Kynferðisofbeldi er samheiti yfir margskonar atferli, sem á það sameiginlegt að þolendur þess eru beittir ofbeldi, sem ofbeldismaðurinn færir í kynferðislegan farveg. Kynferðisofbeldi miðar að því að lítillækka, auðmýkja, ráða yfir og skeyta ekki um vilja eða líðan þess sem fyrir því verður. Fólk á öllum aldri er beitt kynferðisofbeldi og það birtist í mismunandi formi. Það getur t. d. verið sifjaspell, kynferðisofbeldi ókunnugra gegn börnum, nauðganir, vændi, klám og kynferðisáreitni á vinnustöðum og annarsstaðar. Þá er líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi gegn konum í fjölskyldum einnig skilgreint sem kynferðisofbeldi. Oftast eru konur og börn beitt kynferðisofbeldi og ofbeldismennirnir eru nánast allltaf karlar. Í þessari umfjöllun verður fjallað um tvö form kynferðisofbeldis, sifjaspell og nauðganir. Ýtarlegri umfjöllun um þetta efni er að finna í fræðslubæklingum um sama efni, sem höfundur hefur gert fyrir Stígamót.
Nauðgun er einn af alvarlegustu glæpunum sem beinast að einstaklingum, aðeins mannsmorð er litið alvarlegri augum skv. hegningarlögum. Nauðgun er kynbundið ofbeldi. Það eru karlar sem nauðga konum, börnum og öðrum körlum. Í þessum bæklingi verður notað samheitið kona yfir þolendur nauðgunar í ljósi þess að það eru oftast konum og unglingsstúlkum sem er nauðgað.
Nauðgun snertir ekki aðeins konuna sem fyrir henni verður, nauðgun snertir alla þá sem standa henni nærri. Nauðgun er smánarblettur á samfélaginu og er því í senn persónuleg ógæfa og samfélagslegt vandamál.
Þrátt fyrir þetta ríkja margs konar goðsagnir tengdar nauðgunum, konum, sem er nauðgað, og nauðgurum. Hér verður vikið að sex algengustu og lífseigustu fordómunum eða goðsögnunum.
Fyrst er til að nefna þá goðsögn að konur vilji láta nauðga sér, þær njóti þess. Vel þekkt afbrigði af þessari goðsögn er að konur segi nei þegar þær meini já. Engin kona vill láta nauðga sér. Nauðgun er ofbeldisafbrot sem miðar að því að niðurlægja konuna og hafa vald yfir henni. Konur lýsa nauðgun sem því hræðilegasta sem fyrir þær hafi komið og mörgum finnst þær vera – og þær eru oft – í lífshættu, þegar þeim er nauðgað. Konur hvorki njóta slíkrar reynslu né óska eftir henni.
Önnur velþekkt goðsögn er að konur eigi nauðgunina skilið, þær hafi beðið um hana, t. d. með klæðaburði eða með því að gefa karlmanni undir fótinn. Annað afbrigði er að konur geti sjálfum sér um kennt verði þær fyrir nauðgun, þær hafi tekið áhættu með því t.d. að fara einar út eða með því að þiggja bílfar.
Ekkert réttlætir nauðgun, nauðgarinn einn er ábyrgur gerða sinna. Án tillits til aðstæðna á kona rétt á því að segja nei hvenær sem er og nei þýðir nei. Nauðgun er fyrst og fremst ofbeldisverk, kynferðislegar athafnir eru sá farvegur sem ofbeldismaðurinn velur ofbeldi sínu. Konum er nauðgað við ýmis konar aðstæður, án tillits til útlits, aldurs eða hegðunar þeirra.
Þriðja goðsögnin gefur til kynna að aðeins vissum hópi kvenna sé nauðgað. Dæmi um þetta eru hugmyndir um að aðeins þeim konum sé nauðgað, sem búa í fátækrahverfum, konum sem eru kynferðislega virkar, konum, sem lifa áhættusömu lífi og konum, sem áður hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Slíkar hugmyndir eru gjörsamlega úr lausu lofti gripnar. Erlendar rannsóknir og starfsemi Stígamóta sýna að hættan á nauðgun fer ekki í manngreinarálit. Hvaða kona sem er getur orðið fyrir nauðgun.
Fjórða goðsögnin beinist að því að konur ljúgi því að þeim hafi verið nauðgað í því skini að hefna sín á árásarmanninum, sem þær tilnefna. Afbrigði af þessari goðsögn er að frásögn þeirra sé ekki að treysta, þær ýki og rangtúlki atburði til þess að vernda eigið orðspor. Slíkar goðsagnir eru ekki á rökum reistar. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að aðeins 2% af tilkynntum nauðgunum eigi ekki við rök að styðjast, en það er sama hlutfall og í öðrum tilkynntum afbrotum.
Í fimmtu goðsögninni er því haldið fram, að konur hefðu getað komið í veg fyrir nauðgunina hefðu þær bara veitt mótspyrnu. Því er haldið fram að ekki sé hægt að nauðga konu gegn vilja hennar og ef hún beri ekki líkamlega áverka, hljóti hún að hafa viljað hafa kynmök við ofbeldismanninn. Enginn fótur er fyrir þessari goðsögn. Sumir nauðgarar beita konur líkamlegu ofbeldi, flestir gera það ekki. Hinir síðarnefndu hóta oft öllu illu, t.d. að nota vopn ef konan hreyfi sig eða að meiða barn hennar eða aðra nákomna henni.
