Hvað getur komið í staðinn fyrir fisk, skelfisk, egg, hveiti, mjólk og hnetur.
Þegar einstaklingur greinist með ofnæmi fyrir tiltekinni matvöru kemur oft upp sú spurning „hvaða næringarefnum er barnið mitt eða ég að missa af.“ Þetta eru algeng og eðlileg viðbrögð og verður leitast við að svara þessari spurningu út frá næringarlegu sjónarmiði. Einnig að koma með tillögur að öðrum matvælum til að tryggja góða næringarlega samsetningu mataræðisins og góða fjölbreytni.
Fiskur:
Fiskur er ríkur af próteinum, joði og seleni. Þessi næringarefni er þó auðvelt að fá úr öðrum matvörum og lítil hætta er á skorti ef fæðið er fjölbreytt. Kornmatur, egg, innmatur og kjöt gefa til dæmis vel af selen og mjólkurvörur eru joðríkar ásamt ýmsu grænmeti. Þá geta sumir með fiskofnæmi borðað skelfisk.
Fiskur hefur löngum verið talin holl matvara og er það bæði vegna þess hversu magur hann er en einnig gefur feitur fiskur góðar fitusýrur, svokallaðar omega-3 fitusýrur sem almennt skortir í fæði margra í dag. Þeir sem ekki þola fisk þola þó lýsi þar sem lýsi inniheldur ekki fiskiprótein. Ef vafi leikur á því hvort barn þolir lýsi má prófa það undir eftirliti læknis.
Hins vegar ef að einstaklingur þolir ekki lýsi af einhverjum ástæðum þarf aðra fæðu til að uppfylla D-vítamínþörf líkamans til dæmis D-vítamínbætta mjólk og olíur, eða með D-vítamín perlum.
Þegar við forðumst fisk má því segja að ákveðin hollusta hverfi úr fæðinu. Ekki er gott að borða alltaf kjöt í staðinn fyrir fisk þar sem mikil kjötneysla er ekki talin holl. Hins vegar má borða baunir og baunarétti í staðinn fyrir fisk- og fiskrétti. Baunir gefa vel af próteinum og trefjum og ýmsum mikilvægum vítamínum og steinefnum. Egg eru prótein- og næringarrík og eru því góður kostur af og til, til dæmis sem eggjakaka, í grænmetisrétti eða álegg ofan á brauð.
Skelfiskur:
Skelfiskur er matvara sem sumir hafa ofnæmi fyrir. Líkt og fiskurinn er skelfiskur hollur og næringarríkur og góð viðbót við aðra holla fæðu. Hins vegar þá getur önnur fæða hæglega komið í staðinn fyrir skelfiskinn sé ofnæmi til staðar og margir sem eru með ofnæmi fyrir skelfiski þola fisk og því fer hollusta úr sjávarfangi ekki algerlega út þó svo að skelfiskurinn sé ekki á matseðlinum.
Egg:
Egg eru tiltölulega algengur ofnæmisvaldur sér í lagi hjá ungbörnum, ofnæmi sem reyndar eldist oftast af þeim með tímanum. Þó svo að egg séu prótein- og næringarrík, til dæmis af járni og D-vítamíni, þá getur önnur næringarrík og fjölbreytt fæða komið í þeirra stað. Það sem hins vegar getur háð er hvernig egg eru notuð td. matargerð og í bakstur og gefa þar bindingu og hindra að kökur molni. Í stað eggja má nota tilbúið eggjalíki úr pakka eða kartöflumjöl eða sojamjöl hrært saman við vatn (1 msk mjöl 2 msk vatn fyrir hvert egg). Ávaxtamauk hefur einnig reynst vel og þá um 25 g fyrir hvert egg, sama má segja um Fiber Husk, ½ msk passar fyrir eina formköku. Einnig má nýta allan þann fjölda af uppskriftum af kökum og bakkelsi sem ekki innihalda egg til dæmis á heimasíðu Astma- og ofnæmisfélagsins.
Hveiti:
Fólk getur verið með ofnæmi fyrir hveiti eða óþol fyrir glúteni. Glúten er einnig í rúgi og byggi og því þurfa þeir sem ekki þola glúten einnig að forðast þær mjölvörur. Fólk með ofnæmi fyrir hveiti þarf oft einnig að forðast þessar matvörur þar sem að þær innihalda svipaða ofnæmisvaka. Auk þess eru þessar mjölvörur oftast unnar í sömu myllum og pakkað í sömu verksmiðjum og verða því oft smitaðar hvor af annarri. Hafrar geta af sömu ástæðum verið smitaðir af hveiti en hægt er að fá í verslunum svokallaða hreina hafra. Þegar óþol fyrir glúteni er til staðar þarf að velja aðrar mjöltegundir. Þetta eru hrís (rís), maís og maíssterkja, hirsi, bókhveiti og kartöflumjöl. Einnig minna algengar tegundir eins og quinoa, amarant og tapióka. Á markaðnum eru einnig glútensnauðar mjölblöndur til að baka úr brauð og kökur og voru það mikil þáttaskil þegar slíkar vörur fóru að fást. Þessar blöndur innihalda ýmist hveitisterkju eða glútensnautt mjöl. Mikilvægt er að hafa í huga að þeir sem eru með glútenóþol geta notað allar glútensnauðar mjölblöndur en þeir sem eru með ofnæmi fyrir hveiti geta ekki alltaf notað vörur með hveitisterkju. Hægt er að fá gútensnautt brauð, pasta og morgunkorn en margar kolvetnaríkar matvörur eru glútensnauðar frá náttúrunnar hendi og henta því vel inn á glútensnauðan matseðil. Dæmi um það eru hrísgrjón, hýðishrísgrjón, rísnúðlur, sagógrjón, polentagrjón, baunir og linsubaunir svo og kartöflur og sætar kartöflur. Morgunkorn sem gert er úr hreinum maís er án glútens en mikilvægt er að lesa vel á innihaldslýsingar. Einnig er til múslí sem er glútensnautt.
