Í þessu fyrsta skrefi hefur verið opnað fyrir það að sérfræðingar í heimilislækningum geti sinnt einstaklingum sem kljást við hættulega offitu.
Þeir sem geta nýtt sér þessa þjónustu þurfa að hafa tilvísun frá lækni og uppfylla ströng viðmið samkvæmt viðurkenndum mælikvarða, þ.e. BMI yfir 40 og þá sem mælast með BMI yfir 35 og þjást af hjartasjúkdómum, blóðfituröskun, háþrýstingi, sykursýki týpu 2 eða kæfisvefni. Meðferðin er háð því að einstaklingar séu samhliða í meðferðarprógrammi til að takast á við offituna og fylgikvilla hennar.
Markmið með verkefninu er að greina undirliggjandi vanda einstaklingsins og veita viðeigandi stuðning og eftirfylgni við að framfylgja áætlun einstaklingsins á meðferðartíma.
Tveir sérfræðingar í heimilislækningum hjá Heilsuborg sem hafa langa reynslu af meðferð við offitu hafa nú þegar gerst aðilar að samningnum og munu veita ofangreinda þjónustu.
Með þessu úrræði binda Sjúkratryggingar Íslands vonir við að hægt sé að hjálpa einstaklingum sem kljást við hættulega offitu að takast á við þann vanda með hagkvæmum og skilvirkum hætti.