikurinn um að það standi í raun nakið, ákaflega særandi.
Hvað er þá kukl? Hér er skilgreining mín á kukli:
þetta er svolítið flókið en mannleg hegðun er sjaldnast einföld þannig að það er ekki úr vegi að setja smá púður í þetta. Til einföldunar má taka þetta saman nokkurn veginn í þessari setningu:
Þetta er skilgreiningin, en kuklari mun gjarnan gagnrýna hana fyrir þá sök að hin “viðurkennda þekking” sé í raun ekki nógu góð og það eigi ekki að útiloka neitt. Kuklarann vantar samt rök fyrir þvi hvers vegna maður eigi að taka meðferð hans alvarlega. Hann fer einfaldlega fram á það við fólk að honum sé trúað og að því sé óhætt að prufa.
Hann bendir gjarnan á hvar þekkingu raunvísindanna sé ábótavant, en getur ekki hrakið þá þekkingu sem er til staðar. Hann horfir fram hjá þeim mikla grunni sem er búið að byggja og hefur oftast litla þekkingu á honum, þ.e. lífeðlisfræði, lífefnafræði, líffærafræði, sjúkdómafræði og svo framvegis. Það eru ýmsar undantekningar á því en þá er eins og viðkomandi hafi blokkerað út þá varnagla sem þarf að hafa þegar ályktað er um það hvort að tiltekin meðferð standist skoðun eða ekki. T.d. það litla hlutfall lækna sem virðast gleyma þeirri staðreynd að sönnunarbyrðin liggur hjá þeim sem kemur með undarlega tilgátu en ekki þeim sem gagnrýna hana og trúa ekki.
Það má aldrei gleymast að mannskepnan er fær um að ímynda sér alls kyns hluti og er fær um að blanda ímynduninni við veruleikann eða skipta veruleikanum út fyrir ímyndunina. Stundum er þessi ímyndun komin fyrir góðar meiningar einar saman eða óháð meiningu, en stundum er hreinlega um pretti að ræða í von um ágóða og/eða upphafningu. Stórir hópar fólks, m.a. heilu þjóðfélögin hafa orðið fyrir því að taka ímyndanir upp á sína arma og gengið á þeim um tíma í mikilli hamingju, en síðan rekið sig harkalega á raunveruleikann.
Óhlutdrægni, greinandi hugsun og vísindaleg vinnubrögð eru besta trygging okkar fyrir því að verða ekki fórnarlömb hugmyndakerfa sem aðeins á yfirborðinu virðast góðar lausnir en eru í besta falli gagnslaus tímaeyðsla og í versta falli hættuleg og skaðleg iðkun. Kukl er fyrirbæri sem fellur undir þetta. Því fyrr sem við áttum okkur á því að það er heilmikið kukl í gangi og lærum að þekkja það, því betra og því fyrr sem við lærum að nýta mesta auð okkar, fólkið í landinu, til raunsannra starfa til uppbyggingar heilsu og annarra góðra þarfa, þá mun okkur vegna betur.
Látum engan segja okkur sem kemur fram með eitthvað ótrúlegt og á skjön við viðurkennda þekkingu, að það sé okkar að afsanna orð viðkomandi. Sönnunarbyrðinliggur hjá honum/henni.
Munum einnig að aldur hugmyndakerfa eða fjölda iðkenda hefur ekkert með sannleiksgildi þeirra að gera. Við þurfum að vera auðtrúa sem börn, en sem fullorðnir einstaklingar verðum við að axla ábyrgðina sjálf og gera strangar kröfur til þess sem við trúum.
Góðar stundir!
Svanur Sigurbjörnsson, læknir
Höfundaréttindi: Afritun og dreifing á efni úr þessari grein er leyfileg svo lengi sem heimildar er getið á skýran hátt.