Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari segir lýðheilsu eilíft baráttumál; aldrei sé of mikið gert til að freista þess að bæta heilsu fólks og koma í veg fyrir allskonar kvilla.
Morgunblaðið tók viðtal við Gauta um almenna heilsu á tímum Covid og fengum við góðfúslegt leyfi þeirra til að birta viðtalið hér.
Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari segir lýðheilsu eilíft baráttumál; aldrei sé of mikið gert til að freista þess að bæta heilsu fólks og koma í veg fyrir allskonar kvilla. Það eigi ekki síst við á tímum sem þessum, enda sé hinn þráláti heimsfaraldur streituvaldandi fyrir marga, ekki síst eftir því sem á hann líður.
Kórónuveirufaraldurinn hefur dregist á langinn og Gauti Grétarsson, sjúkraþjálfari hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur, líkir ástandinu sem mestöll heimsbyggðin býr við um þessar mundir við ástandið á átakasvæðum, svo sem Gaza. Þar sem fólk búi við stöðuga óvissu og ótta sem eðli málsins samkvæmt valdi álagi og streitu.
„Til allrar hamingju búum við ekki við stríðsátök og sprengjuárásir á Íslandi en ígildi þess eru fréttirnar af faraldrinum sem hafa dunið á okkur nær samfellt í að verða tvö ár. Þær hafa óhjákvæmilega áhrif á streituupplifun fólks, það er kortisól og önnur streituhormón sem geta valdið sjúkdómum. Því fleiri sem bylgjur faraldursins verða þeim mun fleiri draga sig inn í skel.“
Að dómi Gauta er það engin tilviljun að fólki með stoðkerfisvandamál og -sjúkdóma fari fjölgandi. Það sé oftar en ekki afleiðing af rangri öndun, það er fólk fari að anda upp í axlirnar vegna streitu og í framhaldinu fari keðjuverkun af stað fyrir allt stoðkerfið.
Hann segir mikilvægt að vera í réttri líkamsstöðu en viðvarandi slæm líkamsstaða geti haft slæmar afleiðingar fyrir stoðkerfið. Í því sambandi nefnir hann það sem kallað er „síma- eða tölvuhnakki“ sem er afleiðing viðvarandi rangrar líkamsstöðu vegna símanotkunar eða vinnu fyrir framan tölvu. Það lýsir sér með þeim hætti að hálsinn sígur fram og öndunin verður erfiðari.
Hefur áhrif á taugaflæði
Hann hvetur fólk til að huga að skjátíma sínum og hvernig það sitji eða standi við tölvuna. Og stilla símanotkuninni í hóf. „Þetta hefur verið vandamál frá því að tölvu- og farsímavæðingin brast á og hefur síst skánað í faraldrinum, þegar margir hafa þurft að vinna heima við ófullnægjandi aðstæður,“ segir Gauti. „Röng staða á hálsi hefur áhrif á taugaflæði frá hálstaugum en þriðja til fimmta hálstaug stjórna krafti þindar og þannig öndun. Við það að kraftur þindar og virkni minnkar eykur það á öndun upp í herðar sem orsakar streituöndun og minnkaða súrefnisupptöku. Það getur verið mikið mál að laga það.“
Hann nefnir einnig sígilda þætti eins og of mikla sykur- og koffeinneyslu og of lítinn svefn. „Gleymum því ekki að 80% sjúkdóma eru afleiðing lífsstíls og hegðunar.“
En hvernig ætlum við að vinda ofan af þessari þróun?
Gauti segir marga alla jafna stunda einhæfa hreyfingu og varla hafi ræst þar úr í faraldrinum. Þegar fólk fái ekki almenna hreyfingu sé verið að bjóða hættunni heim. „Hafi einhvern tíma verið tækifæri til að vekja athygli á þessu þá er það núna; brýna mikilvægi almennrar og reglulegrar hreyfingar fyrir fólki,“ segir hann og hvetur fólk til að leita sér ráðgjafar, ef það sé óöruggt um hvernig það eigi að fara að.