Nauðgun kemur konum alltaf á óvart og margar konur lýsa því að þegar þær geri sér grein fyrir því hvað nauðgarinn ætlast fyrir, lamist þær, hræðslan og ógnin samfara nauðguninni hindri þær í að berjast við nauðgarann. Enn aðrar konur meta aðstæður þannig að veiti þær mótspyrnu kunni það að kosta þær lífið.
Síðasta goðsögnin sem hér verður drepið á snertir nauðgarana. Sagt er að þeir séu geðrænt sjúkir einstaklingar eða búi við mikið andlegt álag. Oft er einnig reynt að skýra hegðun þeirra með því að þeir misnoti áfengi eða lyf eða að þeir hafi sjálfir orðið fyrir kynferðisofbeldi sem börn. Loks er ofbeldi þeirra skýrt með því að þeir hafi ekki getað haft stjórn á kynhvöt sinni.
Engin þessara skýringa stenst. Rannsóknir á dæmdum kynferðisofbeldismönnum sýna að þeir eru almennt ekki geðveikir. Þeir búa heldur ekki við meira andlegt álag en gerist og gengur. Sumir þeirra hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi sem börn, en flestir þeirra ekki. Nauðgarar nauðga bæði undir áhrifum áfengis/lyfja og allsgáðir. Þrátt fyrir miklar rannsóknir hefur sem sé hvorki tekist að einangra einhver persónuleika- einkenni né lífsreynslu sem leiði til þess að einstaklingur nauðgi eða beiti öðru kynferðisofbeldi. Hugmyndir um að karlar geti ekki haft stjórn á kynhvöt sinni fær heldur ekki staðist. Rannsóknir hafa leitt í ljós að um 80% nauðgana eru skipulagðar að hluta til eða að öllu leyti áður en nauðgarinn lætur til skarar skríða. Þegar fleiri en einn taka sig saman og nauðga sömu konunni, hafa þeir alltaf undirbúið nauðgunina.
Það er hvorki stjórnlaus kynhvöt, sjúklegir eiginleikar né utanaðkomandi aðstæður, sem fá karla til að nauðga. Nauðgun er í eðli sínu ofbeldi, sem miðar að því að lítillækka, niðurlægja og kúga þann, sem er nauðgað. Nauðgun undirokar konur á hrottafullan hátt undir vilja karla og vitundin um hættuna á nauðgun er ógn sem takmarkar og heftir frelsi allra kvenna.
Goðsagnirnar, sem minnst hefur verið á hér að ofan, eru til þess fallnar að ala annars vegar á fordómum, sem beinast að fórnarlömbum nauðgana og fela í sér að þau beri ábyrgð á því ofbeldi sem þau verða fyrir. Hins vegar miða goðsagnirnar að því að réttlæta gerðir ofbeldismannsins með því að þeir séu sjúkir eða hafi ekki fulla stjórn á sér og að gera lítið úr nauðgun sem ofbeldi, jafnvel að láta líta svo út að nauðgun sé „eðlileg“ eða réttlætanleg. Þar með er dregið úr ábyrgð nauðgarans á því ofbeldi, sem hann fremur. Jafnframt er sárri reynslu kvenna af nauðgunum og þeirri ógn sem öllum konum stendur af þeim afneitað.
Konur hafa því á grundvelli reynslu sinnar skilgreint nauðgun sem kynferðisofbeldi karla þar sem sjálfsákvörðunarréttur kvenna er virtur að vettugi og réttur þeirra til sjálfsstjórnar er brotinn á bak aftur.
Enginn veit með fullri vissu hversu algengar nauðganir eru. Það er þó ljóst að nauðgun er kynbundið ofbeldi; það eru karlar sem nauðga. Oftast nauðga þeir konum en stundum einnig kynbræðrum sínum. Vandaðar erlendar kannanir á tíðni nauðgana benda til að nauðganir séu miklu algengari en almennt hefur verið talið. Í Bandaríkjunum er t.d. talið að konu sé nauðgað á fjórðu hverri mínútu.
Í viðurkenndum bandarískum könnunum á tíðni nauðgana (Koss og Harvey, 1991) kemur fram að 44% kvenna, eða nánast önnur hver kona hafi að minnsta kosti mátt þola eina nauðgun eða nauðgunartilraun. Jafnframt sýna þessar kannanir að helmingur þeirra hafi verið beittar nauðgun oftar en einu sinni. Oftast er konum nauðgað á heimili sínu og oftast er nauðgarinn einhver sem konan þekkir, svo sem eiginmaður/sambýlismaður hennar, fyrrverandi eiginmaður/sambýlismaður, góður vinur/kunningi eða ættingjar. Í ofangreindum rannsóknum kemur einnig fram að aðeins í 11% tilvika þekkti konan ekki nauðgarann. Lítið brot (8%) nauðgananna var kært til lögreglu eða tólfta hver nauðgun.
Engar íslenskar kannanir eru til um tíðni nauðgana hér á landi. Einu upplýsingarnar um þetta efni er að fá úr ársskýrslum Stígamóta og Neyðarmóttöku Landsspítala háskólasjúkrahúss Fossvogi. Þar kemur fram fjöldi þeirra kvenna, sem leita til þessara aðila vegna nauðgana. Ársskýrslur lögreglu gefa einnig til kynna fjölda nauðgunarkæra, sem berast til þeirra. Dæmi um þessar tölur eru að árið 1991 leituðu 77 konur til Stígamóta vegna nauðgana. Sama ár bárust Rannsóknarlögreglu ríkisins 16 nauðgunarkærur. Árið 1992 höfðu 159 kvennanna sem leituðu til Stígamóta verið nauðgað, en á því ári bárust 17 nauðgunarkærur til Rannsóknarlögreglunnar. Í ársskýrslu um neyðarmóttöku vegna nauðgana árið 1999 kemur fram að það ár leituðu 110 konur til þeirra vegna nauðgana. Í ársskýrslum Stígamóta kemur í ljós að konurnar þekktu nauðgarana í nærri 80% tilvika. Þó að þessar tölur gefi aðeins takmarkaða mynd af fjölda nauðgana hér á landi eru þær þó vísbending um tvennt. Annars vegar, að hér eins og annars staðar, er aðeins lítill hluti nauðgana kærður til lögreglu og hins vegar, að konur verða oftast fyrir nauðgun frá kunnugum eða nákomnum karlmönnum.
