Slímhúðarflakk, öðru nafni slímhúðarvilla, hefur fræðiheitið endometriosis. Það er dregið afendometrium sem er heitið á slímhúðinni sem vex mánaðarlega innan í legi kvenna og þroskast þar til þess að mynda beð fyrir frjógvað egg. Hún hverfur svo með tíðablóðinu ef ekki verður þungun og þannig gengur þetta aftur og aftur hvern tíðahring.
Endometriosis, slímhúðarflakk, er samheiti yfir það þegar slímhúð svipuð þeirri sem þroskast innan í leginu finnst vaxin utan legsins, það er að segja á stöðum sem hún á ekki að finnast. Menn töldu að hún hefði villst af leið. Hugmyndir voru uppi um að þetta gerðist á fósturstigi, en einnig er talið að þetta geti einfaldlega gerst þegar blæðingar verða og legið hreinsar sig af slímhimnunni (endometrium) þannig að blóðið leiti bakleiðina út um eggjaleiðarana inn í kviðarholið.
Allar konur sem hafa á klæðum vita að það eru oft kekkir í blóðinu. Þessir kekkir eru niðurbrotin slímhimna, stundum stórir flákar en oftast örfáar niðurbrotnar slímhimnufrumur. Þessar frumur geta, ef þær berast inn í kviðarhol, náð að festast þar og byrjað að vaxa og mynda litla bletti, jafnvel smá hersli, breiður. Þessir slímhimnuflekkir, slímhúðarflakk, geta svo valdið talsverðum verkjum því að þeir tútna út og spennast upp á sama hátt og slímhimna legsins fyrir tilstuðlan hormóna í tíðahringnum.
Slímhúðarflakk getur fundist nánast hvar sem er í kviðarholinu þó að það sé algengast í leginu sjálfu og eggjastokkunum og þar í grennd. Þetta lítur út eins og litlir svartir blettir (freknur) en getur líka myndað stórar klessur. Það getur vaxið innan í eggjastokkum sem og í legveggnum sjálfum og veldur þá oft miklum verkjum. Einnig getur það vaxið í þarmaveggjum og víðar þó að það sé sjaldgæfara.
Slímhúðarflakk getur valdið verkjum sem koma oftast við og eftir blæðingar en einnig á öðrum tímum og er það algengast en einnig getur það verið alveg án allra einkenna og fundist af tilviljun. Hluti af verkjaorsök slímhúðarflakks er að það myndast oft talsverðir samgróningar út frá því við önnur líffæri kviðarholsins. Auk verkja er slímhúðarflakk þannig ein af algengari orsökum óútskýrðrar ófrjósemi.
Sé það einkennalaust þarf ekki að gefa meðferð við því en annars er ýmist veitt hormónameðferð af ákveðinni gerð, þ.e. kvenhormón, eða gefin sérhæfð lyf skyld karlhormónum eða heiladingulshormónum sem stöðva myndun flakksins. Tilgangur meðferðar er að stöðva alla örvun á vexti slímhúðarflakksins, það er svelta það, og vonast þannig eftir því að það eyðist og visni. Lækning er þó erfið því það sækir oft fljótt í sama farið eftir meðferð.
Því er einnig beitt skurðaðgerðum og fjarlægt allt það slímhúðarflakk sem hægt er að ná til þannig eða með brennslu (með rafmagni, leysi (laser) og fleiru) og síðan er fylgt eftir með lyfjameðferð, samanber það sem áður var sagt. Þetta er einkum gert ef kona hefur hug á að verða þunguð og því nauðsynlegt að varðveita frjósemi hennar.
Ef ekki er löngun til fleiri barnseigna er oft rætt um að taka leg og jafnvel eggjastokka séu þeir illa farnir. Reynt hefur verið að eyða slímhúðarflakki með krabbameinslyfjum en það hefur ekki gefið betri árangur en einfaldari meðferðir. Slímhúðarflakk finnst hjá 5-15% kvenna á frjósemisaldri.
Þessi grein er eftir Arnar Hauksson kvensjúkdóma- og fæðingarlækni og birtist á www.visindavefur.hi.is
Til frekari fróðleiks má benda áhugasömum á www.endo.is
Heimild: doktor.is