Offita (obesity) er venjulega skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull hærri en 30.
Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar eru feitastir Norðurandaþjóða.
Offita stafar venjulega af aukinni uppsöfnun á fitu í líkamanum sem leiðir til þyngdaraukningar. Margir telja orsök offitu vera afar einfalda. Í hverju einstöku tilviki skýrist offita af því að viðkomandi hefur innbyrt meiri orku (hitaeiningar) en hann hefur brennt. Samkvæmt þessu er lausnin einföld og felst í því að borða minna (færri hitaeiningar) og hreyfa sig meira.
Afar ólíklegt er þó að offitufaraldurinn sem geysar um allan heim eigi sér svona einfalda skýringu. Ósennilegt er að skyndilega hafi stór hluti jarðarbúa farið að borða meira og hreyfa sig minna? Skýringin er flóknari og lýtur ekki bara að því hversu mikið við borðum, heldur einnig að því hvað við borðum, hvenær og hvernig. Hreyfing og aðrir þættir lífsstíls okkar skipta einnig máli.
Samfélagslegir þættir koma einnig við sögu. Hegðun okkar og lífsmynstur mótast að miklu leyti af samfélagslegum þáttum. Miklar annir og skyndiákvarðanir geta haft mikil áhrif á matarval okkar. Þetta nýtir matvælaiðnaðurinn sér óspart og skyndibitastaðir af ýmsu tagi blómstra.
Að sjálfsögðu þurfa lýðheilsustofnanir einnig að axla einhverja ábyrgð því óhætt er að segja að faraldurinn hafir orðið til á þeirra vakt og þrátt fyrir að ítarlegar leiðbeiningar um mataræði séu reglulega gefnar út fyrir almenning.
Við skulum þó fara vaarlega við að skella skuldinni á yfirvöld, eða aðra yfir höfuð, þegar kemur að holdafari og heilsu. Þegar upp er staðið er ljóst að enginn hefur meiri áhrif á þessa hluti en við sjálf. Við ráðum og veljum hvað við borðum, hversu mikið og hvað oft. Það er einnig á okkar valdi hversu mikið við hreyfum okkur og hversu miklum tíma við verjum í sófanum eða hægindastólnum.
Að vikta sig reglulega og fylgjast með eigin holdafari ætti að vera jafn sjálfsagt og að bursta tennurnar.
Íslendingar geta reyndar að mörgu leyti verið býsna stoltir af sinni lýðheilsu Lífslíkur eru háar hér á landi. Við erum í sjöunda sæti á lista yfir þjóðir með hæstu lífslíkurnar. Japanir eru í efsta sæti, þar á eftir koma Svisslendingar, Ítalir, Spánverjar, Ástralir og Ísraelsbúar.
Þegar kemur að reykingum, sem eru sennilega mesti heilsuskaðvaldur nútímans, geta Íslendingar verið býsna sáttir. Fjöldi Íslendinga sem reykir er rúmlega 14 prósent og erum við þar meðal þeirra lægstu í heimi. Hlutfall þeirra sem reykja í OECD löndunum er 21.1 prósent að meðaltali. Svíar eru lægstir Norðurlandaþjóða en alþekkt er hins vegar að fáir nota meira munntóbak en þeir.
Nokkuð ljóst er að besta leiðin til að sigrast á offituvandanum eru forvarnir. Margoft oft hef ég séð einstaklinga vakna upp af vondum dvala, 10-20 kílóum þyngri en 5-10 árum áður. Oft virðumst við hreinlega sofna á verðinum og gleyma hvað lífsstíll okkar ræður mikilu um holdafar okkar og heilsu.
Þegar einstaklingur er orðinn of feitur er oft erfitt að snúa ferlinu við. Bandarískar rannsóknir sýna að 80-90 prósent þeirra sem ná að léttast, þyngjast aftur og verða jafnvel enn þyngri en áður en megrunin hófst. Til þess að ná varanlegum árangri þarf einbeittan vilja og skilning á vandanum og því sem þarf að gera.
Aukinn þekking á tilurð offitu, fræðsla til almennings um mataræði, hreyfingu og heilbrigða lífshætti er fyrsta skrefið í baráttnni við offitufaraldurinn. Rannsóknir hafa sýnt að 77 prósent af börnum sem eru of feit munu þjást af offitu á fullorðinsárum en aðeins 7 prósent af börnum með eðlilega líkamsþyngd.
Ef forða á næstu kynslóð frá offituvandanum þarf gríðarlegt samfélagsátak sem ekki síst þarf að beinast að börnum og unglingum. Fræðsla um heilbrigt mataræði, hollustu og mikilvægi hreyfingar þarf að byrja strax í barnæsku.
"I wish for everyone to help create a strong, sustainable movement to educate every child about food, inspire families to cook again and empower people everywhere to fight obesity".
Jamie Oliver 2010
Grein fengin af mataraedi.is