Áður hefur verið minnst á að karlmönnum sé einnig nauðgað. Tölur um hversu algengt það er eru þó mjög á reiki. Í bandarískum könnunum kemur fram að frá 0.6 til 7% karla hafi verið nauðgað og að nauðgararnir eru karlar. Svo virðist sem hrottafengnu líkamlegu ofbeldi sé oft beitt í slíkum nauðgunum.
Aðdragandi nauðgunar.
Þegar konur greina frá nauðgunum, sem þær hafa verið beittar, eru ýmsir þættir í lýsingum þeirra sameiginlegir. Nauðgun kemur konum alltaf á óvart. Flestar konur eru þegar á unga aldri varaðar við ókunnugum körlum og margar okkar halda að nauðgarar séu auðþekkjanlegir á útlitinu. Fæstar konur gera sér grein fyrir þeirri staðreynd, sem þegar hefur verið drepið á, að konum er oftast nauðgað af körlum sem þær þekkja. Karl, sem ætlar að nauðga, ber það ekki með sér, hvorki í útliti né hegðun. Það er því ekki fyrr en á einhverju stigi í aðdraganda nauðgunar að það rennur upp fyrir konunni hvað nauðgarinn ætlast fyrir. Nauðgun kemur því konum alltaf í opna skjöldu, hvort sem nauðgarinn er einhver sem við þekkjum eða ekki.
Sjaldnast er konum nauðgað á götum úti eða á víðavangi þannig að á þær sé skyndilega ráðist. Í slíkum tilvikum er nauðgarinn ókunnugur konunni og það er hrein tilviljun hvaða kona verður fyrir barðinu á honum. Fórnarlambið hefði eins getað verið einhver önnur kona, sem átti þar leið um. Flestar nauðganir eiga sér stað á heimilum, heima hjá konunni, heima hjá nauðgaranum eða á heimili kunningja konunnar eða nauðgarans. Nauðgun, hvort heldur nauðgarinn er ókunnur eða kunnugur, er þannig ekki eitthvað sem gerist utan venjulegs lífs okkar eins og goðsagnirnar gefa til kynna. Venjulegar, hversdagslegar aðstæður, sem hvaða kona sem er getur verið í, breytast skyndilega í nauðgunarárás, ákveði karlmaður að nauðga konu.
Konur sjá oft eftir á, að nauðgarinn hefur undirbúið nauðgunina, t.d. með því að haga því svo til að hann sé einn með konunni, en þegar nauðgunina ber að, upplifa þær hana sem skyndiárás, eins og þrumu úr heiðskíru lofti. Nauðgarar nota sér einangrun og/eða undrun kvenna til þess að reyna að koma fram vilja sínum og yfirbuga þær.
Við búumst ekki við nauðgun þegar við erum með fólki sem við þekkjum og treystum. Hið sama á við þegar við förum út að skemmta okkur. Við reiknum með að þar gildi hefðbundnar leikreglur um samskipti kynjanna, án tillits til hvort við höfum farið til þess að kynnast einhverjum af hinu kyninu eða ekki. Nauðgun er konum ekki efst í huga þegar þær fara í partí, á skemmtistað, í matarboð og fjölskylduboð svo eitthvað sé nefnt.
Konur líkja oft líðan sinni, meðan á nauðgunarárásinni stendur, við það að vera í einangrandi tómi þar sem tilfinningin um einmanaleika er sterkust. Nauðgunarreynslu fylgir einnig sú tilfinning að missa alla stjórn á lífi sínu og aðstæðum. Því fylgir mikill ótti og ásækin tilfinning um að vera í lífshættu. Sumar konur lýsa einnig skyndilegri breytingu á atferli eða viðmóti nauðgarans, þegar þær gera sér grein fyrir að hann ætli í raun að nauðga þeim, sem einu af því hræðilegasta varðandi upphaf árásarinnar.
Sumar konur missa meðvitund þegar árásin hefst, ýmist vegna þess að þær hljóta höfuðhögg vegna áfallsins, sem árásin hefur í för með sér eða vegna sársauka. Aðrar bregðast hart við árásinni og veita mótspyrnu. Sumum tekst að sleppa en mótspyrna annarra hindrar ekki nauðgarann og sumar bera líkamlega áverka eftir slík átök. Aðrar konur lýsa því hvernig áfallið, sem fylgir því að upplifa það að venjulegar aðstæður breytast skyndilega í nauðgunarárás, verði til þess að lama þær gersamlega þannig að þær geta enga mótspyrnu veitt. Enn aðrar lýsa því hvernig þær hafi einsett sér að halda ró sinni meðan á nauðguninni stendur.
Haldi konan fullri meðvitund og sé dómgreind hennar og viðbrögð ekki skert vegna neyslu áfengis eða lyfja, beinist öll hugsun hennar, eftir að nauðgunarárásin er byrjuð, að því að reyna að sjá fyrir hvað nauðgarinn geri næst og hvernig hún geti sloppið eða brugðist við ofbeldinu.
