Lýðheilsa – Grunnur að Heilbrigðu Samfélagi
Lýðheilsufræði
Það er ekki langt síðan orðið lýðheilsa (e: public health) varð til á okkar ylhýra máli. Hugtök og stefnur málefna í lýðheilsu eru nefnilega tiltölulega nýtt fyrirbæri og hérlendis hefur orðið mikil vakning en betur má ef duga skal.
Faglærðir lýðheilsufræðingar á Íslandi eru um eitt hundrað talsins og eru þeir velflestir félagar í Félagi lýðheilsufræðinga, fagfélagi og starfa í þágu lýðheilsu víðs vegar um samfélagið.
Lýðheilsustefna / Lýðheilsuverkefni
Lýðheilsustefna snýst um að beina aðgerðum að hópum í samfélaginu, litlum eða stórum með það að markmiði að bæta heilsu þeirra hvort sem er andlega eða líkamlega. Fagleg stefna í lýðheilsu tekur mið af mörgum þáttum s.s. rannsóknum, aðgengi að heilsusamlegri valkostum og fræðslu. Án rannsókna vitum við ekki hvar við erum stödd og getum því ekki byggt stefnu. Án fræðslu verðum við ekki upplýst og án auðveldara aðgengis hjálpum við ekki hópum sem eiga erfiðara með aðgengi að heilsusamlegu líferni. Smitunaráhrif jákvæðra valkosta eru óneitanlega mikil innan samfélaga og áhrif af stefnum til bættrar lýðheilsu almennings er ómetanleg.
Vel heppnuð lýðheilsuverkefni
Dæmi um vel unnin lýðheilsuverkefni sem eru unnin af Embætti landlæknis í dag eru heilsueflandi framhaldsskóli og heilsueflandi grunnskóli. Unnið er að mótun stefnu heilsueflandi leikskóla og heilsueflandi samfélags hjá Embætti landlæknis sem er afar jákvæð þróun. Vel hefur gengið að fá skólana til liðs við embættið að vinna að góðu aðgengi að hollari valkostum varðandi næringu og auknu aðgengi að hreyfingu fyrir alla ekki bara þá sem finna sig í hópíþróttum. Þá er aukið aðgengi að geðrækt og fræðsla um forvarnir einn þáttur sem unnið er að í verkefnunum. Góð sjálfsmynd er sem dæmi mikilvægur hlekkur á því æviskeiði sem börn og ungmenni eru á og gott að nálgast styrkingu hennar í gegnum skólastarfið.
En það eru einnig önnur æviskeið sem eru mikilvæg og gríðarlega mikið verk fyrir höndum í mótun stefnu fyrir öll aldurskeið frá vöggu til grafar, bæði af hendi ríkisstjórnarinnar og svo borgar- og sveitarfélaga.
Um leið og ég óska að óska nýrri ríkistjórn til hamingju með að vera að taka við stjórn fallega landsins okkar næsta kjörtímabil fagna ég því að sjá má í sáttmála þeirra að lýðheilsa og forvarnir eru sett á oddinn. Rannsóknir hafa sýnt fram á að stefnur í málefnum um lýðheilsu spara þjóðarbúinu stórfé og við vitum að stæðsti útgjaldaliður ríkisins er á höndum Velferðarráðuneytisins sem fer með málefni sem viðkoma heilsu og þarafleiðandi lýðheilsu.
Ég hvet nýja ríkisstjórn til að nýta krafta llýðheilsufræðinga og leita til félagsins þegar kemur að stefnumótun í málefnum um lýðheilsu. Þá hlakka ég til þess að sjá orðin í sáttmálanum er snúa að lýðheilsu og forvörnum, verða að gjörðum.
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, lýðheilsufræðingur, formaður Félags lýðheilsufræðinga.