Frá því um síðustu aldamót hefur verið lögð sérlega rík áhersla á að mennta upp íþróttaþjálfara og hefur ÍSÍ eitt Norðurlandasambandanna verið með eins ríka áherslu á menntun þjálfara yngri iðkenda og raun ber vitni. Námið er byggt upp þannig að annars vegar er um almenna hluta þekkingarinnar að ræða sem gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar og er sá hluti í boði hjá ÍSÍ. Hins vegar er um sérgreinahluta að ræða sem haldið er utan um hjá sérsamböndum og sérnefndum ÍSÍ.
Rétt er að benda á að hluti menntunar íþróttaþjálfara er fræðsla um næringu íþróttafólks og fræðsla um svefn og hvíld sem er afar mikilvægur hluti þekkingar íþróttaþjálfara. Þessir þættir eru teknir markvisst fyrir í þjálfaramenntun ÍSÍ.
ÍSÍ leggur mikið upp úr gæðum, að menntunin sé vel skipulögð og stigskipt og þar af leiðandi hvetjandi og eftirsóknarverð. Einnig er lagt mikið upp úr því að kennarar séu vel menntaðir og aðgengilegir og að vel sé haldið utan um námið á allan hátt.
Til fjölda ára voru haldin helgarnámskeið sem í upphafi voru vel sótt en með breyttum tíðaranda var þeim fundinn annar farvegur og í dag hefur námið verið sett upp sem fjarnám og er boðið upp á nám á fyrstu þremur stigum þjálfaramenntunarinnar. Þetta fyrirkomulag gefur öllum möguleika á að taka þátt hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Það eru engar staðbundnar lotur en nemendur þurfa að taka út íþróttaæfingar, gagnrýna þær og skila inn vandaðri umsögn. Nemendur fjarnámsins fá allt námsefni sent heim en auk þess eru glærur og annað efni ásamt slóðum inn á greinar aðgengilegt inni á fjarnámsvefnum.
Fjarnámið er haldið þrisvar á ári, á vorönn, sumarönn og haustönn. Fjarnám 1. stigs stendur yfir í 8 vikur og skila nemendur verkefnum vikulega auk þess sem nokkur krossapróf eru lögð fyrir. Til skýringar má segja að 1. stigs nám jafngildir ÍÞF 1024 í framhaldsskólum landsins, eða 60 kennslustundum, enda um sama námsefni að ræða. Fjarnám 2. og 3. stigs tekur 5 vikur þar sem sérgreinaþáttur námsins á þeim stigum hefur meira vægi. Um og yfir hundrað þjálfarar útskrifast árlega á hinum ýmsu stigum menntunarinnar.
Allir þjálfarar sem ljúka einhverjum hlutum námsins fá þjálfaraskírteini sem er samræmt fyrir allt námið, almennt sem sérhæft og einnig fer starfsreynsla og staðfesting á skyndihjálparnámskeiðum inn á þetta sama skírteini. Þetta er til mikils hægðarauka, íþróttaþjálfarar þurfa aðeins eitt skírteini sem allar upplýsingar fara inn á.
Viðar Sigurjónsson
Skrifstofustjóri Akureyri
Yfirumsjón með Þjálfaramentun & Fyrirmyndarfélagi ÍSÍ