Svokallaðir næringar míkróskópistar bjóða upp á smásjárskoðun á ferskum blóðdropa (live blood analysis eða live cell analysis), og segjast með því geta greint sýrustig blóðsins, súrefnismettun, tilvist gersveppa, ástand ónæmiskerfisins, vítamín- og steinefnaskort. Þeir gefa jafnvel sjúkdómsgreiningu eða líkur á því að einstaklingur fái tiltekinn sjúkdóm seinna meir. Ekkert af þessu er í raun og veru unnt að greina með smásjárskoðun af þessu tagi (dark-field microscopy).
“Sjúkdómsgreining” kallar á “lækningu”
Flestir næringar míkróskópistar bjóða einnig upp á “lækningu”, sem eru yfirleitt fæðubótarefni sem míkróskópistinn selur sjálfur. Þetta geta verið töflur, en stundum mixtúra sem úðað er beint í munninn, eða jafnvel sérstakt “heilsu”súkkulaði.
Fyrsti skammturinn er gjarnan ókeypis. Sumir míkróskópistar sýna nefnilega skjólstæðingum sínum á tölvuskjá sem er beintengdur smásjánni, hvernig blóðið lítur út áður en þeir úða upp í sig fyrsta skammtinum af fæðubótarmixtúru, og svo aftur nokkrum mínútum seinna, eftir að úðinn vann sitt litla “kraftaverk”.
“Kraftaverk” eða hvað?
Það er erfitt að efast þegar munurinn er sláandi. Fyrir “kraftaverkið” staflast blóðkornin upp eins og diskar í uppþvottagrind. Þau eru stirðnuð, sjúk og dauð að sjá. Eftir “kraftaverkið” eru blóðkornin eins og litlar lifandi skífur. Þau fljóta hægt um skjáinn, rétt snertast og fljóta svo aftur sitt í hvora áttina. Allt “lækningunni” að þakka, ekki satt?
Staðreyndin er sú að “fyrir” er myndin af jaðri blóðdropans. Þar er hann byrjaður að þorna og storkna. Þess vegna stirðna blóðkornin og staflast upp í keðjur og kekki. “Eftir” er myndin af miðju blóðdropans, þar sem blóðvökvinn er enn fljótandi, og kornin svífa um, eins og í lausu lofti.
Blekking
Það sem næringar míkróskópistar kalla þvagsýrukristalla eða kólesterólskellur eru að öllum líkindum óhreinindi á glerinu undir blóðdropanum. Áreiðanlegar mælingar á stærð blóðkorna eða lögun, tegund og fjölda, krefjast yfirleitt stærra blóðsýnis og meðhöndlunar sýnisins fyrir skoðun með efnum sem hindra t.d. storknun.
Látið ekki blekkjast af hvítum sloppum, flóknum titlum, flottum tækjum, og sláandi myndum næringar míkróskópista. Næringar míkróskópía segir þér því miður ekkert um ástand blóðsins eða heilsu þína. Og þó fæðubótarefni séu stundum nauðsynleg, er næringar míkróskópisti ekki rétta manneskjan til að meta það.
Anna Ragna Magnúsardóttir, Dr. í Heilbrigðisvísindum & Næringarfræðingur