Um það bil á þriðja degi eftir fæðingu, þegar mjólkin er að aukast, getur komið stálmi í brjóstin. Þau verða þrútin, aum, glansandi og heit og móðirin getur sjálf fengið hita. Erfitt getur verið fyrir barnið að ná geirvörtunni upp í sig vegna þess hve brjóstið er þrútið. Hægt er að fyrirbyggja þetta með því að láta barnið oft á brjóst. Besta lækningin við stálma er brjóstagjöf. Best er að leggja barnið oft á brjóst og jafnvel setja heitan bakstur á brjóstin fyrir brjóstagjöf til að mjólkin flæði auðveldlega. Það getur jafnvel reynst nauðsynlegt að mjólka aðeins úr brjóstunum fyrir gjöf ef barnið á erfitt með að ná geirvörtunni. Að mjólka sig í heitri sturtu getur hjálpað. Óhætt er fyrir móðurina að taka verkjalyf, eins og Panódil og Ibufen.
Getur valdið verkjum í brjóstum en þá venjulega bara í öðru brjóstinu í einu. Rauð bólguhella getur sést á brjóstinu og það getur verið heitt viðkomu yfir mjólkurganginum sem er stíflaður. Til að laga þetta er gott að hafa heita bakstra á brjóstinu og nudda það þar sem verkurinn og bólgan er. Best er að nudda fram með brjóstinu í átt að geirvörtunni. Við brjóstagjöf er gott að breyta um stellingar.
Algengt er að konur finni fyrir verkjum í geirvörtum við brjóstagjöf. Verkurinn er mestur í byrjun brjóstagjafar en minnkar svo eftir því sem líður á gjöfina. Rannsóknir hafa sýnt að allt að 96% mæðra finna fyrir verkjum á einhverju tímabili brjóstagjafarinnar. Verkurinn er venjulega mestur fyrstu vikuna en sumar konur finna fyrir þessu í margar vikur eftir fæðingu. Að lokum hætta konur svo að finna fyrir verkjum við brjóstagjöfina.
Mikilvægt er að hafa í huga að ekki sé um sveppasýkingu að ræða sem getur líka valdið verkum. Þá myndast sár á geirvörtunni og hvít skán upp í munni barnsins. Þetta þarf að meðhöndla með lyfjum. Verki í geirvörtum er erfitt að laga en krem eins og Lansinoh getur hjálpað svo og að leggja barnið á brjóst í mismunandi stellingum.
Eftir fæðingu eru miklir samdrættir í leginu sem stuðla að því að það minnki aftur. Fyrstu þrjá til fjóra dagana finna margar konur fyrir samdráttarverkjum. Mest finna þær fyrir þegar barnið er á brjósti því þá myndast hormónið oxytocin sem veldur samdráttunum. Konur sem hafa átt barn áður finna meira fyrir þessum verkum þar sem legið þeirra er venjulega slakara en þeirra sem voru að eignast sitt fyrsta barn. Það tekur um sex vikur fyrir legið að minnka endanlega. Samdráttarverkir geta verið ansi miklir en hægt er að lina þá með hitapoka, heitum bakstri, finna sér þægilega stellingu eða taka verkjalyf.
Fyrstu dagana er úthreinsunin rauð og fersk en breytist svo og verður brúnleit næstu dagana þar á eftir. Eftir u.þ.b. tvær vikur verður hún gulhvít. Úthreinsunin getur tekið allt að sex vikur. Blæðing getur aukist lítillega þegar konan fer að vera meira á fótum og einnig við brjóstagjöf. Ef skyndilega fer að blæða aftur, mikil, rauð og fersk blæðing eða vond lykt kemur af úthreinsuninni er ráðlagt að leita læknis.
Mikill þrýstingur í fæðingunni og aukið blóðflæði til kynfæra á meðgöngu valda því að oft er þetta svæði mjög aumt og bólgið eftir fæðingu. Bólgan lagast oftast á nokkrum dögum. Konur sem rifna eða hafa verið klipptar eru lengur að jafna sig og hjá konum sem hafa þurft aðstoð sogklukku eða tanga við fæðinguna geta liðið nokkrar vikur þar til þær eru orðnar góðar. Gott getur verið að nota uppblásinn hring til að sitja á fyrstu dagana og gefa barninu í útafliggjandi stellingu til að forðast þrýsting niður á kynfærin. Kaldir bakstrar geta hjálpað og sjálfsagt er að taka verkjalyf til að auðvelda sér hreyfingu við umönnun barnsins. Hreyfing er af hinu góða og flýtir bata.
Misjafnt er hve langur tími líður þar til blæðingar hefjast á ný. Rannsóknir hafa sýnt að flestar konur sem ekki hafa börn sín á brjósti byrja innan þriggja mánaða frá fæðingu. Konur sem eru með barn á brjósti byrja hins vegar seinna. Blæðingar geta verið óreglulegar fyrstu mánuðina. Egglos getur orðið án þess að konan fái blæðingar og því er brjóstagjöf ekki örugg getnaðarvörn nema að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt rannsóknum getur brjóstagjöf nefnilega verið 98-100% örugg getnaðarvörn! Til þess að hægt sé að reikna með þessu öryggi þarf að uppfylla þrjú skilyrði:
Tíðablæðingar er ekki byrjaðar á ný (blæðingar á fyrstu 8 vikunum eru ekki taldar vera tíðablæðingar).
Barnið fær ekki reglulega ábót og ekki líða meira en 4 tímar á milli gjafa á daginn eða 6 tímar á nóttunni (barnið er eingöngu eða nær eingöngu á brjósti)
Barnið er ekki eldra en 6 mánaða.
Ef eitthvað af þessum skilyrðum er ekki uppfyllt er ekki hægt að treysta á brjóstagjöf sem getnaðarvörn en séu öll skilyrðin uppfyllt er þetta mjög örugg getnaðarvörn.
Fyrstu dagana finna konur fyrir auknum þvaglátum þar sem blóðvökvi minnkar mikið fyrst eftir fæðinguna. Nýbakaðar mæður finna oft fyrir því að þær halda ekki þvagi, lofti né hægðum fyrst eftir fæðinguna. Þetta er algengara þegar tangir eða sogklukka hafa verið notaðar í fæðingunni en er líka þekkt eftir fæðingar sem hafa gengið vel. Talið er að um 10% frumbyrja finni fyrir þessu og um 20% fjölbyrja.
Mikilvægt er að byrja að gera grindarbotnsæfingar strax eftir fæðinguna og gera þær oft á dag. Gott er að venja sig á að gera alltaf grindarbotnsæfingar þegar barnið er lagt á brjóst. Með þessu er móðirin fljótari að jafna sig en engu að síður geta liðið allt að sex mánuðir þar til einkenni hverfa. Ef einkenni eru enn til staðar sex mánuðum eftir fæðingu er ráðlagt að leita læknis.
Gyllinæð sem hefur komið á meðgöngunni gengur venjulega til baka eftir fæðingu en það tekur smá tíma. Gott er að nota krem við þessu.
Konur sem hafa haft grindarlos á meðgöngu finna . . . LESA MEIRA
AF VEF LJOSMODIR.IS