Þá er hann loksins upprunninn, tími jólahlaðborðanna. Landinn mætir spenntur, búinn að svelta sig í nokkra daga til að geta hámað í sig allskyns girnilegan jólamat og fínerí sem sælkerakokkar landsins hafa matreitt af mikilli snilld.
Ef fólk gerði sér grein fyrir því gríðarlega magni matarleifa sem skafið er af diskunum á hverju jólahlaðborði myndu vonandi flestir fá aðeins fyrir hjartað. En hvaða máli skiptir þetta? Megum við ekki bara njóta þess að borða, smakka, taka áhættu og ekki pína ofan í okkur eitthvað sem okkur finnst ekki bragðgott, heldur hafa frelsi til að skipta því út fyrir aðra spennandi rétti?
Til eru margar sögur af gráðugu hefðarfólki sem stundaði það að borða yfir sig, hlaupa síðan út, losa sig „smekklega“ við matinn og koma aftur inn með bros á vör með nægt pláss í maganum til að borða meira. Íslendingar stunda þennan sið vonandi ekki lengur en það að fleygja afgöngum á hlaðborði er samt í grunninn það sama.
Í matnum sem skafinn er af diskunum eru mikil verðmæti. Kjötið, grænmetið, ávextirnir og kornið var sumt ræktað hinum megin á hnettinum, flutt til Íslands, sett á diskinn okkar og svo skafið af og hent í ruslið. Virðingin sem við ættum að hafa fyrir matnum er horfin. Við gætum alveg eins hent peningaseðlum í ruslið.
En hvað er til ráða? Auðvelt er að fara margar ferðir á hlaðborðið og setja lítið á diskinn í hverri ferð til að smakka, sérstaklega af framandi réttum sem við vitum ekki hvort við munum borða. Við getum smakkað einn og einn rétt í einu og komið þannig í veg fyrir að allt blandist saman og verði að einum hrærigraut á diskinum sem að lokum verður svo ógirnilegur að hann endar í ruslinu. Einnig er sniðugt að skoða allt hlaðborðið áður en byrjað er að raða á diskinn, svo hann sé ekki fullur þegar loks er komið að uppáhaldsréttinum. Munum líka að njóta þess að borða. Til að mynda er ekki gott að fara sársvangur á hlaðborð því þá getur græðgisdýrið í okkur tekið öll völd, það kannast ég vel við sjálf. Það er því lykilatriði að geta hamið sig þegar heilu fjöllin af mat eru í boði og það eina sem plagar mann er valkvíði og svo svekkelsi yfir að geta ekki borðað meira. Jólahlaðborðshaldararnir geta líka stuðlað að minni matarsóun með því að vera ekki með of mikið framboð af mat, bjóða uppá litla diska og brýna fyrir fólki að taka ekki meira en það getur torgað. Sumir veitingastaðir erlendis hafa reynt að sporna gegn matarsóun með því að rukka fólk aukalega ef það klárar ekki af diskunum og það getur verið hvati fyrir suma að hemja sig.
Gott væri ef afgöngum af jólahlaðborðum, sem klárast ekki og nýtast ekki daginn eftir, væri komið til hjálparsamtaka á borð við Fjölskylduhjálp, Hjálpræðisherinn, Rauða krossinn, Samhjálp og fleiri aðila sem taka við slíkum mat feginshendi. Þetta mega einstaklingar einnig hafa í huga eftir fjölskylduboðin, því margir á Íslandi eru því miður svangir um jólin. Allur auka matur er vel þeginn, það verður bara að passa að kæla hann vel svo hann skemmist ekki.
Við skulum ekki vera græðgisgrísir þessi jól, veltast um emjandi af ofáti og þurfa svo að strengja áramótaheit til að ná af okkur aukakílóunum í janúar. Sýnum gott fordæmi og gerum það töff að henda ekki mat.
Skoðaðu síðuna "Saman gegn matarsóun" HÉR.
Góða skemmtun á jólahlaðborðunum og gleðileg jól!
Rannveig Magnúsdóttir, doktor í líffræði og verkefnisstjóri hjá Landvernd