Það að verslanir byrjuðu að bjóða 50% afslátt af sælgæti á laugardögum var stærsta skrefið í þá átt að gera nammidaginn að því skrímsli sem hann er í dag. Þróunin hefur orðið sú að margar matvöruverslanir hafa byggt risa nammilönd undir allt góðgætið, með nammipokum á við ruslapoka og endalaust úrval af marglitu og freistandi nammi.
Við Íslendingar erum að neyta um 6000 tonna af sælgæti á ári (19 kg á hvert mannsbarn) og er þetta því orðinn gríðarlega stór markaður og mikil tekjulind fyrir verslanir. Þessir nammibarir með helmingsafslætti um helgar munu halda velli og fjölga enn frekar á meðan við erum svona dugleg að kaupa nammið okkar þarna.
Það væri nauðsynlegt að geta bakkað aftur í tíma til þess dags þegar ákveðið var að einn nammidagur í viku væri tekinn upp. Fyrstu heimildir sem fundust á netinu um nammidag er frá árinu 1986 þegar Kaupgarður í Mjódd auglýsti laugardag einn sem „nammidag fyrir börn og fullorðna“ með allskyns uppákomum og smakki á sætindum og gosi (heimildir: www.timarit.is).
Talið er að tannlæknar hafi átt hugmyndina að þessum degi til að stuðla að tannvernd með því að vera ekki sífellt að úða í sig sælgæti með slæmum afleiðingum fyrir tannheilsu okkar. En í dag er það ekki bara tannheilsa sem er að láta undan í þessu sælgætisáti því almenn heilsa okkar og barna okkar er undir.
Tannlæknar eru líklega að naga sig í handarbökin yfir að hafa komið með hugmyndina að þessum degi þó húnhafi vissulega verið göfug og með góðum vilja. Því sælgætisneysla okkar hefur síður en svo minnkað á síðustu áratugum og nammidagar eru orðnir óhófsdagar út í gegn hjá mjög mörgum fjölskyldum. En tannlæknum er þó ekki mest um að kenna því það eru frekar matvöruverslanir sem eiga sökina með þvi að bjóða uppá 50% afslátt á nammi á nammidögum. Með þessum afslætti hefur neyslan farið út í algjört óhóf. Eitt sem hefur líka aukið neysluna eru stærri pokar. Það segir sig sjálft að því stærri sem pokinn er því meira setur maður í hann, það sem væri hæfilegt magn í litlum poka er nær tómur stór poki. Á mínum barnsárum verslaði ég kúlur í lítinn grænan poka sem rúmaði fimmtíu sinnum minna magn en stóru pokarnir sem matvöruverslanir bjóða uppá.
Það er kannski í lagi ef fullorðið fólk sem er sjálfráða neytir sælgætis sér til ólífis en þegar þetta snýr að börnum og unglingum þá er staðan orðin erfiðari því þau stjórna ekki matarvenjum sínum, það er í höndum foreldranna. Samkvæmt nýlegri rannsókn frá Danmörku þá ýta nammidagar, mikil kósíheit um helgar og almenn leti foreldra undir líkur á því að börn þeirra þjáist af sykursýki og hjartasjúkdómum síðar á lífsleiðinni. Eftir helgar þar sem mikið er búið að borða af óhollum mat og lítil hreyfing hefur átt sér stað mátti samkvæmt rannsókninni greina mun meira magn blóðsykurs og annarra áhættuþátta í blóði hjá börnunum.
Það er ljós í myrkinu því það er ekki langt síðan matvöruverslunin Krónan í samstarfi við MATÍS tók saman hæfilegt magn (auðvelt er að mæla þyngd pokanna við nammibarinn) sem ætti að fá sér úr nammibarnum miðað við aldur:
- 4-5 ára – Max. 35 gr.
- 6-9 ára – Max. 45 gr.
- 10-12 ára – Max. 50 gr.
- 13-14 ára – Max. 65 gr.
- 15-16 ára – Max 65 gr.
