Spurningunni um ráð gegn offitunni hefur lengi verið vandsvarað. Það er ljóst að skyndilausnir, öfgar og kúrar eru ekki rétta leiðin með andlega og líkamlega heilsu einstaklingsins til framtíðar að leiðarljósi. Það þarf að nálgast offituvandann á faglegum nótum og með mjög einstaklingsbundnum leiðum. Þær leiðir hafa reyndar reynst erfiðar í þeim fjárskorti sem ríkt hefur í þessum geira sem og öðrum er snúa að heilbrigðismálum og heilsufari þjóðarinnar.
Vel sótt málþing á Læknadögum 2015
Á dögunum var haldið málþing um offitu innan dagskrár Læknadaga á vegum FFO, félagi fagfólks um offitu sem stýrt var af Tryggva Helgasyni barnalækni. Þar fjallaði Erla Gerður Sveinsdóttir læknir og formaður FFO um stöðu offitumálefna á Íslandi og þau takmörkuðu úrræði sem væru í boði, en einnig ljósið í myrkrinu er snýr að upphafi enn markvissari meðferð gegn offitu en þekkst hefur hér á landi.
Anna Sigríður Ólafsdóttir næringarfræðingur fór yfir áhugaverðar og nýstárlegar hugmyndir um tengsl þarmaflórunnar við offitu. Einnig vonir sem þær takmörkuðu rannsóknir á málefninu sem farið hafa fram gefa, um aukinn skilning og jafnvel inngrip sem áhrif gætu haft á meðferð og forvarnir er snúa að ofþyngd og offitu.
Dr. Arya M. Sharma, einn helsti fræðimaðurinn í offitumeðferð og –rannsóknum í heiminum, fjallaði um hvernig nálgast á offituvanda einstaklings á faglegan og einstaklingsbundinn máta. Hvernig virðingin fyrir einstaklingnum, hans sjúkdómi og vanda þarf að aukast, hvernig þeir sem vinna með offeitum þurfa að veita náinn og virkan stuðning með skynsamleg markmið um þyngdartap að leiðarljósi. Hvernig muna þarf eftir því að hver jákvæð breyting í lífsstíl einstaklingsins skiptir máli, að heildræn heilsa einstaklingsins skiptir meira máli en þyngdartapið í kílóavís og síðast en ekki síst gildi þess að hindra að einstaklingurinn þyngist milli tímabila sem sé mikilvægt mat á árangri meðferðarinnar.
Dr. Vera Ingrid Tarman flutti erindi um matarfíkn og hvernig greining á mögulegri matarfíkn og viðeigandi meðferð gegn henni getur skipt sköpum við heildræna meðferð hjá offeitum einstaklingi.
Sólveig Dóra Magnúsdóttir læknir var síðust á mælendaskránni og lokaði þessu áhugaverða og mjög vel sótta málþingi. Hún talaði um svefn og svefnvenjur, rannsóknir tengdar svefni og hvernig meðferð á svefnvandamálum tengist meðferð við offitu og hvernig virk meðferð við offitu bætir svefn og lífsgæði. Einnig lagði hún áherslu á þá staðreynd að svefnleysi getur valdið offitu. Það eru því sterk tengsl milli offitu og svefns, áhugaverður þáttur sem rannsaka þarf mun betur, bæði hjá börnum og fullorðnum.
Niðurstaða málþingsins
Það var sammerkt í erindum allra þessara fræðimanna að heildræn og fagleg nálgun á offituvandann sé nauðsynleg því vandamálið sé margþætt. Einnig kom fram að nauðsynlegt sé að yfirvöld komi sterk inn með sinn stuðning og viðurkenningu og að offituvandinn sé viðurkenndur sem sjúkdómur og meðhöndlaður á þann hátt.
Einstakur viðburður
Málþingið um offitu á Læknadögum 2015 var að mörgu leiti einstakt á Íslandi. Þarna voru saman komnir einstaklingar sem eru mikils metnir á sviði offiturannsókna og meðferðar í heiminum, einnig einstaklingar sem eru úr hópi okkar fremsta fagfólks á þessu sviði á Íslandi.
Í tengslum við komu Veru til landsins stóð Matarheill fyrir vel heppnuðum fyrirlestri með Veru í Háskólanum í Reykjavík og var það vel sótt af fólki úr ýmsum geirum sem og almenningi sem vildi kynna sér þennan vinkil inn í umræðuna um mat og offitu, hvernig fíknin getur tekið yfirhöndina er snýr að mat eins og svo mörgu öðru og virkar sem nokkurs konar fíkniefni. Ný bók hennar Food Junkies var kynnt stuttlega en hana má nálgast á Amazon.com
Það er ætlunin að halda áfram með þessa umræðu og þetta góða „start“ sem málþingið er og efla faglega umræðu og meðferð við offitu á Íslandi. Einnig að efla forvarnir og bæta umræðuna í samfélaginu sem snýr að umræðum um offeita og stöðu þeirra.
Nánari upplýsingar um fyrirlesarana
Hér má sjá upplýsingar um fyrirlesarana á málþingi FFO á Læknadögum og tengingar inn á vefsíður þær sem Dr. Sharma og Dr. Vera halda úti.
