Barneignir er stór ákvörðun. Kynlífið verður enn meira spennandi enda er verið að fara í sameiningu að búa til nýjan einstakling. En hvað það gerist ekki? Þegar ár er að verða liðið fyllist maður æ meiri vonbrigðum í hvert skipti sem í ljós kemur að ekkert hafi gerst þennan mánuðinn. Kynlífið er ekki lengur spennandi og skemmtilegt, heldur er það orðin kvöð sem fer eftir tímaplönum og egglosi. Svo kemur að því að horfast í augu við að þörf sé á utanaðkomandi hjálp.
Skrefin til kvensjúkdómalæknisins geta verið þung. Með því er verið að viðurkenna að ekki var hægt að gera það sem virðist vera svo lítið mál hjá flestum öðrum. Ástæður ófrjósemi eru af margvíslegum toga og lausnirnar líka. Einnig er mögulegt að engar ástæður finnist, en ófrjósemin fer ekki á milli mála, átakanlegt barnleysið sýnir það. Þó fylgir því viss von að viðurkenna máttleysi sitt, það þýðir að byrjað er að leita lausna sem færir mann nær takmarkinu, óskabarninu.
Heppnin gæti verið með í för og aðeins þörf fyrir litla aðstoð, kannski duga frjósemistöflur og barnið verður til heima. En það gæti verið þörf á meiri hjálp. Kannski er hægt að byrja á tæknisæðingu. Það þýðir hormónasprautur og tíðar kjallaraskoðanir fyrir konuna áður en sæðinu er sprautað inn af lækni á réttan stað á réttum tíma. Ef tæknisæðing gengur ekki upp eða ef vandamálið er á þann veg að hún er ekki valkostur getur næsta skref verið glasafrjóvgun.
Einkalífið líður fyrir rannsóknir á ófrjóseminni og leitinni að lausn. Þarna er maður kominn í þau spor að það sem upphaflega átti að gerast á rómantísku augnabliki í einkalífi manns, er nú komið í flúorlýst herbergi, fullt af fólki, tækjum og tólum, þar sem einkastaðirnir eru í sviðsljósinu.
Glasafrjóvgun þýðir nokkurra vikna hormónameðferð fyrir konuna, eggheimtu, sem er töluverð aðgerð og uppsetningu fósturvísis. Það er að segja ef egg nást sem hægt er að frjóvga og ef til verður lífvænlegur fósturvísir til uppsetningar, það gerist ekki alltaf. Svo tekur við tveggja vikna bið til að sjá hvort þungun verði. Öllu þessu fylgir andlegt álag og mikil rússíbanaferð. Hormónar leggjast misjafnlega í konur og erfitt er að finna jafnvægið milli vonarinnar um að fá loksins jákvætt þungunarpróf og óttans við neiið. En vonin heldur fólki við efnið. Vissulega eru 20-30% líkur ekki miklar, en þó alltaf meiri en áður.
Það er alveg sama hversu undirbúinn maður telur sig vera, ef í ljós kemur að vonin sé úti í þetta skipti, þá eru vonbrigðin gríðarleg. Litli fósturvísirinn var líf sem fól í sér drauma um framtíðina og nú blæðir honum og draumunum burtu og maður syrgir barnið sem aldrei varð. Á þessari stundu er það skiljanlegt hvers vegna rannsóknir sýna að andlegt álag barneignabaráttu jafnast á við baráttu við mannskæða sjúkdóma. Það er erfitt að hugsa sér að leggja allt á sig aftur, kannski fyrir enn ein vonbrigðin.
Ofan á þetta leggst sú nagandi staðreynd að langflestir þurfa að glíma við fjárhagsáhyggjur samfara baráttunni. Aðeins er niðurgreitt að hluta fyrir 2.-4. glasa- eða smásjármeðferð. Allur annar kostnaður er á herðum þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Maður stendur því með neiið í höndunum, búinn með allt líkamlegt og andlegt þrek og tóma pyngju. Jafnvel þó maður nái að byggja sig upp andlega og líkamlega til þess að stíga aftur í rússíbanann, getur verið að aurinn finnist ekki fyrir fargjaldinu, enda er staðan þannig hjá almenningi í dag að fáir eiga hálfa milljón á lausu.
Ástæðan fyrir því að fólk leggur í að taka þátt í þessu dýra og erfiða lottói er að frumþörfin er svo sterk, löngunin til þess að halda á barninu sínu getur fengið mann til að leggja á sig ótrúlegustu hluti.
Eitt af hverjum sex pörum á barneignaraldri mun eiga við ófrjósemi að stríða. Því er líklegt að einhver nákominn muni eða sé þegar, án þess að þið vitið af því, að berjast við ófrjósemi. Sýnið því tillitssemi, þetta er erfið barátta.
Katrín Björk Baldvinsdóttir
formaður Tilveru, samtaka um ófrjósemi