Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði og forstöðumaður Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala, stýrir rannsókninni hér á landi. Hún er unnin í nánu samstarfi við Hjartavernd en gögn úr bæði Hóprannsókn og Öldrunarrannsókn (AGES) Hjartaverndar hafa verið nýtt við vinnuna ásamt gögnum sem starfsfólk Rannsóknastofu í næringarfræði hefur aflað.
Af niðurstöðum þess hluta verkefnisins sem unnið var að hér á landi má nefna að skortur á D-vítamíni og lágt hlutfall omega-3 fitusýra í blóði tengdust aukinni hættu á þunglyndi meðal aldraðra. Eins tengdist fæðumynstur sem einkennist meðal annars af ríflegri neyslu af grænmeti, ávöxtum og fiski minni líkum á þunglyndi, sem er í samræmi við niðurstöður annarra rannsóknahópa, bæði innan MooDFOOD verkefnisins og utan. Rannsóknir íslenska MooDFOOD hópsins benda einnig til þess að ofþyngd í barnæsku sé mun sterkari áhættuþáttur fyrir þunglyndi en að verða of þungur/feitur fyrst á fullorðinsárum.
Í dag höfum mjög sterkan vísindalegan grunn til að réttlæta notkun fjármagns í forvarnir sem miða að því að tryggja gott næringarástand og hvetja til heilsusamlegs mataræðis. Eins hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (World Health Organization, WHO) sett fram mjög skýra gagnreynda aðgerðaáætlun um það hvernig minnka megi líkur á ofþyngd og offitu meðal barna. Hins vegar hafa enn sem komið er ekki verið gerðar nógu margar rannsóknir þar sem sýnt er fram á árangur næringarmeðferðar eftir að þunglyndiseinkenni hafa verið greind. Niðurstöður íhlutandi rannsóknar, sem er hluti af MooDFOOD verkefninu, munu vonandi veita okkur svör um árangur slíkrar meðferðar. Alls taka 1000 manns með þunglyndiseinkenni þátt í rannsókninni sem framkvæmd er í Bretlandi, Þýskalandi, Mallorca og Hollandi. Fyrstu niðurstöður verða kynntar 2018.
Höfundur greinar:
Ingibjörg Gunnarsdóttir
Höfundur er prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands og deildarstjóri Næringarstofu Landspítala