Ungmenni eru mjög þakklát fyrir að sjá að fólk sem glímir við geðraskanir komi í skóla til að fræða. Ungmenni tala um aðra nálgun og meiri einlægni sem fólk með svona reynslu skilur eftir sig og sjá að við erum bara ósköp venjulegt fólk sem þráðum lífsgæði og líf. Kerfið ætti að vera opnara fyrir því að nýta reynslu fólks af geðröskunum hvort sem er í skólum, geðdeildum eða þar sem er unnið með fólki sem á við geðraskanir að stríða, unga sem aldna.
Loforð allra stjórnmálaflokka voru skýr fyrir þessar kosningar að efla geðheilbrigðisþjónustu við unga fólkið okkar!. Ég held að tími sé til kominn að efla þessa þjónustu í grunn- og framhaldsskólum landsins auk þess að setja meiri pening í félagasamtök á landsbyggðini og niðurgreiða sálfræðisþjónustu.Það væri líka mjög gott að hlusta á okkur á landsbyggðinni eins og unga fólkið gerir í okkar geðfræðslum. Sú fræðsla hefur miðlað þekkingu og gefið von. Fólk sem hefur glímt við geðraskanir er vanmetinn hópur og getur nýst vel í að byggja upp samfélagið með því að miðla af reynslu sinni.
Aðeins um mínar geðraskanir
Ég hef glímt við geðraskanir mest allt mitt líf án þess vita hvað kvíði, félagsfælni eða þunglyndi var. Ég var með sjálfsvígshugsanir nær daglega frá 12 til 38 ára aldurs. Byrjaði að finna fyrir kvíða þegar ég byrjaði í grunnskóla sem þróaðist í félagsfælni og um 12 ára aldur var ég farinn að kvíða hverjum degi og byrgði mína vanlíðan. Ég fékk vonina árið 2005 orðinn 38 ára gamall þegar ég var í verkjameðferð á Kristnesi í Eyjarfirði eftir mína aðra mjaðmaliðaskiptingu. Ég glími nefnilega við slitgigt og henni fylgja miklir verkir og síþreyta. Verkjameðferðin varð til þess að ég hef eignast betra líf því þar var fræðsla um kvíða, félagsfælni og þunglyndi. Eftir þessa fræðslu fékk ég bæklinga um þessar geðraskanir og það var eins og ég væri að lesa um mig frá a-ö. Þar sá ég hvað hafði stjórnað minni vanlíðan síðan ég var barn, þetta var ekki mér að kenna eða einhverjum öðrum heldur voru aðrar ástæður og það var von um að eignast lífsgæði sem ég hafði þráð síðan ég var barn.
En til þess þurfti ég að vera opinn og hreinskilinn um mína líðan til að geta tekist á við sjálfan mig og lífið. Í dag hef ég útskrifast úr 3 skólum og er einn af stofnendum Grófarinnar á Akureyri sem er geðverndarmiðstöð sem hefur hjálpað mörgum að taka skrefið að bættri líðan og lífsgæðum. Hef farið í fjölda viðtala og skrifað greinar til að hjálpa til við að opna umræðuna, auka þekking og gefa von.
Ég hef verið með geðfræðslu í skólum, málþingum og út í samfélaginu. Ég er þakklátur að hafa eignast lífsgæði þótt að verkir eða síþreyta hrjái mig get ég allavega deilt minni reynslu til góðs og horft fram á við. Sem samfélag til framtíðar getum við gert enn betur enda eru börn og ungmenni verðmæti sem okkur ber skylda að hlúa að.
Höfundur greinar:
Eymundur L. Eymundsson ráðgjafi úr Ráðgjafaskóla Íslands, félagsliði og einn af stofnendum Grófarinnar á Akureyri og stjórnarmeðlimur.