Flökkuvörtur koma vegna sýkingar af völdum veiru sem kallast Molluscipoxvirus Molluscum contagiosum og tilheyrir hóp veira sem kallast einu nafni Poxveirur. Sýkingin veldur einungis einkennum í húð,byrjar sem lítil bleiklit bóla á húðinni, sem stækkar og verður meira perlulaga og lítill blettur verður sýnilegur í miðjunni. Þegar flökkuvartan verður eldri fær hún á sig gráleitan blæ, verður mýkri viðkomu og stundum getur vessað úr henni glær vökvi. Flestar eru þær um 2–5 millimetrar að stærð og algerlega sársaukalausar. Enginn roði eða þroti er í kringum vörturnar.
Smitleiðin er með beinni snertingu við sýktan einstakling. Því geta flökkuvörtur einnig smitast við kynmök (sjúkdómurinnn er þó ekki flokkaður með kynsjúkdómum). Einnig er hægt að smitast með óbeinum leiðum eins og ef notað er handklæði sem sýktur einstaklingur hefur áður notað. Einnig getur smit borist með vatni í sundlaugum.
Tíminn sem líður frá því að einstaklingurinn er útsettur fyrir smiti og þar til flökkuvörturnar koma fram á húðinni eru allt frá tveim vikum og upp í átta vikur. Algengast er að sjá vörturnar á andliti og hálsi, handakrikum og handleggjum og bol en getur verið hvar sem er á líkamanum nema í lófum og á iljum. Ef smitið er gegnum kynmök eru vörturnar á kynfærum, á innanverðum lærum og neðrihluta kviðar.
Sýking kemur fyrir í öllum aldurshópum en flökkuvörtur er algengastar hjá börnum. Flökkuvörtur eru hættulausar og hjaðna á nokkrum mánuðum án meðferðar og án þess að ör myndist á húðinni.
Leitið ráða hjá heimilislækni. Hann staðfestir sjúkdóminn með því að skoða húð sjúklingsins og taka sýni til að útiloka aðra sjúkdóma og ráðleggur svo hver besta meðferðin er.
Það fer eftir umfangi sjúkdómsins hvaða leið er best að velja, en í flestum tilfellum gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum mánuðum.
Stórar flökkuvörtur og þær sem eru á svæðum þar sem þær valda sjúklingnum óþægindum er hægt að frysta af eða skafa af í staðdeyfingu. Slík meðferð getur valdið því að ör verða eftir á húðinni.
Flökkuvörtur eru góðkynja sjúkdómur sem gengur yfir án meðferðar á 2–18 mánuðum. Ef aðili með ónæmistruflanir fær flökkuvörtur geta þær verið viðvarandi og þarfnast annarrar meðferðar.