Konur reyna þannig að meta aðstæður sínar og þær velja þá leið til að lifa árásina af, líkamlega og tilfinningalega, sem aðstæður og mat þeirra á þeim leyfir. Sumar konur loka sig tilfinningalega frá því sem er að gerast. Aðrar lýsa því hvernig tilfinningar þeirra sveiflast milli ótta og reiði meðan á nauðguninni stendur. Hafi reiðin yfirhöndina í upphafi nauðgunarinnar verður hún oft til að konan reynir að verja sig, þó ótti fremur en reiði geti líka stjórnað því að konur reyna að takast á við nauðgarann.
Það eru því ekki til nein rétt eða röng viðbrögð við nauðgun, þau eru einstaklingsbundin, tengjast sjálfsmynd okkar, hvernig við lítum á annað fólk, fyrri lífsreynslu okkar, bakgrunni okkar og síðast en ekki síst aðstæðum þegar nauðgunin á sér stað. Öll viðbrögð kvenna við nauðgun eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum og þau miða að því að reyna að hafa einhverja stjórn á eigin líf.i Aðeins sá, sem hefur lent í kringumstæðum þar sem annar tekur með valdi alla stjórn, getur að fullu skilið hversu mikilvægt það er fyrir konur að hafa einhverja stjórn meðan á nauðguninni stendur og eftir hana.
Það er einstaklingsbundið hvernig konum gengur að komast yfir afleiðingar nauðgunar og ná aftur fullri stjórn á lífi sínu. Hér á eftir verður fjallað um þætti tengda nauðguninni, sem virðast vera öllum konum sameiginlegir. Fyrst verður vikið að líkamlegum afleiðingum nauðgunar.
Fyrstu dagana eftir nauðgun eru líkamlegar afleiðingar mest áberandi. Stundum bera konur áverka eftir nauðgun, svo sem beinbrot og marbletti, einkum á útlimum, hálsi og andliti. Sumar konur eru fullar orku og afar virkar fyrst eftir nauðgun, jafnvel í ríkara mæli en fyrir nauðgun. Skýringin á þessu er sú að adrenalínstreymið í líkamanum eykst til muna við árásina og hefur ekki náð jafnvægi aftur. Streituviðbrögð líkamans eftir nauðgunaráfallið, valda því einnig að meiri vökvi en venjulega safnast í líkamann og þvaglát kunna að vera tíðari meðan jafnvægi er að komast á. Stundum fylgir mikil þreytutilfinning vökvatapinu. Jafnvægi í líkamsstarfsemi næst yfirleitt innan 7-10 daga.
Tiltölulega algengt er að konur fái martraðir, svefntruflanir, höfuðverk, ýmiss konar verki, kláða, uppköst, skjálfta og önnur líkamleg áfallseinkenni eftir nauðgun. Þessi eðlilegu ósjálfráðu líkamlegu viðbrögð standa mislengi og það er einstaklingsbundið hversu hörð þau eru. Standi þau lengi, þ.e. í 2-4 vikur, virðast þau lengja tímann sem nauðgunarárásin stendur konum ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Flestar konur, sem er nauðgað, verða fyrir ósjálfráðum langtíma viðbrögðum, sem nefna mætti svipmyndir eða það sem á ensku nefnist „flash-back.“ Slíkar svipmyndir, þar sem einhver brot úr nauðgunarárásinni skjóta skyndilega upp kollinum í huga konunnar án þess að hún fái við ráðið, eru afar truflandi og ógnandi. Oftast koma svipmyndirnar í tengslum við ákveðna snertingu, lykt eða aðrar ytri aðstæður, sem minna á nauðgunina. Svipmyndirnar geta fylgt í kjölfar nauðgana í marga mánuði, jafnvel ár. Þær eru ekki merki um sjúklegt ástand heldur að í undirmeðvituninni er konan að glíma við tilfinningaleg eftirköst nauðgunarinnar.
Varanleg líkamleg eftirköst nauðgana geta verið kynsjúkdómasýkingar og alnæmismit, sé nauðgarinn haldinn slíkum sjúkdómum, svo og innri blæðingar. Einnig verða konur stundum ófrískar eftir nauðgun. Af þessum sökum er konum, sem er nauðgað, mikil nauðsyn á að fara í læknisskoðun.
Nauðgun er alla jafnan alvarlegasta lífsreynslan, sem konur verða fyrir. Henni fylgir mikið tilfinningalegt umrót og upplausn. Fyrstu tilfinningalegu viðbrögð kvenna eftir nauðgun geta verið með ýmsu móti. Tilfinningarnar tengdar því áfalli sem nauðgun er geta brotist út óheftar svo sem í miklum gráti, reiði, hræðslu og/eða í því að konan talar í sífellu um nauðgunina, oft samhengislítið. Aðrar konur geta virst sallarólegar og yfirvegaðar. Þær segja skýrt og greinilega frá því sem gerst hefur og sýna engin tilfinningaleg viðbrögð. Enginn skyldi ætla að það sé til marks um raunverulega líðan konunnar. Tilfinningalegu viðbrögðin eru einstaklingsbundin. Þau eru alltaf eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum eins og áður hefur verið bent á. Það hefur sýnt sig, að fyrstu tilfinningaviðbrögð kvenna eftir nauðgun eru ekki til marks um hvernig þeim tekst að glíma við eftirköst nauðgunar þegar frá líður.
