Þeir sem lesa með fingrunum nota báðar hendur, hafa alla fingur á lesmálinu og nota eins marga og þeir geta til lesturs. Þeir sem hraðast lesa nota báðar hendur þannig að þeir lesa með vinstri hönd að miðri leslínunni, þá tekur sú hægri við og les að enda línunnar á meðan sú vinstri fer niður í þá næstu og les hana að miðju og þannig koll af kolli. Það má því segja að sú vinstri lesi vinstri helming lesmálsins og sú hægri þann hægri. Þeir sem ná tökum á þessari tækni ná yfirleitt góðum lestrarhraða.
Sérstök ritvél er notuð til að skrifa letrið, svo kölluð punktaletursritvél. Ritvélin hefur sex skriftartakka, þrjá vinstra megin og þrjá hægra megin, en á milli þeirra er takki sem slegið er á vilji menn gera bil á milli orða.
Punktaletur er þeim sem lesa það og skrifa afar nauðsynlegt. Fyrir utan að nota það við leik og störf er það einnig notað til að merkja ýmislegt í kringum sig, t.d. geisladiska, kryddin á heimilinu eða niðursuðudósirnar þannig að notandinn geti hindrunarlaust gengið að þessum hlutum þegar á þarf að halda. Jafnframt er hægt að kaupa ýmsa hluta merkta með punktaletri, s.s. ýmis konar spil, málbönd o.fl.
Allir geta lært punktaletur, þeir sem sjá nægilega vel lesa það með augunum, en letrið er einkum ætlað þeim sem hafa enga eða svo skerta sjón að þeir sjá ekki til að lesa prentað letur og lesa því með fingrunum.
Börn sem fæðast blind eða svo sjónskert að talið er að þau nái ekki viðunandi lestrarhraða með því að læra prentletur læra að lesa punktaletur. Þau læra þá að lesa á sama hátt og jafnaldrar þeirra – eini munurinn er sá að um punktaletur er að ræða. Kennarar þeirra sækja þá námskeið hjá Miðstöðinni til að vera í stakk búnir til að sinna kennslu punktaleturs, eða sérfræðingar miðstöðvarinnar sjá um kennslu barnanna eftir atvikum.
Lögð er áhersla á að kenna einstaklingum með hrörnandi sjón punktaletur og er það gert í því skyni að þeir séu betur undirbúin þegar svo er komið að þeir sjá ekki lengur tilað nýta sér hefðbundið prentletur.
Fullorðið fólk sem missir sjón eða verður sjónskert vegna sjúkdóma eða slysa, lærir einnig punktaletur og sjá þá sérfræðingar Miðstöðvarinnar um þá kennslu.
Lestur punktaleturs krefst þess að lesendur hafi nokkuð gott þreifiskyn, en þreifiskynið má í flestum tilfellum þjálfa upp.
Kennsluaðferðir eru í öllum tilfellum einstaklingsbundnar og fara þær t.d. eftir því hvort verið er að kenna barni að lesa eða hvort verið er að kenna fullorðnum einstaklingi að nýta sér annað form á lesmáli – annað letur.
Oftast er stuðst við kennsluhefti þar sem stafir eru lagðir inn smátt og smátt og lesnar æfingar á milli sem byggja á þeim stöfum sem nemandinn hefur þegar lært. Þá eru oft samhliða gerðar skriftaræfingar, en æfingar í notkun ritvélarinnar eru afar nauðsynlegar til að ná betri tökum á letrinu.
Heimildir: midstod.is er síða fyrir blinda og sjónskerta, en þar má hlusta á allt efni sem sett er inn.