Litbrigðamygla er húðsjúkdómur af völdum gersveppsinsPityrosporum ovale. Þetta er oft einkennalaus sýking sem einkennist af litarbreytingum í húð bolsins þ.e. ekki á útlimum.
Sveppurinn kemur á líkamann einhvern tíma í uppvextinum. Lítið fer fyrir sveppnum þangað til að eitthvað vekur hann til lífsins og hann tekur að vaxa hömlulaust.
Ekki er vitað hvað þarf til að vekja sveppinn til lífsins en hann er algengur í hitabeltislöndum og hefur tilhneigingu til að taka sig upp þegar hlýtt er í veðri. Mikil fituframleiðsla og tíður sviti auðvelda sveppnum að komast inn í húðþekjuna.
Sýkingin kemur yfirleitt fyrst fram efst á bakinu og á brjóstinu, en getur annars verið hvar sem er á líkamanum. Á ljósri húð sést sýkingin sem vel afmarkaðir, misstórir blettir. Þeir eru rauðleitir og jafnvel brúnir á lit og flagna aðeins á yfirborðinu. Blettirnir renna oft saman og mynda stóra flekki sem minna einna helst á landakort. Sólböð draga úr einkennum þ.e. liturinn jafnast út. Á sólbrúnni húð byrja blettirnir að flagna og þeir verða hvítir og virðast meira áberandi en áður. Flestir leita fyrst nú til læknis.
Nokkrir aðrir húðsjúkdómar hafa svipuð einkenni en krefjast annarrar meðferðar. Þess vegna er nauðsynlegt að greiningin sé ekki byggða eingöngu á skoðun. Ef grunur leikur á að um litbrigðamyglu sé að ræða er tekið sýni til að skoða í smásjá. Við útfjólublátt ljós verður sveppurinn gulgrænn eða rauðbrúnn.
Í sumum tilfellum sýkir sveppurinn hársekkina á baki og brjósti sem lýsir sér í miklum kláða og graftarbólum. Þetta kallast hárslíðursbólga (Pityrosporum folliculitis) og er algengt hjá einstaklingum á aldrinum 30-40 ára, sérstaklega konum. Einkennin hverfa við meðferð með Sporanox hylkjum.
Ef meðferð er hafin við upphaf sjúkdómsins hverfur hann mjög fljótlega. Hvítu blettirnir hverfa þó ekki fyrr en eftir nokkra mánuði þegar ný húð hefur myndast.
Blettirnir eru t.d. meðhöndlaðir með sérstöku sjampói, sem er nuddað inn í hársvörðin og á sýkta húðsvæðið og látið vera yfir nótt. Skolað burt daginn eftir. Endurtekið eftir viku. Einnig er hægt að bera sveppakrem á blettina. Í erfiðari tilvikum er hægt setja sjúkling á lyfjameðferð með Sporanox hylkjum.
Heimild: doktor.is