Leghálsskoðun er einföld rannsókn en mjög mikivæg sem heilsuvernd. Því vill Leitarstöð Krabbameinsfélagsins minna þig á að koma reglulega til leghálsskoðunar.
Í leghálsslímhúðinni eru frumur sem geta breyst og þróast yfir í krabbamein. Þessar frumubreytingar eru almennt kallaðar forstigsbreytingar og er unnt að greina þær með frumustroki frá leghálsi. Ef breytingar verða er hægt að grípa inn í þá þróun með minni háttar aðgerð og koma þannig í veg fyrir að krabbamein nái að myndast.
Algengustu orsakir eru sýkingar af völdum HPV- veira (Human Papilloma virus) sem smitast við samfarir. Mest er áhættan hjá stúlkum, sem byrja mjög ungar að lifa kynlífi, hafa marga rekkjunauta og/eða reykja. Aukin áhætta fylgir frjálsræði beggja kynja í kynlífi. Fleiri þættir virðast þó jafnframt geta haft áhrif svo sem aðrar sýkingar í kynfærum.
Megintilgangur leghálsskoðunar er að fá frumustrok. Læknirinn notar lítinn tréspaða og bursta til að taka frumusýni frá yfirborði leghálsins. Sýnið er sett á smásjárgler sem er litað og síðan skoðað í smásjá á frumurannsóknarstofu. Að jafnaði tekur um þrjár vikur að fá niðurstöðu úr frumustrokinu. Langflest sýni eru eðlileg. Athugið að leghálsstrok á ekki að taka meðan á blæðingum stendur.
Ef sýnið þitt reynist eðlilegt ertu samt sem áður hvött til að koma reglulega í skoðun. Finnist afbrigðilegar frumur í sýninu þínu er þér sent bréf með niðurstöðum og ráðleggingum um framhald. Þér verður þá annað hvort fylgt eftir með þéttari skoðunum í ákveðinn tíma eða ráðlagt að fara í leghálsspeglun til nákvæmari greiningar. Frumubreytingar eru ekki krabbamein en krefjast alltaf nánari athugunar og eftirlits.
Þar sem krabbamein geta þróast á löngum tíma óháð aldri er mælt með að allar konur sem byrjað hafa kynlíf komi reglulega, á tveggja til þriggja ára fresti, í skoðun eftir tvítugt.
Ef þú vilt fræðast meira um leghálsskoðun og leghálskrabbamein skaltu leita upplýsinga hjá lækni eða Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í síma 540 1919. Fræðslurit Krabbameinsfélagsins liggja frammi hjá félaginu, á flestum heilsugæslustöðvum, í apótekum og víðar. Vefslóð félagsins er www.krabb.is.
Hver og ein kona getur gert ýmislegt til þess að draga úr líkum þess að fá krabbamein
Grein þessi en fengin úr bæklingnum leghálsskoðun og er gefinn út af Krabbameinsfélaginu.
Heimild: doktor.is