Hann segir eðlilegt að höfuðáhersla sé á sóttvarnir á tímum sem þessum og heilbrigðiskerfið með þríeykið í broddi fylkingar hafi staðið sig svakalega vel í baráttunni gegn veirunni. „Það vantar bara að leggja meiri áherslu á hvað hver og einn getur gert til að hlúa að eigin heilsu. Það sá enginn fyrir að þessi faraldur myndi standa svona lengi og það er okkar sem vinnum í þessu umhverfi, sjúkraþjálfara, lækna og annarra, að benda á þessar afleiddu afleiðingar.“
Biðlistar að lengjast
Að sögn Gauta hafa biðlistar í sjúkraþjálfun jafnt og þétt verið að lengjast enda fari fólki með dæmigerða streituverki fjölgandi. Þá séu ýmsir lemstraðir eftir að hafa fengið Covid og þurfi að byggja sig upp aftur. „Það tekur tíma að endurheimta þrek og þol og fólk hefur farið misjafnlega út úr þessum smitum, jafnvel þeir sem verða ekkert endilega veikir. Sumir eru lengi að komast aftur á sama stað og þeir voru á.“
Langvarandi ástand eins og Covid getur líka verið til þess fallið að hraða öldrun hjá fólki, að dómi Gauta. Sjálfur kveðst hann sjá breytingu á sumum á þessum tveimur árum. „Við höfum tæki og tól til að hægja á þessu ferli, við þurfum bara að færa okkur það í nyt.“
Engin formleg rannsókn liggur fyrir en Gauti yrði ekki hissa ef meðalþyngd Íslendinga hefði aukist um eitt til tvö kg í faraldrinum. „Það er mikilvægt að fólk geri einfaldar liðkandi æfingar, helst kvölds og morgna og stundi fjölbreyttari hreyfingu eins og fram hefur komið. Það þarf ekki að vera svo langur tími í hvert skipti; nóg að gera fimm til tíu ólíkar æfingar sem reyna á hreyfanleika og styrk. Þannig erum við betur í stakk búin að mæta mótlæti.“
Eitt af þeim ráðum sem Gauti gefur okkur er að nota augun meira til að horfa í kringum okkur, ekki síst þau okkar sem vinna mikið við tölvur. Okkur hætti með tímanum við því sem kallað er „tunnel vision“ sem aftur dragi úr eðlilegri hreyfingu. „Þetta er hluti af þessari keðjuverkun sem ég gat um áðan. Eitt leiðir af öðru. Allt er þetta spurning um orsök og afleiðingu og við verðum að vera vakandi fyrir þessum áhættuþáttum.“
Fleiri jákvæðar fréttir
Gauta þykir ekki síður brýnt að huga að andlegu hliðinni og þyrmi yfir fólk eigi það að hætta að hlusta á neikvæðni í fréttum. „Það er mál sem fjölmiðlar þurfa líka að taka til sín. Auðvitað þarf að fjalla um faraldurinn, stöðuna, horfur og annað slíkt, en í öllum bænum leggið meira upp úr jákvæðari fréttum í bland. Fólk sem fer utan talar um hversu kærkomna hvíld það hafi fengið frá faraldrinum, hvergi í heiminum sé fjallað eins mikið um Covid og á Íslandi. Það er umhugsunarvert, ekki síst með hliðsjón af andlegri líðan.“
Enda þótt veiran yggli sig nú er Gauti sannfærður um að lokaspretturinn í þessu óvissumaraþoni sé loksins framundan. „Við erum búin að standa okkur vel fram að þessu en hvað gerum við á lokasprettinum? Það er undir hverjum og einum komið. Það er styttra í markið en margur heldur!“
Hér er hægt að fara í greinarsafn mbl.is