Hvað er köld lungnabólga ?
Lungnabólga af völdum örveru, sem nefnist berfrymingur (mycoplasma). Henni fylgir ekki eins hár hiti og hefðbundinni bakteríulungnabólgu og er því nefnd köld lungnabólga (afbrigðileg lungnabólga). Berfrymingasýkingu fylgir ekki alltaf lungnabólga.
Hver er orsökin?
Sýking af völdum berfryminga (mycoplasma), sem smitast á milli fólks með munnvatni og slími.
- Örveran berst þó aðeins á milli manna við náin samskipti. Þess vegna er algengt að hún berist á milli fjölskyldumeðlima, skólasystkina og vistmanna á stofnunum.
- Það er tilgangslaust að einangra smitaða einstaklinga því smitberar geta verið einkennalausir.
- Faraldur brýst út á u.þ.b. 3-5 ára fresti.
- Berfrymingasýking er algengust hjá þeim sem eru á aldrinum 5-20 ára og eru oftast væg einkenni.
Hver eru einkennin?
Meðgöngutími berfrymingasýkingar, þ.e. tíminn frá smiti þar til einkenni koma fram, er 2-3 vikur. Þau eru:
- höfuðverkur
- vöðvaverkir
- óþægindi í hálsi
- þurr hósti, sem getur varað í nokkrar vikur
- yfirleitt lágur hiti, en hár hiti útilokar ekki, að um kalda lungnabólgu sé að ræða
- uppgangur (slím) sem getur fylgt hóstanum, en hann er oftar einkenni hefðbundinnar bakteríulungnabólgu.
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
- Greiningin byggist á sjúkrasögu og læknisskoðun. Læknirinn hlustar lungu sjúklingsins með hlustunarpípu en lungnahlustun á sjúklingi með berfrymingalungnabólgu getur verið eðlileg.
- Læknirinn getur tekið blóðsýni og leitað að mótefnum gegn berfrymingum.
- Röntgenmynd af lungum styður greininguna. Klínísk einkenni sjúklingsins eru oft ekki í samræmi við útbreiðslu lungnabólgunnar á myndinni, þ.e. mikilli lungnabólgu fylgja ekki endilega mikil einkenni og öfugt.
Batahorfur
Það er tiltölulega auðvelt að lækna afbrigðilega lungnabólgu. Hún hefur sjaldnast fylgikvilla í för með sér hjá annars heilbrigðum einstaklingi.
Hver er meðferðin?
Við kaldri lungnabólgu er gefið sýklalyf.
Heimild: doktor.is