Hin dæmigerða mynd af hjartaáfalli er því byggð á dæmigerðum einkennum karla. Margir segja að konur upplifi ódæmigerð einkenni hjartasjúkdóma þegar þær fá hjartaáfall, aðrir segja að konur upplifi dæmigerð einkenni kvenna þegar þær fá hjartaáfall, það hafi hins vegar gleymst bæði að rannsaka og kynna þessi einkenni nægjanlega vel. Af þessum ástæðum var ráðist í verkefni eins og Go Red-verkefnið á sínum tíma, til þess að afla fjármuna til rannsókna byggðar á konum og leggja í alþjóðaátak til að dreifa þekkingunni.
Kvíði og hjartasjúkdómar ferðast oft saman og í þessari stuttu grein ætla ég að varpa smá ljósi á tengsl kvíða við hjartasjúkdóma. Það merkilega er nefnilega að einkenni kvíða minna um margt á einkenni sem gætu komið frá hjartanu. Dæmi um algeng einkenni kvíða er hraður hjartsláttur, tilfinning um þyngsli fyrir brjósti, erfiðan eða þungan andardrátt, stingur eða verkur í brjósti, svimi og sviti.
Kvíði algengur
Kvíði er algengur hjá hjartasjúklingum. Það er ógnvænlegt að veikjast lífshættulega og óttinn um endurtekin veikindi hrjáir marga. Ef þessi ótti verður viðvarandi og dvínar ekki eftir að jafnvægi og bata er náð og læknir hefur úrskurðað ástæðulaust að óttast, þá gæti óttinn verið að þróast yfir í kvíða. Fyrir marga þýðir þetta að einkenni kvíða eru túlkuð sem einkenni frá hjarta.
Sjúklingar trúa ekki orðum lækna um að allt sé í lagi. Margir velkjast um í heilbrigðiskerfinu, fara í læknisskoðanir, hjartalínurit, ómskoðanir og hjartaþræðingar en sama hvað aðhafst er þá finnst ekkert að og einkennin þráast við. Nema rétt eftir skoðun þegar einkennum léttir. Skoðunin létti á kvíðanum. En léttirinn er skammvinnur. Kannski var ekki gerð rétt rannsókn. Kannski fór eitthvað fram hjá lækninum. Kvíðinn eignast líf sem aldrei fyrr, enda lítið sem hjartalyf geta gert til að létta á kvíða.
Það eru til ýmsar leiðir til að losna við kvíða. Til dæmis eru til margrannsakaðar aðferðir sem sálfræðingar beita í meðferð sinni og sé rétt staðið að málum og sjúklingar tilbúnir til að gera það sem þarf fer kvíðinn fljótt að gefa eftir. Margir upplifa þá aukinn líkamlegan bata þar sem einkenni minnka, hugrekki eykst og margir takast þá einnig af meiri krafti á við líf sitt, breyttan lífsstíl og aðlagast betur breyttum aðstæðum. Allt eykur þetta heilbrigði og minnkar líkur á áframhaldandi veikindum.
Konur fá seinna greiningu
Þá er það hin hlið kvíðans. Konur geta auðvitað einnig upplifað dæmigerð karlaeinkenni hjartaáfalls eins og stingandi verk fyrir brjósti sem leiðir út í vinstri handlegg en oft eru einkenni hjartaáfalls hjá konum óljósari eins og t.d. meltingartruflanir, óútskýrður slappleiki og þreyta, sviti, ógleði, svimi, já og kvíði. Konur lenda því oftar í því en karlar að leita læknis vegna einkenna sem eiga uppruna sinn í hjartanu en fá þau svör að þær þurfi bara að léttast, hreyfa sig, fara í frí og hvíla sig, minnka stress eða að þetta sé bara kvíði.
Það er ekki að ástæðulausu að dönsku hjartasamtökin hafa staðið fyrir herferð undanfarin ár sem ber yfirskriftina „ef þú færð hjartaáfall, þá skaltu vona að þú sért karlmaður", því sökum meiri þekkingar á hjartasjúkdómum karla fá þeir fyrr rétta greiningu og meðferð og þegar hjartað er annars vegar skiptir tími sköpum.
Í hraða samfélagsins og þar með í heilbrigðisþjónustunni, niðurskurði og síauknu álagi hefur það aldrei verið mikilvægara en nú að bera ábyrgð á eigin heilsu. Allar konur þurfa að kynna sér einkenni hjartasjúkdóma kvenna og bera saman við fjölskyldusögu sína og áhættu miðað við lífsstíl.
Ég hvet lækna til að taka orð kvenna alvarlega, vera vakandi fyrir ólíkum einkennum þeirra og gera frekar óþarfa nákvæma læknisskoðun en senda konur heim með leiðbeiningarbækling um heilbrigða þyngd. Ég hvet því konur til að vera vakandi fyrir kvíðanum í báðar áttir og kynna sér einkenni kvenna þegar kemur að hjartasjúkdómum.
Ekki taka kvíða sem útskýringu án undangenginnar læknisskoðunar til að útiloka hjartasjúkdóma. Taktu heldur útskýringu og greiningu á kvíða gilda eftir að læknir hefur skoðað þig vel og sagt að hjartað sé í lagi og fáðu þá aðstoð við að taka á kvíðanum.
Mjöll Jónsdóttir, sálfræðingur
Heimild: hjartalif.is