Efnin í markfæði sem valda þessum jákvæðu áhrifum eru almennt kölluð lífvirk efni. Hugtakið lífvirk efni þýðir í raun efni sem hafa áhrif á lífveru til góðs eða ills. Hugtakið hefur hinsvegar verið notað til að lýsa efnum sem hafa jákvæð áhrif en önnur hugtök notuð yfir efni sem eru síður til góðs eins og eiturefni eða hættuleg efni. Lífvirk efni virka á margvegu t.d með því að koma í veg fyrir eða að draga úr oxun eða niðurbroti efna í líkamanum, með því að virkja ensím í lifur sem sjá um afeitrun, með því að stöðva virkni eiturefna frá bakteríum eða vírusum, með því að koma í veg fyrir upptöku kólesteróls eða með því að drepa skaðlegar örverur í meltingarvegi.
Lífvirk efni finnast náttúrulega í mjög mörgum matvælum en í gagnagrunnum má finna um 150 mismunandi náttúruleg óunnin matvæli sem innihalda lífvirk efni. Þau finnast í einna mestum mæli í berjum og ávöxtum og væri hægt að telja upp meira en 50 tegundir þar sem lífvirk efni hafa verið greind en alþekkt er til dæmis að bláber og jarðaber innihalda mikið af lífvirkum efnum og þá sérstaklega andoxunarefnum og eru ýmis antósýanín og flavanól einna algengust. Einnig er mikið af lífvirkum efnum í mörgu grænmeti og mætti telja upp meira en 40 mismunandi gerið grænmetis sem innihalda lífvirk efni en þar eru ýmis flavanól mjög algeng. Flestar baunategundir eru í þessum hópi og sama má segja um flestar hnetur og margar rætur. Margar korntegundir innihalda einhver lífvirk efni eins og t.d. flavanól í byggi, lignín og ýmsar sýrur eins og ferúlik- og kaffínsýra í hveiti og hveitiklíði.
Margar jurtaolíur innihalda náttúrulega lífvirk efni eins og tannín í ólífurolíu, lignín í sesamolíu og ómega 3 fitusýrur í repjuolíu og sólblómaolíu. Einnig innihalda sumar drykkjarvörur lífvirk efni og er rauðvín og te líklega þektust en margar rannsóknir hafa sýnt fram á að rauðvín geti dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum en rauðvín inniheldur töluvert af antósýanínum og flavanólum. Vert er þó að benda á að súkkulaði og kakó innihalda þessi efni jafnvel í meira mæli þó það sé minna talað um það. Ýmis flavön og flavanól finnast einnig í humlum og eru því í bjór.
Almennt má þó segja að te innihaldi mest að lífvirkum efnum þegar fjallað er um drykkjarvörur en það eru mörg mismunandi flavanól þar sem mismunandi epikatesín gallöt eru einna virkust en einnig er mikið af tannínum í grænu og svörtu te. Það er hinsvegar sjaldnar talað um kaffi í þessu sambandi en kaffi inniheldur töluvert af flavanólum og ligníni ásamt kaffínsýru. Það er almennt mun minna af lífvirkum efnum í dýraafurðum en helst er um að ræða mismunandi gerðir af ómega-3 fitusýrum sem finnast í mjólkurafurðum, kjöti og þó sérstaklega í fisk og þá mest í feitum fisk. Mjög mikið af mismunandi lífvirkum efnum er að finna í þörungum bæði einþörungum og þarategundum en nú eru hafnar umfangsmiklar rannsóknir hér á landi til að kanna þennan nánast óplægða akur.
Auk matvæla sem innihalda náttúrlega lífvirk efni er mikið verið að rannsaka hvernig er best að bæta ýmsum lífvirkum efnum í unnin matvæli og eru mörg slík matvæli á boðstólnum erlendis, en þau má einnig finna í verslunum hér heima. Þetta er þó vandasamara en virðist í fyrstu vegna þess að flest lífvirk efni sem hafa verið einangruð úr sínu náttúrulega umhverfi eru mjög hvarfgjörn en lífvirknin stafar oft af því hversu auðveldlega þau hvarfast við efni í umhverfinu eins og t.d. súrefni. Vísindamenn hafa því unnið að því að þróa varnar og flutnings kerfi til að verja og flytja lífvirk efni bæði í matvælum og til að skila þeim á þann stað í líkamanum sem þau nýtast best.
Höfundur greinar:
Kristberg Kristbergsson.