Til eru þrjár gerðir nárakviðslita. Í fyrsta lagi óbeint nárakviðslit sem er algengast hjá börnum og ungu fólki en kemur fyrir hjá fólki á öllum aldri. Það getur verið meðfætt og er miklu algengara hjá strákum en stelpum. Í öðru lagi beint nárakviðslit sem er algengt hjá fullorðnum sérstaklega eldri karlmönnum og í þriðja lagi læriskviðslit sem er sjaldgæfara og finnst aðallega hjá fullorðnum konum.
Kviðveggurinn er gerður úr nokkrum vöðvalögum og sinabreiðum sem liggja í mismunandi stefnur til að gera vegginn sem sterkastan. Ákveðin svæði kviðveggjarins eru veikbyggðari en önnur t.d. nárasvæðið. Við mikinn þrýsting í kviðarholi, t.d við hósta eða rembing, getur komið rof í kviðvegginn á veiku svæðunum og innri lög kviðveggjarins farið í gegn. Þetta nefnist kviðslit. Það er falið undir húð og fitulagi og er í raun poki gerður úr lífhimnu með mismunandi innihaldi t.d. hluta úr görn. Hversu mikið rofið er hefur áhrif á hversu sjáanlegt kviðslitið er. Hjá flestum er það sýnilegt þegar kviðvöðvar eru spenntir eða viðkomandi stendur en hverfur þegar viðkomandi leggst út af. Stundum er kviðslit sýnilegt bæði við stöðu og legu. Kviðslit er í sjálfu sér ekki hættulegt ástand en getur orðið lífshættulegt ef hluti garnar klemmist úti í pokanum og fær ekki nægt blóðflæði. Þá getur orðið drep í þeim hluta garnarinnar og það kallar á bráða skurðaðgerð.
Óbeint nárakviðslit fer um náragöngin en um þau fer sáðrásin hjá karlmönnum niður í eistu. Kviðslitið verður yfirleitt sýnilegt á leið sinni niður í punginn þegar barn t.d. grætur. Þetta er algengast á fyrsta aldursári og er enn algengara meðal fyrirbura. Meðferðin er skurðaðgerð bæði hjá ungum og öldnum.
Seinna á ævinni verður beint nárakviðslit sem er oft beggja vegna. Það er sýnilegt og hægt er að þreifa á því fyrir ofan nárabandið. Offita og mikil líkamleg áreynsla ýta undir myndun kviðslits. Meðferðin er skurðaðgerð en því miður tekur kviðslit sig oft á tíðum upp aftur og þá þarf að endurtaka aðgerðina. Ef eldra fólk greinist með kviðslit er tekin afstaða til aðgerðar út frá því hvort einhver einkenni stafi af því og hvort líkur séu á garnaklemmu.
Læriskviðslit (lærishaull) er sjaldgæfara og myndast nær eingöngu hjá eldri of feitum konum sem hafa eignast mörg börn. Skurðaðgerð er meðferðin.
Ef þú eða barnið þitt eruð með fyrirferð á nárasvæðinu þá skaltu leita læknis.
Heimild: doktor.is