Einstaklingar með glútenóþol þurfa að huga sérlega vel að orku- og trefjainntöku og hvað B-vítamín varðar þá geta þau orðið af skornum skammti. Einnig er ljóst að matargerð og bakstur er flóknara og innkaup nokkuð dýrari og skipulagið allt flóknara en ella. Til þess að tryggja að næringunni sé ekki ábótavant þarf að huga vel að fjölbreytninni og að borða nóg þá úr þeim fæðuflokkum sem nefndir eru hér að ofan.
Mjólk:
Mjólkurofnæmi og –óþol er nokkuð algengt. Þau næringarefni sem mjólkin inniheldur og helst þarf
að hafa í huga eru kalk og prótein (mysuprótein og ostprótein), næringarefni sem bæði eru auðnýtanleg fyrir mannslíkamann.
Ráðlagt er að þeir sem ekki geta neytt mjólkurvara taki inn bæði kalk og D-vítamín á formi bætiefna, D-vítamín t.d.
úr lýsi eða lýsisperlum. Aðrir kalkgjafar sem til greina koma eru sardínur, sesamfræ, möndlur og grænt grænmeti. Því miður
nýtist kalkið þó ekki alveg eins vel úr jurtaríkinu samanborið við kalkið úr mjólkurafurðunum. Einnig er ráðlagt að
nota sojavörur, vörur úr hrísgrjónum t.d. hrísmjólk (ricemilk), haframjólk (oatmilk) og möndlumjólk (almond milk). Nauðsynlegt er
að lesa á umbúðir og gæta þess að sojaosturinn sem valinn er sé virkilega laus við alla mjólk. Einnig er mikilvægt að
sojamjólkin, rísmjólkin, haframjólkin eða möndlumjólkin sé kalkbætt, merkt á umbúðir sem „with added
calcium“.
Mjólkursykursóþol:
Þeir sem eru með einkenni mjólkuróþols þola venjulegt smjör og nánast undantekningarlaust flesta osta þar sem þessar vörur innihalda ekki mjólkursykur. Sumir þola léttsúrmjólk þar sem gerlar í vörunni hafa brotið niður mest allan mjólkursykurinn.
Hægt er að kaupa sérstakar töflur í apotekum, ensímtöflur sem kallast lactasi. Hafa þær þann eiginleika að brjóta niður mjólkursykur og má setja slíka töflu t.d. í mjólkurglasið, bíða í stutta stund og drekka mjólkina síðan þegar laktasatöflurnar hafa unnið sitt verk. Það að vera með óþol fyrir mjólkursykri er betra næringarlega séð heldur en að vera með ofnæmi fyrir mjólk þar sem hægt er að fá kalk og prótein með neyslu á osti og smyrja má með smjöri.
Trjáhnetur og Jarðhnetur:
Hvað hnetur og jarðhnetur varðar þá má segja sumt það sama um þær og eggin. Hnetur eru næringarríkar og ríkar af hollum fitusýrum en innihalda engin einstök næringarefni sem ekki er að finna í öðrum matvælum. Fjölbreytt fæða getur því komið í staðinn fyrir hnetur og auðvelt er að sleppa hnetum í bakstri og nota fræ t.d. sólkjarnafræ, sesamfræ og hörfræ í brauðbakstur. Hnetur má finna í sósum, súpum, salötum og pottréttum, einnig smitast yfir í ýmiskonar sælgæti sem framleitt er í verksmiðjum þar sem hnetur eru meðhöndlaðar.
Fæðuofnæmi:
Fæða getur valdið hættulegu ofnæmi sem jafnvel er lífshættulegt. Því þurfa þeir sem haldnir eru fæðuofnæmi ávalt að vera á varðbergi gagnvart þeirri fæðu sem neytt er. Þeir sem eru með ofnæmi fyrir hnetum og skelfiski þurfa að vera sérstaklega varkárir, lesa gaumgæfilega á innihaldslýsingar svo og að hafa ávalt meðferðis adrenalínpenna.
Fríða Rún Þórðardóttir, næringarráðgjafi, næringarfræðingur, eldhúsi Landspítala
Kolbrún Einarsdóttir, næringarráðgjafi, næringarstofu Landspítala