Hins vegar er mælt með að takmarka neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur. Með þessu mataræði er talin minni hætta á flestum fæðutengdum langvinnum sjúkdómum. Að auki er nú meiri áhersla á gæði fitu og kolvetna frekar en magn hvors um sig. Það skiptir fyrst og fremst máli úr hvaða mat við fáum fituna og kolvetnin.
Nú er einnig meiri áhersla en áður lögð á umhverfismál, ef ráðleggingunum er fylgt þá er það jákvætt fyrir umhverfið þar sem aukin neysla á jurtaafurðum og minni neysla dýraafurða hjálpar til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Að auki er mælt með að skipuleggja vel innkaup og eldamennsku og þannig má draga úr matarsóun og vernda umhverfið.
Ráðleggingarnar eru ætlaðar fullorðnum og börnum frá tveggja ára aldri. Fólk með sjúkdóma eða aðra kvilla, sem gætu haft áhrif á næringarefnaþörfina, og eldra fólk sem borðar lítið getur haft aðrar þarfir.
Ráðleggingunum er einnig ætla að vera til viðmiðunar við skipulagningu matseðla fyrir hópa fólks, t.d. í skólum, á vinnustöðum eða öldrunarstofnunum, fyrir matvælaframleiðendur og þá sem annast fræðslu um næringarmál.
Í ráðleggingunum er lögð áhersla á mataræðið í heild sinni frekar en einstök næringarefni, að fólk borði fjölbreyttan mat í hæfilegu magni, hafi reglu á máltíðum og njóti þess að borða. Góðar ábendingar eru um hvernig hægt er að fylgja þeim á auðveldan hátt frá degi til dags. Einnig hefur verið gefið út veggspjald með helstu skilaboðum ráðlegginganna og tveir einblöðungar, Fimm á dag og Heilkorn minnst tvisvar á dag. Það ætti því ekki að þurfa að vera flókið að borða hollt.
Einnig hefur verið birtur Grundvöllur ráðlegginganna og ráðlagðir dagskammtar næringarefna svo og spurningar og svör um ráðleggingarnar með ýmsum viðbótar upplýsingum, sjá nánar á: www.landlaeknir.is/radleggingar
Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis