Sum lyf á að taka á fastandi maga til að tryggja upptöku og virkni þeirra en einstaka lyf er þannig samsett að mikilvægt er að taka það með mat, annað hvort til að tryggja betri upptöku eða virkni. Einnig getur verið ráðlegt að taka lyf með mat til að draga úr aukaverkunum þess. Til dæmis geta bólgueyðandi lyf, eins og Íbúfen, valdið ýmsum meltingaróþægindum og lyf, sem innihalda acetyl sýru (t.d. verkjalyf), geta valdið bólgum og jafnvel sárum í maga við langvarandi notkun. Steinefni eins og kalk, sem er í töluverðu magni í öllum mjólkurvörum, og magnesíum, járn og sink í fjölvítamínum geta einnig fellt út virk efni lyfja og þannig minnkað virkni þeirra. K-vítamín, sem finnst í laufgrænmeti eins og salati og spergilkáli, og í fjölvítamínum, truflar virkni blóðþynningarlyfja. Koffín, sem er í töluverðu magni í kaffi og mörgum gosdrykkjum, getur dregið úr virkni kvíðastillandi lyfja. Einnig ætti að forðast áfengi þegar lyf eru tekin.
Á hinn bóginn geta lyf haft áhrif á næringarefni þegar um langtíma notkun á lyfjum er að ræða. Magasýruhemjandi lyf geta dregið úr upptöku líkamans á járni og B12-vítamíni. Járn er mikilvægur hluti af flutningskerfi súrefnis til allra fruma líkamans og B12- er mikilvægt í efnaskiptum líkamans, myndun rauðra blóðkorna og til að viðhalda heilbrigðu taugakerfi. Lyf geta einnig haft áhrif á matarlyst. Sum lyf draga verulega úr matarlyst á meðan önnur lyf geta aukið hana en þessi áhrif eru óæskilegar aukaverkanir þar sem lystarleysi getur valdið þyngdartapi og vannæringu og aukin matarlyst getur á hinn bóginn valdið óþarfa þyngdaraukningu.
Læknavísindin hafa fært okkur lyf ,sem bjarga lífi og gera líf okkar betra á margan hátt, en sum lyf eru viðkvæm gagnvart því sem við borðum en önnur hafa áhrif á hvernig við nýtum næringuna í matnum. Því er mikilvægt að afla sér upplýsinga um þessi atriði með því að lesa fylgiseðil lyfja eða fá upplýsingar hjá læknum eða lyfjafræðingum. Það getur dregið úr óheppilegum aukaverkunum lyfja og hjálpað til við að lyfin, sem við tökum, virki eins og þau eiga að gera.
Ólöf Guðný Geirsdóttir næringarfræðingur
Heimild: mni.is