Fyrstu vikurnar eftir nauðgun er nauðgunarárásin miðpunkturinn í vitund konunnar. Þegar frá líður þokast minningin um nauðgunina til hliðar og konur reyna að lifa lífinu eins og þær gerðu fyrir nauðgun. Margar konur vilja þá ógjarnan tala um reynslu sína, en reyna að gleyma henni. En nauðgun hefur svo djúpstæð áhrif á tilfinningalíf kvenna og sjálfsmynd þeirra, að þeim tekst sjaldnast að gleyma henni án þess að tilfinningaleg úrvinnsla eigi sér stað. Það er því algengt að utanaðkomandi atvik eða innri spenna verði til þess að leysa minninguna um nauðgunina aftur úr læðingi, jafnvel mánuðum eða árum eftir nauðgunina og þá hefst glíman við afleiðingarnar á ný.
Sá tími sem konur þurfa til að ná aftur tökum á lífinu eftir fyrstu áfallsviðbrögðin er breytilegur og einstaklingsbundinn. Sumar konur virðast að mestu geta komist hjá alvarlegum eftirköstum nauðgana, geti þær frá upphafi sagt við sjálfar sig af fullri sannfæringu „nauðgunin var ekki mér að kenna, ég ber ekki ábyrgð á henni.“ Þær skilgreina nauðgunina fyrir sjálfum sér sem ópersónulega árás, sem hvaða kona sem er, hefði getað orðið fyrir. Reiðin yfir óréttinum beinist ekki að þeim sjálfum, hún finnur sér farveg þangað sem hún á að leita, að nauðgaranum.
Efst í huga flestra kvenna eftir nauðgun eru þó spurningar eins og hvers vegna kom þetta fyrir mig? Af hverju ég? Af hverju sá ég ekki fyrir hvað mundi gerast og hvað hefði ég getað gert til þess að koma í veg fyrir nauðgunina? Konur byrja þannig oftast á að leita skýringa á nauðguninni hjá sjálfum sér og líta á hana sem persónulega árás, þ.e. að nauðgunin beinist að þeim sem persónum vegna einhvers í fari þeirra sjálfra. Ástæður þessa eru vafalítið félagsmótun og valdalítil staða kvenna og ríkjandi fordómar gagnvart fórnarlömbum nauðgana.
Þegar konur skilgreina nauðgunina fyrir sjálfum sér sem persónulega árás er oft stutt í sektarkenndina. Sektarkenndin getur verið tengd því hvaða augum konan lítur sjálfa sig, hvernig hún metur rétt sinn til þess að hafa stjórn á eigin aðstæðum og líkama. Sektarkenndin getur líka verið tengd því hvernig konan upplifir mat annarra á sér.
Þetta þýðir ekki að konur gefist upp, innra með þeim blundar reiði yfir þeim órétti, lítilsvirðingu og ofbeldi, sem þær hafa verið beittar, þó reiðin beinist oft að þeim sjálfum. Þegar konur geta farið að nota reiðina til að byggja sig upp og láta reyna á styrk sinn, getur reiðin verið af hinu góða þó hún fái ekki útrás gagnvart nauðgaranum persónulega. Að komast yfir afleiðingar nauðgunar er sem sagt ferli, sem tekur konur mislangan tíma að glíma við. Ákveðnar aðstæður, sem vikið verður að hér að neðan, virðast þó alltaf hafa áhrif á hversu langur sá tími verður.
Helstu eftirköst nauðgana, sem konur glíma við, eru brotin eða skert sjálfsmynd, sektarkennd, erfiðleikar í kynlífi og þunglyndi. Flestum konum sem er nauðgað finnst að nauðgunin spilli þeim, þær séu annars flokks, „skemmd vara“ eftir nauðgunina. Sjálfsmat þeirra og sjálfsmynd riðlast og traust þeirra á körlum bíður oft varanlegan hnekki. Afleiðingar neikvæðrar sjálfsmyndar og þess að njóta ekki stuðnings eftir nauðgun geta stundum orðið til þess, að konur skaða sjálfar sig vitandi vits fyrstu mánuðina eftir nauðgunina. Stundum grípa konur líka til þess að misnota áfengi eða lyf til að deyfa sársaukann, þegar svo stendur á.
Erfiðleikar í kynlífi tengist þessum þáttum, svo og því hvernig tilfinningar kvenna eru til eigin líkama eftir nauðgunina. Finnist konum að líkami þeirra hafi breyst, hafi verið skemmdur eða niðurlægður varanlega, finnst þeim að öðrum hljóti að finnast þær ógeðslegar og/eða að aðrir særi þær eða vinni þeim tjón á ný.
Það sem skiptir sköpum þegar unnið er úr erfiðleikum í kynlífi er að báðir aðilar leggi sig fram og sýni gagnkvæman skilning, þolinmæði og vilja til að ræða nauðgunina og þær tilfinningar sem kynmök vekja. Ótrúlega margar konur, að ekki sé talað um karla, eiga erfitt með að gera sér grein fyrir að nauðgun hefur áhrif á samband kynjanna og að neikvæðar tilfinningar kvennanna til líkama síns hafi áhrif á kynlíf þeirra.
Finnist konum á hinn bóginn að nauðgunin hafi verið tilviljun, ópersónuleg árás, sem ekki skaðaði sjálfsmynd þeirra, þegar þær geta látið í ljós reiði út í aðra og þegar þær hafa góðan stuðning, ganga þessar neikvæðu tilfinningar til líkamans fyrr yfir. Konur geta þá smám saman viðurkennt að þær séu áfram aðlaðandi, að þær hafi kynferðislegar tilfinningar og langanir, án þess að þær tengist minningunni um nauðgunina.
