1. Barn lægra en 150 sm á hæð má ekki sitja í framsæti gegnt virkum öryggispúða.
2. Barn lægra en 135 sm á hæð skal ávallt vera í öryggis- og verndarbúnaði sem hæfir hæð þess og þyngd.
3. Flokkar bílstóla miðast við þyngd barna.
4. Höfuð barns má aldrei ná upp fyrir brún stólsins.
5. Bílbelti má ekki vera snúið og það þarf að falla vel að líkama barnsins. Aldrei má setja belti fyrir aftan bak eða undir handlegg.
6. Öryggisbúnaður verður að henta bæði barni og bíl. Ráðlegt er að leita í sérhæfða verslun og hafa barnið með til að máta stólinn. Til að stóll hæfi bíl og sé rétt festur er mælt með að fylgja leiðbeiningum frá framleiðanda stólsins og handbók bílsins.
7. Endingartími flestra barnabílstóla er 10 ár en ungbarnabílstólar endast þó yfirleitt aðeins í 5 ár. Framleiðsluár stólsins kemur fram á botni stólsins eða heimasíðu framleiðanda. Ef notaður bílstóll er keyptur eða fenginn að láni er mikilvægt að kanna hvort að stóllinn hafi orðið fyrir skemmdum eða hnjaski.
Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum má nálgast á heimasíðu Samgöngustofu undir liðnum lög og reglur.
Öruggast er að hafa ungabarn í bílstól sem snýr baki í akstursstefnu. Mælt er með því að nota bakvísandi stól til 3ja ára aldurs eða eins lengi og mögulegt er. Hægt er að kaupa stóla sem ná frá fæðingu og upp í 18 kg þyngd en slíka stóla er ekki hægt að nota sem burðarstóla heldur eru þeir hafðir fastir í bílnum. Hægt er að kaupa ungbarnabílstól með sökkli (base) sem er festur í bílinn með bílbelti eða með ISOFIX festingum og er stólnum þá smellt í sökkulinn.
Þegar barnið hefur vaxið upp úr ungbarnabílstólnum þarf það stól sem ætlaður er börnum upp í 18 eða 25 kg. Þannig stólar eru festir í bílinn með bílbelti eða með ISOFIX festingum. Barnið er fest í stólinn með fimm punkta belti.
Nota skal bílpúða með baki þegar barnið hefur náð 18 eða 25 kg þyngd. Á bakinu eru hök til þess að þræða bílbeltið í þannig að það falli rétt að líkama barnsins og renni ekki undan barninu við árekstur.
Einungis er mælt með því að nota bílpúða án baks ef barnið er vaxið upp úr barnastól. Barnið er þá fest með bílbelti sem er fest undir hök á bílpúðanum.
Flestir framleiðendur barnabílstóla hafa nú sett á markað öryggisbúnaði með ISOFIX-festingum. Samkvæmt reglum frá EES var gerð krafa um að ISOFIX væri komið í alla bíla frá og með 2011. Barnabílstóll með ISOFIX festingum ætti að passa í alla bíla sem eru með ISOFIX festingar ef stóllinn hentar stærð bílsins.
Frá Samgöngustofu.