Kókosolía er frábær rakabomba. Ég hef nánast ekki notað neitt annað krem en kókosolíu á líkamann í mörg ár og þegar ég uppgötvaði fyrst hversu dásamlega kókosolían virkar á líkamann þá gaf ég öllum eina krukku í jólagjöf það árið. Mér finnst hún gefa húðinni minni þann raka sem hún þarf, gefur henni fallegan gljáa og olían sýjast beint inn í húðina og er alls ekki neitt pirrandi. Hún er víst náttúrulega örverudrepandi, full af andoxunarefnum og mér finnst hún mjög róandi fyrir húðina. Fyrir þá sem finnst lyktin af henni ekki góð þá fæst hún lyktarlaus.
Stundum nota ég kókosolíu til að taka af mér farða og hún er líka frábær augnhreinsir. Maðurinn minn notar oft kókosolíu sem rakakrem í andlitið og það geri ég af og til líka. Ég set hana á mig áður en ég fer í sól því einhvers staðar las ég að hún væri frábær sem sólarvörn. Ég veit nú ekkert um það en alla vega virkar það fyrir mig. Ég bý mér stundum til baðsalt og nudda þá saltinu saman við kókosolíu til að búa til líkamsskrúbb. Eftir á verður húðin eins og ný og silkimjúk. Börnin mín fá stundum kókosolíu á kroppinn sinn og út í baðið. Þeim finnst það algjör lúxus.
Ég nota kókosolíu í hárið á mér og stelpunum mínum sem eru með frekar sítt hár til að fá raka og gljáa í hárið og það er dásamlegt að setja hana í hárið áður en farið er í gufu. Kókosolía er víst mjög góð fyrir þurrt og illa farið hár.
Kókosvatn er algjör snilld. Það er það besta sem ég veit eftir erfiða æfingu og sérstaklega eftir hot yoga. Í hitanum tapast nefnilega steinefni og sölt úr líkamanum með svitanum og kókosvatn inniheldur mjög mikið af hvoru tveggja eins og kalíum og magnesíum sem er mjög gott fyrir vökvajafnvægið. Ég vel hreint kókosvatn því sumar tegundir innihalda fullt af sykri og það er frábær vökvi í boost sem og kókosmjólk. Ég nota einnig kókosmjólk í súpur og bakstur og það er hægt að búa til rjóma úr kókosmjólk með því að geyma hana í ísskáp því þar skilur hún sig og nota þá kremið sem rjóma og vatnið í t.d. boost. En svo er einnig til kókosrjómi (coconut cream) sem er t.d. tilvalinn í bakstur.
En nýjasta nýtt hjá mér er oil pulling. Það er gömul aðferð úr ayurvedískum fræðum sem er sögð hafa mjög góð áhrif á tannheilsu, dregur úr bakteríum í munni og gerir þær hvitari. Ég hef lengi vitað af þessari aðferð og fundist hún spennandi en aldrei prufað fyrr en fyrir stuttu. Svona ferðu að:
Það er víst best að gera oil pulling á morgnana áður en eitthvað er sett ofan í maga. Mér finnst best að gera þetta þegar allir eru farnir í skólann því ég verð nú aðeins að tala við heimilisfólkið mitt áður en þau halda út í daginn og ekki talar maður mikið með fullan munninn af olíu. Þannig að ég skelli þessu bara yfirleitt í munninn þegar ég er að ganga frá eftir morgunmat og sinna heimilisstörfum. Svona þegar ég man eftir að gera þetta það er að segja.
Grein: Valdís Sigurgeirsdóttir : vefsíða www.ljomandi.is