Þunglyndi, depurð og sorg eru eftirköst nauðgunar sem margar konur glíma við. Þunglyndi eftir nauðgun getur orðið langtíma vandamál, fái konur ekki góðan stuðning eftir nauðgun, þrengi þær niður öllum tilfinningum fyrst eftir nauðgunina og geti þær ekki fengið útrás fyrir reiði og aðrar tilfinningar í garð nauðgarans og annarra. Það skiptir því miklu máli að konur eigi kost á stuðningi sem miðar að því að aðstoða þær við að tjá tilfinningar og líta á nauðgunina sem ópersónulega árás.
Þunglyndið er svörun við því að finnast maður ekki hafa neina stjórn á lífi sínu og tilveru en einnig viðbragð við reiði sem beinist inn á við. Þunglyndi og depurð leiða oft til sjálfsvígstilrauna, kvíða, svefntruflana, óvirkni, einangrunar og það viðheldur litlu sjálfsmati.
Ætla mætti, að það hversu miklu ofbeldi er beitt við nauðgun, væri áhrifamikill þáttur varðandi afleiðingar nauðgana og glímu kvenna við þær. Svo virðist þó ekki vera. Þættir eins og það hvort konan þekkir nauðgarann eða ekki, hvernig hann skilur við konuna eftir nauðgunina, hvort hún segir frá nauðguninni og þá hverjum og hvernig þeir bregðast við, virðast ekki síður hafa mikil áhrif á hvernig konum gengur að vinna úr afleiðingum nauðgunar. Skýringanna er vafalaust að leita í áhrifum þessara þátta á það hvernig konum gengur að endurheimta sjálfsvirðingu sína og tilfinninguna fyrir því að hafa stjórn á lífi sínu.
Þekki konan nauðgarann eða ef hann er henni nákominn takmarkar það oft valkosti konunnar eftir nauðgunina. Það skiptir máli hvort líklegt sé að hún hitti nauðgarann aftur og neyðist til að umgangast hann. Það hefur áhrif á val hennar á trúnaðarmanni svo og hvort hún hugleiðir að kæra nauðgunina og síðast en ekki síst hafa tengslin við nauðgarann áhrif á hvort nauðgunin brýtur niður traust konunnar á fólki fremur en traust hennar á hæfni sinni til að meta aðstæður.
Það, hvernig nauðgarinn skilur við konu eftir að nauðgunin er afstaðin, veldur einnig miklu um hvernig henni gengur að jafna sig eftir ofbeldið. Viðskilnaðurinn getur verið með ýmsu móti. Nauðgarinn getur lokið nauðguninni með ógnunum, sem ýmist beinast að konunni sjálfri og/eða þeim sem næst henni standa, t.d. börnum hennar. Með því að beita ógnunum tryggir nauðgarinn sér yfirhöndina og fulla stjórn á aðstæðum allt til loka. Ógnanir valda miklu hugarangri, einkum fyrst eftir nauðgun. Þær hafa áhrif á hvort, hverjum og hvenær kona segir frá nauðgun. Auk þess hafa þær áhrif á hvort kona kærir nauðgun.
Ljúki nauðgun á hinn bóginn á þann veg að konan fái að fara eins og ekkert hafi gerst, þegar nauðgarinn er búinn að ljúka sér af, veldur það oft sektarkennd. Nauðgarinn virðist velja slíkan endi meðvitað til þess að reyna að rugla dómgreind konunnar svo hún segi síður frá nauðguninni. Þegar svona stendur á eykur viðskilnaður nauðgarans á auðmýkinguna og lítilsvirðinguna, sem fylgir því að vera nauðgað, og konum finnst þær hafa enn minni stjórn á aðstæðum. Dæmi: Nauðgarinn skildi við konu liggjandi á gólfinu heima hjá henni eftir nauðgunina og tuldraði um leið og hann gekk burt „við sjáumst.“ Þessi kona lýsti tilfinningum sínum þannig: „Ég veit ekki við hverju ég bjóst, afsökun, ógnun eða einhverju sem hefði gefið til kynna að hann gerði sér grein fyrir hvað hann hafði gert. Það, að hann sagði þetta, jók einmanakennd mína og auðmýkingu meira en nokkuð annað.“ Svipaðar tilfinningar fylgja því ef nauðgarinn lýkur nauðguninni með gamanyrði eða er vingjarnlegur allt til loka. Nauðgarinn er ekki aðeins að nauðga, hann ætlar sér að rugla mat konunnar á því sem hefur gerst og skilgreina það sjálfur.
Stundum enda nauðganir jafn skyndilega og þær byrja vegna þess að nauðgarinn er truflaður. Þó það sé í sjálfu sér léttir fyrir konuna, getur það líka orðið til þess að einhver annar tekur alla stjórn í sínar hendur. Aðeins þær konur sem geta af eigin rammleik flúið frá nauðgaranum hafa á tilfinningunni að þær hafi sjálfar getað bundið enda á nauðgunina. Það léttir konum að ráða við eftirköst nauðgunartilraunarinnar. Það skiptir miklu máli um það hvernig konum tekst að glíma við afleiðingar nauðgana að þær geti valið og haft fulla stjórn á hvort, hvenær og hverjum þær segja frá nauðgun. Velji konan sjálf trúnaðarmann er það einnig líklegra til að tryggja konunni góðan stuðning án þess að hún þurfi að láta stjórnartaumana í hendur trúnaðarmanns síns. Hafi konur ekkert val í þessu efni finnst þeim þær auðsæranlegri og glíman við að ná aftur stjórn á lífinu verður langvinnari.
