Smitvaldurinn.
Höfuðlús er 2-3 millimetrar að stærð (svipað og sesamfræ), grá eða ljósbrún á lit. Hún lifir sníkjulífi í mannshári og sýgur blóð úr hársverðinum. Egg höfuðlúsar kallast nit og "límir" hún þau á hár nálægt hársverði þar sem þau klekjast út á 6-10 dögum.
Þegar lúsin er 9-12 daga gömul hefur hún náð þroska til að geta hafið eigið varp sem getur orðið allt að 10 egg á dag. Lúsin hefur sérhannaðar klær til að komast um í hárinu og getur skriðið 6-30 sentimetra á mínútu en hvorki stokkið né flogið. Lúsin lifir í allt að 30 daga, en ef lýs detta úr hárinu út í umhverfið veslast þær upp og deyja á 15-20 klukkustundum.
Höfðulús, sem fallið hefur út í umhverfið verður strax löskuð og veikburða og getur ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að. Smit með fatnaði og innanstokksmunum er afar ólíklegt en hins vegar getur lúsin farið á milli hausa ef bein snerting verðru frá hári til hárs í nægilegan langan tíma til að lúsin geti skriðið á milli.
Einkenni og greining smits.
Smit er oft einkennalítið en einn af hverjum þremur sem smitast fær kláða. Hann stafar af ofnæmi fyrir munnvatni lúsarinnar sem hún spýtir í hársvörðinn þegar hún sýgur. Ef lifandi lús finnst í hárinu er það órækt merki um smit, en erfitt getur verið að sjá hana með berum augum og því mælt með að kemba með lúsakambi. Lúsakamb er hægt að fá í öllum lyfjabúðum. Gott er að kemba hárið yfir hvítu blaði eða spegli til að greina ef lýs falla niður. Fara þarf mjög varlega í gegnum allt höfuðhárið og finnst mörgum betra að kemba blautt hár sem í er hárnæring.
Hvað á að gera ef lús finnst?
Hægt er að fá án lyfseðils í lyfjaverslunum efni til að bera í hárið sem drepur lúsina og eggin. Mjög mikilvægt er að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum sem fylgja. Einnig þarf að skoða aðra heimilismenn og nána vini og athuga hvort þeir séu líka með höfuðlús (kemba með lúsakambi). En meðhöndla aðeins þá sem eru með lús (alla heimilismenn samtímis).
Kemba með lúsakambi daginn eftir að lúsameðalið var sett í, til að athuga hvort meðferðin hafi heppnast- lifandi lýs eiga þá ekki að vera til staðar. Kemba síðan annan hvern dag í tvær vikur.
Æskilegt er að kemba jafntframt öðrum heimilismönnumm samhliða.
Endurtaka lúsarmeðalsmeðferðina þegar 7 dagar eru liðnir frá upphaflegu meðferðinni - til að drepa þá lús sem hugsanlega hefur klakist út úr nit (eggjum lúsarinnar) og ekki drepist í fyrstu meðferð.
Ekki er talin þörf á að þvo föt, rúmfatnað og tuskudýr o.fl. þess háttar til að hindra höfuðlúsasmit því lýsnar eru taldar deyja fljótt eftir að þær fara úr hlýjum, rökum og blóðríkum hársverðinum.
Mikilvægt er að þeir sem greinast með höfuðlús og/eða forráðamenn þeirra bregðist við smitinu án tafar svo komið sé í veg fyrir dreifingu til annarra. Þegar smit greinist er líklegt að það sé búið að vera til staðar í 3-4 vikur og því ekki ástæða til að útiloka barn í skóla eða leikskóla frá því að mæta þegar búið er að uppgötva vandamálið og aðgerðir hafnar til að leysa það.
Frá árinu 1999 hefur höfuðlús verið skráningarskyldur sjúkdómur og hafa skóla-hjúkrunarfræðingar og heilsugæslustöðvar tilkynnt um fjölda smittilfella sem þeim eru kunnug. Verið er að leita leiða til að fylgjast enn frekar með algengi höfuðlúsasmits í þjóðfélaginu.
Þessi grein er tekin af vef landlæknis www.landlæknir.is