- Fullorðnir – Max 62 gr
Þessar tölur miða við að heildarsykurmagnið eigi ekki að vera meira en 10% af hitaeiningum dagsins. Reyndar eru mjög margir að borða margfalt meira af sykri með því að drekka sykrað gos, borða kökur eða sykrað morgunkorn.
Önnur góð og einföld þumalputtaregla varðandi magn af nammi á nammibar er að miða eitt stykki við hvert ár svona uppað 15 ára aldri en eftir það eiga fullorðnir einstaklingar að þekkja sitt magamál.
Verst er að þessum ráðleggingum, semsettar hafa verið fram varðandi magnið, er ekki fylgt því ásóknin í nammið hefur ekkert verið að minnka undanfarin ár.
Foreldrar eru ekki að sinna foreldrahlutverki sínu ef þau senda börnin sín útí búð eða sjoppu með 500 kr. á nammidegi, án þess að fylgjast með því hversu mikið börnin eru að fá sér í risastóra pokann. Berum ábyrgð á börnum okkar og þeirra heilsu og sýnum þeim hvað er hæfilegur skammtur af sælgæti miðað við aldur barnsins.
Við erum óhófsþjóð og tengd þessum nammidegi eru „kósíkvöld“ sem tíðkast á mörgum heimilum hér á landi frá fimmtudagskvöldi til sunnudagskvölds. Það eru fjögur af sjö kvöldum vikunnar.
Fyrir mörgum er helgin alveg að byrja á fimmtudegi og þá er byrjað að dekra við sig og sína fjölskyldu, svo á föstudegi þá er helgin komin og kósíheitin hafin í mat og drykk. Á laugardegi er „kósíkósí“ því þá er aðal nammi- og dekurdagurinn og helgin í fullum gangi. Á sunnudegi eru svo eftirköst kósíheitanna og enn verið að gera sér glaðan dag í mat og drykk með leifunum af öllum kræsingunum. Það að hafa nammidag þýðir ekki nammihelgi eða nammikósí meirihluta vikunnar. Gerum heilsu okkar og barna okkar greiða og minnkum þessi kósíheit.
Þegar við leyfum okkur eitthvað gott í mat og drykk, höfum við það alveg extra gott og njótum þess í góðum félagsskap. Alltof margir eru að borða óheyrilega mikið af sælgæti og því fylgir svo sektarkennd og vanlíðan. Nógu slæmt er að borða mat sem maður veit að er ekki sá hollasti en enn verra er að vera svo að brjóta sig niður eftir á með samviskubiti og vanmætti. Því ætti maður þegar maður leyfir sér eitthvað á nammidegi að njóta þess í botn án slæmrar samvisku. Þess vegna er ánægjulegast að velja uppáhaldsmatinn sinn eða drykkinn til að njóta þennan dag en ekki borða á sig gat af miðlungsgóðu súkkulaði eða hlaupi.
Það er komið nóg af nammidögum og það besta fyrir heilsu okkar og barnanna okkur væri að við hentum þessum nammidegi útí hafsauga og gleymdum því að við höfum nokkrun tíma haft hann. Verslanir geta þá tekið upp 50% afslátt af ávöxtum og grænmeti um helgar, en það er hið eina sanna nammi sem líkaminn ræður við í einhverju magni, auk þess að vera nammi náttúrunnar. Það eru reyndar einhverjar verslanir sem hafa tekið upp afslátt á ávöxtum og grænmeti um helgar en því miður hafa undirtektirnar ekki verið góðar og ekki myndast sú karnivalstemming sem skapast við nammibarina á laugardögum.
Notum ávextina og grænmetið um helgar og skerið það niður. Leyfum okkur bara smá nammi í vikunni, þess vegna á þriðjudegi í stað þess að éta okkur til ólífis af nammi á laugardegi.
Tökum aftur upp minni nammipoka, það er auðveld leið til að minnka skammtana af namminu. Þessir stóru nammipokar eiga aldrei að sjást aftur í landi þar sem landsmenn eru að huga að heilsu sinni.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is
Grein tekin af vef nlfi.is