Það er þessi lúmska innri streita sem er svo öflug og stjórnar svo miklu um hvernig okkur líður og hversu sátt við erum í eigin skinni. Kröfurnar sem við gerum til okkar sjálfra eru oft á tíðum mjög ósanngjarnar og óraunhæfar. Það er ekki alltaf fallegt það sem við segjum við okkur sjálf í hljóði. Ekki myndi okkur detta í hug að segja þetta upphátt við nokkurn mann. Þá er gott að spyrja sig af hverju leyfum við okkur að segja þetta við okkur sjálf.
Einn af þessum streituvöldum er þessi þrýstingur á okkur að vera mjó. Megrunarhugsanir valda streitu sem heilinn skynjar sem hættuástand og bregst við af miklum krafti. Hormónið leptin sem segir okkur hvenær við erum södd minnkar og hormónið grehlin sem gerir okkur svöng eflist til muna. Streitukerfið okkar er í raun mjög öflugt og gert til að bjarga okkur úr lífsháska og frá hungursneyð. Þetta er mjög gagnlegt kerfi þegar það á við. En þegar kemur að megrun þá hefst baráttan.
Hver kannast ekki við það að þegar við ætlum í átak og taka út ákveðnar fæðutegundir sem okkur líkar þá langar okkur aldrei eins mikið í að fá okkur að borða. Við förum að pína okkur og láta á móti okkur, borða sjaldnar og minna, hugsum meira um mat en við gerðum áður. Er þetta bara spurning um viljastyrk? Nei. Eitt af því sem gerist í heilanum á okkur er að streitukerfið virkjast til að vinna á móti þessum skorti. Heilinn skynjar bara streitu og bregst við henni án tillits til þess hvað er að valda streitunni. Þegar þetta sterka kerfi er ríkjandi og við borðum af því að við erum svöng þá hefst sjálfsniðurrifið fyrir alvöru og streitukerfið magnast enn meir. Megrunarstreitan er til staðar.
En hvað er til ráða? Hættum í megrun. Ekki fleiri átök, kúrar og skyndilausnir. Borðum reglulega, boðum hollan mat og njótum hans. Setjum inn meira af góðum siðum skref fyrir skref og leyfum ósiðunum að fjara út án öfga og áreynslu. Vinnum með líkamanum okkar en ekki á móti honum. Finnum okkar jafnvægi. Verum sátt við okkur eins og við erum, leyfum okkur að þykja vænt um okkur sjálf. Við getum síðan sett okkur markmið um breytingar á okkar högum. Stefnum að markmiðum okkar markvisst og örugglega. Ef markmiðið okkar er að léttast náum við svo miklu betri árangri með þessum hætti og okkur líður miklu betur á leiðinni.
Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir Heilsuborg