Hvaðan fá þessir sjálfmenntuðu einstaklingar þessar ranghugmyndir endalaust? Ekki í háskóla svo mikið er víst enda eru í slíku námi flestir þættir næringar kenndir og ekki bara það sem nemendur hafa áhuga á (e. Cherry picking).
En til að tryggja að ég sé ekki misskilinn þá vil ég taka það skýrt fram að mataræði sem er með mjög lágu hlutfalli kolvetna getur heldur betur aðstoðað þegar kemur að því að minnka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Það er nefnilega margt sem bendir til þess að einföld kolvetni, þ.e.a.s. sykur, sé einn stærsti sökudólgurinn þegar kemur að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma á Vesturlöndum.
En kolvetni eða sykur eru ekki meginorsök offitu í vestrænum ríkjum. Ofneysla matar er þar um að kenna og þar með talið ofneysla á kolvetnum og sykri. En samt vilja margir sjálfmenntaðir lýsa því yfir að yfirvöld og næringarfræðingar beri ábyrgð á offitu vegna þess að þessi batterí hafi, í gegnum tíðina, mælt með endalausri neyslu á kolvetnum. Síðast í gær sá ég eftirfarandi texta sem dæmi: „Af hverju eru næringarfræðingar sem eru menntaðir til þess að leiðbeina fólki í akkúrat svona málum, ekki búnir að nefna þessa leið áður ef hún er svona árangursrík?“
Að benda á stjórnvöld eða næringarfræðinga á Íslandi og segja að þeir hafi ekki gefið frá sér leiðbeiningar sem stuðla að heilsu fólks er auðvitað fásinna og sýnir fádæma vanþekkingu, enda þarf ekki annað en að líta á fæðuhring Embætti landlæknis (sjá hér) til að sjá að ráðleggingar eru ekki með þessum hætti. Þeir sem gagnrýna stjórnvöld fyrir lýðheilsuráðleggingar undanfarinna ára og áratuga eru ekki að ruglast á bandarískum og íslenskum ráðleggingum, er það nokkuð?
Svo er annað mál hvernig farið er eftir þessum ráðleggingum og því miður bera þeir sjálfmenntuðu gríðarlega ábyrgð á því að fæstir Íslendingar vita hvað þeir eiga að leggja sér til munns. Af hverju er það? Er það vegna margbreyttra eða fjölbreytilegra ráðlegginga stjórnvalda? Nei, það er vegna þess að alltof margir kjánar hafa vaðið uppi á Íslandi, sérstaklega sl. 10-15 ár, og ruglað fólk í ríminu. Hentu út þessu! Þetta er bannað! Bara 32.5 grömm af þessu! Verður að drekka einn lítra af þessu ef þú færð þér þetta og það verður að vera klukkan þetta! Og alls ekki flétta á næstu blaðsíðu í metsölubókinni minni því þá sérðu hvað þú mátt borða á morgun og þá fer allt í rugl!
Hvernig í ósköpunum á fólk að skilja þetta? Af hverju þarf að hafa ráðleggingar svo flóknar að áhugi manna kemur vegna þess að fólk skilur ekki neitt? Af hverju þarf alltaf að fara í öfgarnar og henda hlutum út? Pylsur eru matvæli sem ég fæ mér afar sjaldan. En þýðir það að þær séu ALDREI í boði hjá mér eða minni fjölskyldu? Nei auðvitað ekki enda er í fínu lagi fyrir flesta að fá sér sjaldnar af því sem óhollt er en á móti að vera oftast í hollustu.
Og hvað er hollt? Hollt mataræði er hófsamt mataræði þar sem skammtastærðir eru með þeim hætti að magn hitaeininga sem er neytt eru í réttu hlutfalli við þær hitaeiningar sem er brennt/eytt. Svo ætti fólk að fylgja fæðuhringnum sem segir að um 33% af matnum sem við borðum ætti að koma frá ávöxtum og grænmeti, um 33% frá kjöti og öðrum próteinríkum afurðum sem og mjólkurvörum og þriðjungur úr fitu annars vegar og korni og öðrum kolvetnaríkum/sterkjuríkjum matvælum hinsvegar. Þetta er ekki flókið. Stjórnvöld geta svo ekki borið ábyrgð á því þegar neytendur velja lélegustu kolvetnin úr síðasttalda flokknum. Stjórnvöld geta nefnilega ekki heldur borið ábyrgð á því að foreldrar margir hverjir hafa ekki dug í sér til þess að koma hollari brauði inn í mataræði barna sinna enda alltof margir foreldrar í vinsældakeppni þegar kemur að uppeldi barna sinna.