Miklu máli skiptir því hvernig brugðist er við þegar kona segir frá nauðgun. Finnist henni að sá sem hún talar fyrst við um nauðgunina mæti henni með vantrú eða skilningsleysi leiðir það oft til þess að henni finnst erfitt að leita stuðings og aðstoðar annars staðar. Það getur líka haft í för með sér að konan tali ekki um nauðgunina, leyni henni og berjist ein við afleiðingar hennar.
Næst verður vikið að því hvernig aðstandendur og vinir geta best veitt fórnarlömbum nauðgunar stuðning.
Hér að framan hefur aftur og aftur verið vikið að mikilvægi þess að kona, sem hefur verið nauðgað, eigi aðgang að stuðningspersónu, sem hún sjálf treystir og velur. Stígamót veita konum sem verða fyrir nauðgun og aðstandendum þeirra stuðning og ráðgjöf eins lengi og þau sjálf kjósa. Flestar konur, sem hefur verið nauðgað, leita eftir stuðningi einhverra, sem þær treysta. Sumar konur leita til vinkonu og/eða aðstandenda, aðrar kjósa að halda nauðguninni leyndri fyrir sínum nánustu, en leita stuðnings annars staðar, t.d. til Stígamóta. Enn aðrar leita stuðnings hjá báðum þessum aðilum. Ákvörðunin um hvort og hvert hún leitar stuðnings á alltaf að vera konunnar.
Umhugsunin um nauðgun vekur hjá mörgum andstæðar tilfinningar og viðhorf gagnvart konu, sem hefur verið nauðgað. Tilfinningar eins og samúð, löngun til að vernda, ásökun, viðbjóður, fyrirlitning, reiði, depurð og vonleysi kunna að skjóta upp kollinum. Orðið eitt er sem sagt tilfinningahlaðið og vekur oft fordóma. Stuðningur nýtist því aðeins konum, að hann byggi á fordómaleysi, stjórnist ekki af ríkjandi goðsögnum og að frásögn þeirra sé trúað. Þegar við stöndum frammi fyrir konu sem hefur verið nauðgað er óhjákvæmilegt að taka afstöðu. Trúum við frásögn konunnar?
Ef ekki, þá tökum við í raun afstöðu með nauðgaranum.
Konur, sem hefur verið nauðgað, eru að jafnaði einkar viðkvæmar fyrir viðbrögðum annarra. Einkum á þetta við ef þær eru haldnar sektarkennd eða skammartilfinningu eða þeim finnst að þær hafi breyst við nauðgunina. Margar konur óttast einnig að þeim verði ekki trúað eða að skoðanir annarra á þeim breytist. Það er því nauðsynlegt að samræmi sé milli orða okkar og æðis. Hversu vel viðeigandi sem orð okkar kunna að vera, verða þau marklaus ef svipbrigði okkar eða látbragð eru ekki í fullu samræmi við það sem við segjum. Stuðningsaðilar verða því að vera heilir og sannir í stuðningi sínum.
Allur stuðningur á að miðast við og stuðla að því að konan nái aftur þeirri stjórn á lífi sínu, sem hún missti við nauðgunina. Gullin regla er því að taka ekki ráðin af konunni. Velmeintar ákvarðanir og framkvæmdir vina, fjölskyldu og fagfólks geta verið nánast eins ógnandi og nauðgunin, séu þær ekki teknar og gerðar í fullu samráði við konuna. Það fyrsta sem við verðum því að temja okkur er að taka ekki stjórnina, hversu freistandi sem það kann að virðast að „gera eitthvað.“ Það besta sem við getum gert er að hlusta, hvetja konuna til að tjá sig um atburðinn og tilfinningar sínar og að vera til staðar fyrir hana. Við verðum einnig að reyna að setja okkur í hennar spor, reyna að horfa á hlutina frá hennar sjónarhorni. Nauðsynlegt er að minnast þess, að það er mikilvægt skref í átt að því að konan nái aftur stjórn á lífi sínu og glími við afleiðingar nauðgunarinnar, að hún geti talað um nauðgunarárásina. Smáatriðin í nauðguninni skipta konur miklu máli og að geta talað um þau aftur og aftur er besta leiðin til að komast yfir eftirköstin.
Eigi kona erfitt með að byrja að tala um árásina og viðbrögð sín við henni, getum við reynt að hvetja hana til að tala með því að spyrja hana út í atburðina. Vilji kona ekki tala um nauðgunina, verðum við að koma til skila til hennar að við virðum þá ákvörðun hennar, en að við séum tilbúin að aðstoða hana og tala um hlutina þegar hún vilji.
Miklu skiptir að minnast þess að nauðgunin hefur svipt konuna traustinu á hversdagsöryggi daglegs lífs, breytt sjálfsmati hennar og mati hennar á eigin aðstæðum. Það er ekki konan sjálf sem hefur breyst, ekki persónuleiki hennar, heldur skilningur hennar á sjálfri sér, samskiptum fólks og stöðu hennar í heiminum. Ein ung kona orðaði þetta svo að hún hefði glatað sakleysi sínu þegar henni var nauðgað. Ekki má gleyma mikilsverðum þætti í stuðningi aðstandenda og vina við konu, sem hefur verið nauðgað, en það er alls kyns praktískur stuðningur veittur í samráði við konuna. Sem dæmi má nefna aðstoð við að létta af henni tímabundið daglegum skyldum, svo sem barnaumönnun og vinnu. Einnig er mikilvægt að aðstoða konuna við að tryggja líkamlegt öryggi sitt þannig að hún eigi auðveldara með að byggja aftur upp öryggistilfinningu og ná stjórn á lífi sínu. Þarfirnar varðandi öryggisráðstafanir eru misjafnar eftir því hvort nauðgunin á sér stað heima eða annars staðar og eftir því hvort nauðgarinn er ókunnugur eða kunnugur.
