Góð rúm eru hins vegar dýr og því betra að vanda valið eins og nokkur kostur er. Kristín Gísladóttir, sjúkraþjálfari hjá Gáska hefur undanfarin ár hjálpað fólki við að velja sér rúm í versluninni, Vogue -fyrir heimilið. „Sama hvað hver segir það er ekki til neitt besta rúm í heimi, við erum jafn misjöfn og við erum mörg, rúm sem hentar einum, hentar ekki öðrum þess vegna er svo mikilvægt að prófa sem flestar gerðir af rúmum, áður en ákvörðun um það eina rétta er tekin,“ segir Kristín.
„Fólk á að fara á milli verslana og prófa rúmin og kynna sér hvort hægt sé að skila rúminu ef fólki finnst það óþægilegt þegar það hefur sofið á því í nokkrar nætur,“ segir hún. Kristín segir að það skipti máli á hvernig dýnum fólk sem komið er á fullorðins ár sé vant að sofa á, það þýði ekkert að segja fólki að það eigi að fara að sofa á harðri dýnu þegar það hefur allt sitt líf sofið á mjúkri og öfugt. Framleiðendur nota ýmis efni í dýnur til að ná fram mýkt, svo sem gorma, latex, svamp eða blöndu af þessu öllu „Almennt eru dýnur orðnar mýkri en þær voru fyrir nokkrum árum. Dýnan þarf að laga sig að líkamsvexti fólks og veita þannig stuðning. Með því móti næst góð líkamsstaða liggjandi. Það er mikilvægt að hryggurinn fái stuðning,“ segir Kristín. Hún segir að flestir sofi á hliðinni og þá verða öxl og mjöðm álagssvæði. Öxlin þarf að fá rými í dýnunni og því þarf að vera mýkra svæði fyrir hana. Við erum þyngst um miðjuna og því þarf góðan stuðning fyrir mjaðmir. Ef ekki er nógur styrkur í dýnunni undir mjöðminni er hætta á að hryggurinn svigni.
„Það eru fleiri þættir sem skipta máli, eins og aldur fólks, líkamlegt ástand, vaxtarlag og sjúkdómar. Fólk sem er þungt á sér eða á erfitt með að hreyfa sig þarf dýnu sem auðvelt er að snúa sér á. Rúmið á líka að vera með . . . LESA MEIRA