Þannig að ef þú velur að kaupa hvítt brauð, franskbrauð, í stað þess að velja t.d. heilkorna brauð, Lífskorn frá Myllunni sem dæmi, þá er það þitt val. Þú ert að ákveða að kaupa brauð sem getur haft neikvæð áhrif á heilsu þína. Sömu sögu er að segja um foreldra sem leyfa börnum sínum að vaða í nammi alla daga eða í fáránlegu óhófi um helgar; þau eru að leyfa börnum sínum að tefla heilsu sinni í hættu! Svo einfalt er það og stjórnvöld koma þar hvergi nærri!
Ef kolvetni væru svona afskaplega slæm þá væru t.d. flestir Japanir, Kínverjar og Tælendingar dauðir enda þeirra mataræði stútfullt af hrísgrjónum sem eru kolvetni að upplagi. En þessar þjóðir hafa í gegnum tíðina borðað hóflega af flestum mat og það eitt er það sem er hvað eftirtektaverðast.
Og af hverju í ósköpunum á að henda út nánast öllum ávöxtum eins og mælt er með í fyrrnefndri bók? Veit þetta fólk ekki að efnaskipti ávaxtasykurs/ frúktósa eru að mestu leyti ólík efnaskiptum annars sykurs? Vita þau ekki að frúktósi úr ávöxtum hefur nánast engin áhrif til hækkunar blóðsykurs? (Til þess að ítreka það sem hér stendur þá hefur ávaxtasykur áhrif á blóðsykur þegar ávexti eru borðaðir en áhrifin eru mun mun minni en til dæmis þegar fólk drekkur sykrað gos. Vissar tegundir ávaxta hafa meiri áhrif aðrir t.d. bananar og appelsínur en ef hóflega er neytt af þessu þá á það ekki að koma að sök. Hver og einn sá sem er sykursjúkur verður þó að finna út hvaða ávextir henta best. Ávaxtasafar eru þó undanskyldir og ætti ávallt að neyta þeirra í hófi enda geta áhrifin á blóðsykur orðið ansi snörp ef mikils er neytt). Af hverju vita þau þetta ekki? Sennilega af því að það vakti ekki áhuga þeirra og var sennilega ekki nógu öfgakennt að leyfa ávexti í mataræðinu því allar öfgar selja ekki satt? En eins og með allt annað þá er neysla á of miklum frúktósa ekki af hinu góða enda getur hann þá t.d. farið illa með lifrina og aukið tíðni hjarta- og æðasjúkdóma. Því eru ávextir ávallt í lagi en stilla ætti neyslu á ávaxtasöfum í hóf enda auðveldara að neyta of mikils matar þegar hann er á fljótandi formi. Eins ætti að fara mjög varlega í neyslu á vörum, öðrum en ávöxtum, sem í er frúktósi, t.d. vörum sem eru með kornsýróp með háu hlutfalli frúktósa (e. high fructose corn syrup).
Kolvetni komu ekki frá kölska sjálfum! Kolvetni eru frábær uppspretta mýmargra vítamína og steinefna, trefja (ef lítið unnið korn er valið t.d. heilkorna) og hjálpa okkur m.a. að hafa góðar hægðir, geta farið út að hlaupa, halda uppi góðri einbeitingu og margt, margt fleira. Hér er þó lykil atriði að velja réttu kolvetnin og tryggja þannig að heilsa okkar haldist góð sem allra lengst.
Í guðanna bænum hættið þessu rugli! Hættið að rugla neytendur og farið nú að segja sannleikann í stað þess að ljúga til þess eins að selja bók eða selja gjörsamlega ónauðsynleg og hugsanlega hættuleg fæðubótarefni!
Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.