Er frost úti og þér er kalt? Er himinninn þungbúinn og grár? Er skapið ekki upp á það besta? Þó það sé vetur, myrkur og kuldi þarf þér ekki endilega að líða eins! Það er ýmislegt sem hægt er að gera til þess að halda í góða skapið og láta sér líða vel þrátt fyrir vetrarkulda. Það er ákaflega mikilvægt að halda jákvæðninni og góða skapinu því það getur hjálpað þér að berjast við ýmislegt, allt frá nokkrum aukakílóun og þunglyndi. Það að vera jákvæður getur jafnvel haft góð áhrif á ónæmiskerfið og aukið varnir gegn pestum og kvefi.
Það getur verið erfitt að koma sér út í kuldann til að fara í ræktina en hreyfingin hefur upplyftandi áhrif á sálartetrið og það veitir ekki síst af því þegar dagurinn er sem dimmastur. Gott er að setja sér stutt markmið í upphafi vikunnar og hafa hreyfinguna sem fjölbreyttasta og áhugaverðasta fyrir þig. Síðan er um að gera að verðlauna sig með einhverju smáræði þegar þér tekst að ná markmiðinu til dæmis með notalegu fótabaði eða jafnvel fótsnyrtingu. Gættu vel að því að veðrið um hávetur er breytilegt og því þarf æfingaáætlunin að taka mið af því.
Reyndu að standast löngunina í fiturríkan og sætan mat. Neysla á einföldum kolvetnum og sykri getur valdið miklum sveiflum á blóðsykrinum og það getur haft neikvæð áhrif á skapið. Það er betra að einbeita sér að mat sem inniheldur omega 3 fitusýrur, flókin kolvetni (korn og grænmeti), prótein og B vitamin. Að vetrarlagi getur verið mjög gott að fá sér hafragraut í morgunverð bæði til að fá yl í kroppinn og líka vegna þess að korn er trefjaríkt og og inniheldur flókin kolvetni sem eru líklegri til að halda blóðsykrinum stöðugri. Upplagt er að bæta ávöxtum útá grautinn svo sem eplum, banönum og rúsínum. Svo er að muna að borða reglulega yfir daginn og ekki gleyma ávöxtunum og drekka vel af vatni.
Birnir og ýmis önnur dýr leggjast í hýði yfir veturinn en það er manninum ekki eðlilegt. Maðurinn er í eðli sínu félagsvera og félagsskapur annarra hefur afar jákvæð áhrif á andlega líðan. Í stað þess að húka í sófanum til vors er tilvalið að skipuleggja “hitting” hvort sem það felur í sér að skreppa með samstarfsfólkinu í hádegisverð eða spinning tíma með systur þinni. Saumaklúbbar, matarklúbbar eða bókaklúbbar eru allt saman frábærar leiðir til að hitta vini og eiga góðar stundir.
Veturinn hefur sinn sjarma rétt eins og hinar árstíðirnar. Hlýir ullarvettlingar, fallegar lopapeysur, skautar og heitt kakó… Með því að gefa sér tíma til að njóta þess sem þessi árstími hefur uppá að bjóða nær jákvæðnin yfirhöndinn. Næst þegar hugurinn beinist að köldum tám og rauðu nefi skaltu hugsa upp á nýtt, finna eitthvað jákvætt í aðstæðunum og þér verður hlýtt á ný áður en þú veist af.
Á miðjum vetri er langt í næsta frí hjá flestum. Þá er bara að demba sér í að undirbúa það svo þú fáir nú sem mest útúr því. Bara það að skipuleggja fríið getur lyft þér upp. Heyrðu í þeim sem þú vilt eyða fríinu með. Hvenær er best að fara? Hvert langar ykkur að fara? Hvernig komist þið þangað? Hvað viljið þið skoða? Með góðri skipulagningu geta villtustu draumar orðið að veruleika og það að hafa eitthvða til að hlakka til breytir miklu.
Jájá það getur vel verið að þú lítir út eins og snjómaðurinn mikli þegar þú ert kominn í kuldagallann, vettlinga, trefil og loðhúfu en það að vera hlýtt eykur vellíðan og vanlíðan eykur líkur á neikvæðni og geðvonsku. Kuldi dregur líka úr orku. Líkaminn krefst meiri orku til að halda sér heitum. Svo það er bara að dúða sig!
Sólarljósið aðstoðar líkamann við að framleiða D vítamín og sýnt hefur verið fram á að D vítamín hefur góð áhrif á skapferlið. Þessi eigin framleiðsla á D vítamíni er auðvitað minni á veturna þegar dagsljósið er af skornum skammti. Flestir hafa því gott af því að taka auka D vítamín á veturna á Íslandi. Auk þess eykur sólarljósið styrk serotonins sem er “geðprýðishormón” og dregur úr áhrifum melatonins sem er eins konar “syfjuhormón” . Sumir hafa gagn af sérstökum ljósum sem líkja eftir dagsbirtunni. Í öllu falli er um að gera að drífa sig út ef sést til sólar.
Eigið ánægjulegan vetur og munið að hver dagur er dýrmætur.
Heimild: doktor.is