Flestir upplifa erfiðleika einhvern tíma á lífsleiðinni þar sem stöðugar áskoranir dynja á okkur og allt getur stundum gengið á afturfótunum. Einhverjir kannast líklega við að hugsa „ooh! ég er svo óheppinn“ eða „týpískt, alltaf lendi ég í svona aðstæðum“.
Allar hugsanir okkar um okkur sjálf og umhverfi okkar eru staðfestingar. Með hugsunum okkar staðfestum við okkar eigin tilveru. Þá er átt við að allar hugsanir eða innra tal um okkur sjálf eða nærumhverfi séu stöðugt flæði staðfestinga. Við notum hugsanir hvert einasta augnablik hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Við erum í raun að staðfesta og skapa okkar eigin lífsreynslu og tilveru með hverri hugsun og orði.
Ef allar hugsanir okkar og innra tal byggist á neikvæðni verður viðhorf okkar gagnvart okkur sjálfum og nærumhverfi ósjálfrátt neikvætt. Þú ert það sem þú hugsar! Þannig mætti segja að orð séu álög. Þess vegna er mikilvægt að temja okkur jákvætt hugarfar.
En hvernig náum við stjórn á hugsunum okkar, hvernig breytum við neikvæðri hugsun yfir í jákvæða? Að fylla líf sitt af jákvæðum staðhæfingum getur gert kraftaverk í daglegu lífi. Þær geta með smá æfingu breytt neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Með því að einbeita sér að því að leiðrétta daglegar hugsanir geta hin erfiðustu verkefni orðið mun viðráðanlegri. Smám saman upplifum við meiri hamingju, meiri velgengni og vellíðan.
Fyrir um tveimur árum þegar ég var með yngstu dóttir mína nokkurra vikna gamla stóð ég á tímamótum sem voru ekki sérlega velkomin. Í einni morgungöngunni ákvað ég að koma við á bókasafninu og þar rakst ég á bókina „Ég get það“ og ákvað að fá hana lánaða. Ég sé sko aldeilis ekki eftir því að hafa fengið þess bók heim því hún kenndi mér á einfaldan hátt að ná betri stjórn á hugsunum mínum og hvernig hægt væri að nota jákvæðar staðhæfingar til að breyta lífi sínu.
Bókin er metsölubók eftir Louise L. Hay, en Louise er einn vinsælasti fyrirlesari og lífsráðgjafi Bandaríkjanna. Hún hefur gefið út fjölda bóka sem fjalla um sjálfstyrkingu þar á meðal metsölubókina „Sjálfstyrking Kvenna“
Í bókinni talar Louise um staðfestingar almennt, en einnig eru staðfestingarnar flokkaðar eftir sérstökum þáttum lífsins. Hún útskýrir á einfaldan hátt hvernig hægt er að bæta til dæmis samskipti, heilsu, efnahag og ástarlíf með því að hafa stjórn á hugsunum sínum og nota jákvæðar staðfestingar.
Samkvæmt Louise þá eigum við að byrja á okkur sjálfum, þ.e. að bæta samband okkar við okkur sjálf. Í kjölfarið fara önnur sambönd, eða samskipti sem við eigum í, sjálfkrafa batnandi. Fyrst og fremst þurfum við að vera sátt við okkur sjálf í núinu og kjósa hugsanir sem láta okkur líða vel á þessari stundu.