Hann vakti mikla lukku áhorfenda og tókst Rosling að hrífa salinn með skemmtilegri framsetingu sinni á tölfræðilegum gögnum.
Hans Rosling er læknir og prófessor í alþjóðaheilbrigðisvísindum við Karolinska Institutet í Stokkhólmi og hefur hann vakið heimsathygli fyrir framsetningu sína á tölfræðigögnum með gagnvirkri og sjónrænni grafík sem byggir á hans eigin forriti, Gapminder.
Rosling hóf kynningu sína á því að setja áhorfendur í eins konar próf, þar sem hann varpaði fram spurningum um m.a. fólksfjölda, heilsu, tekjur, fátækt og lífslíkur í heiminum. Áhorfendur tóku þátt og svöruðu spurningum hans með rafrænum hætti. Þegar kom að því að fara yfir svörin þá kom á daginn að áhorfendur gerðu sér ekki grein fyrir stöðunni í heiminum . Svör áhorfenda varðandi alþjóðaheilbrigði voru svipuð því sem Svíar og Norðmenn höfðu svarað. En svörin eiga það sameiginlegt að vera svartsýnni en raunveruleikinn ber vitni um. Þróunarlöndin eru ekki lengur heil heimsálfa eða eitt stórt landsvæði, ungbarnadauði í Afríku er ekki eins algengur og hann var árið 1900 þó hann sé það í einstaka löndum innan heimsálfunnar. Vandamál heimsins eru þó ekki horfin, þau hafa þróast og þarf að fylgja þeirri þróun eftir.
(Breytingar á fæðuframboði ýmissa landa á móti breytingum á þróunarstuðli frá árinu 1980 til ársins 2007 (e. Human Development Index), tekið af gagnvirku heimasíðunni www.gapminder.org.)
Aukið fæðuframboð með auknu þróunarstigi
Á heimasíðu Gapminder (http://www.gapminder.org/world/) er hægt að skoða ýmsar tölfræðilegar upplýsingar varðandi heilsu manna í heiminum. Þegar skoðað er samband fæðuframboðs í kkal/einstakling/dag á móti þróunarstuðli (e. Human Development Index), sem byggir á þremur þáttum, heilbrigði, menntunarstigi og lífskjörum, fæst línulegt graf frá árunum 1980-2007, sjá á meðfylgjandi mynd. Grafið sýnir ákveðið mynstur, í löndum með háan þróunarstuðul er fæðuframboð hátt til að mynda er Ísland mjög ofarlega í bæði þróunarstuðli og fæðuframboði. Áhugavert er að skoða breytingarnar milli ára, þar sem þróunarstuðull landa á vanþróaðri svæðum heimsins hækkar milli ára, t.d. Kína, Brasilía, Suður Afríka, Indland og Saudi-Arabía. Þetta er aðeins lítið dæmi um áhugaverðar staðreyndir á alþjóða vettvangi sem gefa okkur nýja sýn á heiminn.
Höfundur: Hafdís Helgadóttir, næringarfræðingur og kennari.
Þessi grein birtist fyrst í Matur er Mannsins Megin 2014.