Við það að misstíga sig, þá skaðast liðbönd og bólga myndast. Kallast það ökklatognun af því að það tognar á liðböndum sem tengja saman ökklabeinin.
Liðböndin verða aum viðkomu og oftast er verkur við að ganga. Með því að hlífa fætinum eins og hægt er fyrstu dagana, þá minnkar bólgan og verkurinn, og smám saman getur viðkomandi gengið óhaltur og án verkja. Það sem viðkomandi veit ekki og gerir sér ekki grein fyrir er að jafnvægið á tognaða fætinum verður lakara. Það er vegna þess að í liðböndum eru nemar sem skynja stöðu liðarins. Við tognun þá tognar á þessum nemum og þeir laskast. Nemarnir geta því ekki sent boð um rétta stöðu liðarins og því verður jafnvægið á þeim fæti lakara.
En skiptir það einhverju máli? Jú, t.d. við einfalda athöfn eins og að ganga, þá reynir mikið á jafnvægi því gengið er til skiptis á hægri og vinstri fæti. Minna jafnvægi eykur líkurnar á að togna aftur og minna jafnvægi setur meira álag á hné, mjaðmir og bak. Því er nauðsynlegt við ökklatognun, sama hversu lítil hún virðist vera, að gera jafnvægisæfingar þegar ekki er lengur verkur við að stíga í fótinn. Snjallt er, þegar talað er í símann, að standa til skiptis, í 20-30 sekúndur, á öðrum fæti , því síminn minnir á að gera æfinguna og tíminn er oftast passlegur.
Jafnvægisæfingar laga nemana og þeir geta sent rétt boð um stöðu ökklans. Ef tognun er slæm þá er ráð að leita til læknis og/eða sjúkraþjálfara.
Sveinn Sveinsson Sjúkraþjálfari Mtc Gáski ehf. www.gaski.is