Óumflýjanlegt er að minnast hér á kyn þess, sem hjálpar og veitir þolanda nauðgunar stuðning. Flestar konur leita stuðnings hjá kynsystrum sínum, vinkonum og aðstandendum. Ástæðan er vafalaust sú, að þær vænta meiri skilnings og stuðnings frá þeim en körlum og finnst jafnframt auðveldara að tala við þær um reynslu sína. En karlar koma líka við sögu kvenna sem er nauðgað. Þeir eru eiginmenn, elskhugar, feður, bræður og vinir þeirra. Samskipti við þá verða þolendum nauðgunar oft vandamál. Sumir karlar eru afar vanbúnir því að veita tilfinningalegan stuðning og að tala um tilfinningar. Þeir kunna einnig að finna til samblands reiði og sektarkenndar yfir því að kynbræður þeirra nauðgi.
Almennt eru karlar vanari því en konur að taka af skarið. Þá er stutt í að bregðast við með því að segja „það sem þú átt að gera er . . .“ Að gera eitthvað, að segja öðrum fyrir verkum, finnst mörgum auðveldari leið en að horfast í augu við að ekkert er hægt að gera annað en að vera til staðar.
Öllum finnst okkur vafalaust erfitt að sitja bara og horfa á konu gráta. Að leyfa einhverjum að gráta ótruflað er ekki skeytingarleysi. Það er stuðningur fólginn í því að gefa konunni svigrúm til þess að sýna tilfinningar sínar. Í því felst að vera í tengslum við hana, einbeita sér að henni, hugsa um hana, virða tilfinningar hennar og að sýna hluttekningu sína.
Eina vitneskja sumra karla um nauðgun kann að byggja á goðsögnum og fordómum, er sem sagt byggð á sjónarhorni nauðgara, og það getur ruglað þá í ríminu ætli þeir að veita konu stuðning. Þeir kunna t.d. að óttast að konan hafi notið þess að vera nauðgað. Karlar verða að gera sér grein fyrir að skilningur þeirra á nauðgun er oft ekki í samræmi við reynslu kvenna af nauðgun. Nauðgun er ekki kynlíf. Að spyrja konu hvort hún hafi notið nauðgunar er hliðstætt því að spyrja þann sem hefur verið barinn í klessu hvort það hafi ekki verið gott.
Sá karlmaður getur ekki veitt stuðning, sem lítur á nauðgun sem kynlíf, finnst hún æsandi og kitlandi og/eða finnst eðlilegt að líta svo á að eign þeirra (konunni) hafi verið spillt.
Rétt og skylt er í þessu sambandi að taka fram að sumar konur, sem hefur verið nauðgað, hafa notið ómetanlegs stuðnings nákominna karla í glímunni við eftirköst nauðgunar. Boðskapurinn til allra sem vilja veita þolanda nauðgunar stuðning og hjálp er í hnotskurn þessi:
Að sjálfsögðu eru ekki til nein ákveðin tímamörk um það hve langan tíma það tekur fyrir konu að ná sér eftir nauðgun. Þó ýmsir þættir í viðbrögðum kvenna við nauðgun séu sameiginlegir, þá er nauðgun einnig sérstæð persónuleg reynsla hverrar konu um sig.
Þegar talað er um að kona hafi náð sér, byggir það á hennar eigin mati. Hún getur t.d. hugsað um nauðgunina án þess að missa tilfinningalega stjórn. Tilfinningaáhrif nauðgunarinnar eru ekki lengur yfirþyrmandi, það er hægt að gefa þeim nafn og þola þau án uppnáms og tilfinningaróts og án þess að vera tilfinningalega dofinn. Konan getur haft stjórn á því að muna. Hún getur valið um að muna eða muna ekki atvik sem áður þrengdu sér óboðin í vitundina í formi ógnvekjandi martraða og svipmynda. Dregið hefur úr kvíða og ótta og depurð og kynlífserfiðleikar eru víkjandi. Konan hefur einnig endurheimt tengsl við aðra. Dregið hefur úr einangrunarþörf hennar og traust hennar á öðrum fer vaxandi.
Konan hefur fundið einhvers konar merkingu í áfallinu og skilning á sjálfri sér í tengslum við það. Þegar best lætur geta konur sagt skilið við hugmyndina um að þær séu annars flokks, skemmd vara, eftir árásina. Þær finna þess í stað fyrir persónulegum styrk og sannfæringu um gildi sitt sem einstaklinga. Þær eru sterkari en nokkru sinni fyrr. Konur geta þá orðað, syrgt og sagt skilið við það sem tapaðist við nauðgunarárásina og haldið lífinu áfram. Í stað sjálfsásakana finna þær nú fyrir endurheimtu sjálfsáliti og sjálfsvirðingu. Þær eru ekki lengur fórnarlömb. Þær hafa lifað nauðgunina af líkamlega og tilfinningalega.
Nauðgun er refsivert athæfi og varðar við almenn hegningarlög. Hér verður það ferli sem við tekur, kæri kona nauðgun ekki rakið, en vísað til umfjöllunar um það í bæklingi Stígamóta um nauðgun.
Af vef doktor.is