Dr. Arya M. Sharma er mikilsvirtur prófessor við Alberta háskóla í Kanda og hefur meðal annars yfirumsjón með offiturannsóknum þar. Hann er einnig læknisfræðilegur stjórnandi þess hluta heilsugæslunnar í Alberta ríki er snýr að meðferð við offitu (Alberta Health Services Provincial Obesity Strategy). Dr. Sharma er mjög skemmtilegur fyrirlesari og heldur fjölda erinda og námskeiða er snúa að orsökum og meðferð við offitu og tengdum sjúkdómum. Hann er auk þess höfundur og meðhöfundur yfir 300 vísindagreina um málefnið.
Árið 2005 var Dr. Sharma í forsvari fyrir stofnun tengslanets kanadískra offitumeðferða (Canadian obesity network) sem hann stýrir, og tengir yfir 6000 rannsakendur og heilbrigðisstarfsmenn sem starfa í tengslum við offitu. Stofnun þessa tengslanets hefur gerbreytt landslagi er snýr að rannsóknum og meðferð við offitu í Kanda. Hans eigin rannsóknir fjalla aðallega um nýjungar í meðferð offitusjúklinga og felur meðal annars í sér þróun á sérstöku greiningartæki sem nota má í meðferð við offitu (Edmonton obesity staging system).
Sharma er tíður gestur á þarlendum og erlendum sjónvarpsstöðvum auk þess sem greinar eftir hann og viðtöl birtast í blöðum og tímaritum til dæmis New York Times. Dr. Sharma heldur úti eigin vefsíðu þar sem hann veltir upp hugmyndum og skoðunum sínum er snúa að forvörnum og meðferð við offitu http://www.drsharma.ca/
Dr. Vera Ingrid Tarman er læknir sem hefur margvíslega reynslu að baki á sviði læknisfræðinnar en hún hefur sem yfirlæknir stærstu fíknimeðferðarstofnunar Kanada, sérhæft sig í fíknisjúkdómum og eytt síðastliðnum 17 árum í læknisfræðilegum meðferðarúrræðum fyrir þá sem þjást af fíknisjúkdómum, og nú síðustu ár á sviði matarfíknar. Hún hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir kennslu og skrif sín, komið fram í sjónvarpsþáttum auk þess að vera vinsæll fyrirlesari um allan heim. Hún hefur nýlega gefið út bókina Food Junkies sem hefur hlotið mikla athygli. Dr. Tarman leggur áherslu á vísindin á bak við matarfíkn og hvers vegna við notum mat til að láta okkur líða betur. Árið 2008 setti hún á laggirnar vefsíðuna Addicions Unplugged www.addictionsunplugged.com sem svar við brýnni þörf sem hún upplifði að væri til staðar í samfélaginu og þá sér í lagi vegna matarfíknar. Í dag þjónar vefsíðan mikilvægum tilgangi sem miðja upplýsinga og umræðna fyrir lækna, þá sem starfa með einstaklingum með fíknisjúkdóma og þá sem þurfa á fræðslu og stuðningi að halda. Auk alls þessa hefur Dr. Tarman starfað sem læknisfræðilegur sjálfboðaliði fyrir Hjálpræðisherinn síðan árið 2004.
Sólveig Dóra Magnúsdóttir útskrifaðist frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 1994 og er sérfræðingur í heimilislækningum fá sama skóla. Hún hefur starfað um árabil í Bandaríkjunum og stýrir nú svefnmælingafyrirtækinu SleepImage í Denver, Colorado.
Erla Gerður Sveinsdóttir útskrifaðist frá Læknadeild Háskóla Íslands 1994 og er sérfræðingur í heimilislækningum fá sama skóla. Hún er einnig með meistaragráðu í lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur starfað við offitumeðferð á Reykjalundi, Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og í Heilsuborg. Hún er formaður Félags fagfólks um offitu.
Dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir er dósent í næringarfræði og námsbrautarstjóri framhaldsnáms í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún stundar meðal annars rannsóknir á heilsu og holdafari framhaldsskólanema, hefur verið með í þróun og starfi Heilsuskólans sem er fjölskyldumiðuð meðferð fyrir börn í offitu og félagi í FFO frá stofnun. Hún hefur jafnframt verið virk í að miðla upplýsingum um næringu og heilsu innan fræðasamfélagsins og til almennings í formi erinda og fræðslu í fjölmiðlum.
Offita á Íslandi, ekki allsráðandi
Reyndar megum við ekki láta umræður um offitu og algengi hennar yfirgnæfa algerlega þá staðreynd að á Íslandi búa mjög margir sem ekki glíma við offitu, margir eru mjög aktívir í daglegu lífi, mörg börn eru mjög aktíf og glíma ekki við ofþyngd og við eigum mikið af mjög frambærilegu íþróttafólki. Margir eru því að stunda heilbrigðan lífsstíl og það má ekki gleymast.
Hér má þó taka fram að margt má betur fara í umræðum um næringu og lífsstíl í svokölluðum „heilsugeira“ og í fjölmiðlum einnig ber að forðast öfgafullar ráðleggingar og áherslu á fæðubótarefni og skyndilausnir.
Fríða Rún Þórðardóttir
Næringarfræðingur og stjórnarmaður í Félagi fagfólks um offitu.