PCOS stafar af ójafnvægi í efnaskiptum kvenna og einkennist af óreglulegum blæðingum, offitu, auknum hárvexti og blöðrum á eggjastokkum sem hafa dæmigert útlit við ómskoðun.
Til þess að greinast með PCOS þurfa a.m.k. eftirfarandi einkenni að vera til staðar:
-Óreglulegar blæðingar vegna fækkunar á egglosum (stundum verður ekki egglos, s.k. anovulation)
-Karlgerandi einkenni(hyperandrogenism), s.s. hárvöxtur á líkama og andliti, gelgjubólur, hárlos á höfði eða hækkuð kollvik, eða rannsóknarniðurstöður sem sýna hækkuð gildi karlhomóna.
Orsökin er enn óþekkt. Talið er að um arfgengan galla sé að ræða þó að erfðirnar séu flóknar og tilhneigingin til að fá PCOS geti borist bæði frá móður eða föður.
Aukið insúlín viðnám virðist vera eitt helsta vandamálið. Konur með PCOS framleiða of mikið insúlín sem eftir flóknum leiðum veldur því að þær fara að framleiða aukið karlhormón. Testosterón hefur síðan karlgerandi áhrif. Fjöldinn allur af rannsóknum er í gangi til að skilja betur undirliggjandi ástæður PCOS. Auk þess er verið að prófa ný lyf sem auka næmi vefja fyrir insúlíni eða stjórna losun þess.
Einkenna verður oft vart um kynþroska en geta líka komið síðar. Konur með PCOS byrja blæðingar á sama tíma og aðrar konur um 12-13 ára og fara í tíðahvörf um fimmtugt. Þær hafa hinsvegar færri tíðablæðingar á ári en búast má við, um sex til átta sinnum. Ef tíðahringurinn er lengri en 35 dagar er rétt að láta athuga hvort um PCOS er að ræða. Vöntun á egglosi sem veldur röskun á blæðingum leiðir síðan til ófrjósemi. Nauðsynlegt getur verið að gefa progesterón hormón til að framkalla blæðingar.
Aukinn hárvöxtur er algengt einkenni og dreifist þá líkt og hjá karlmönnum þ.e. á vöngum, efri vör, höku,hálsi, bringu og kvið. Karlmanna skalli og geljubólur eru líka algengar. Stundum verður vart við aukna svitamyndun og bólgu í svitakirtlum í holhöndum og nárum (hidradenitis suppurtiva). Við skoðun má sjá brúnleita litabreytingu á aftanverðum hálsi, í holhöndum og undir brjóstum (acanthosis nigricans). Sumar konur fá feitari húð sem getur síðan valdið flösu í hársverði og fílapenslum í andliti. Þessi einkenni geta orðið meira áberandi í kringum blæðingar.
Önnur einkenni eru offita og röskun á efnaskiptum sem veldur hækkuðum blóðfitum, skertu sykurþoli og háum blóðþrýstingi. Hvort offita er ástæðan fyrir PCOS eða afleiðing af PCOS er enn ekki vitað. Það eru ekki allir einstaklingar með PCOS of feitir. Flestir hafa þó tilhneigningu til að fitna um miðjuna fremur en um mjaðmir og læri. Þessu er stundum líkt við „epla“ eða „peru“ lag. Epla-fitudreyfing hefur í för með sér aukna hættu á háþrýstingi, háu kólesteróli og sykursýki.
Einkenni geta verið væg eða svæsin og mjög breytileg frá einum einstaklingi til annars. Þau geta versnað með tímanum og með þyngdaraukningu. Sem dæmi um þetta má nefna að skert sykurþol getur þróast yfir í sykursýki af tegund 2 ef ekkert er að gert.
Sjúkrasagan er mjög mikilvæg ásamt líkamsskoðun. Síðan er hægt að gera frekari rannsóknir ef læknirinn telur ástæðu til einkum til þess að styðja greininguna og útiloka aðrar ástæður fyrir einkennum sjúklingsins.
-Hormónamælingar
-Ómskoðun af eggjastokkum
Flestir hafa einhverjar breytingar á hormónagildum en þær geta þó verið mjög vægar. Best er að gera hormónamælingar við lok blæðinga og forðast tímann þegar búast má við egglosi. Erfitt er að túlka niðurstöður þegar konan tekur getnaðarvarnapillu. Þau hormón sem gjarnan eru mæld eru testósterón, DHEA, LH, FSH og/eða insúlín. Æskilegt er að mæla blóðfitur og blóðsykur eftir föstu frá miðnætti kvöldinu áður.
Ómskoðun sem oftast er gerð um leggöng, sýnir gjarnan fleiri en 10 blöðrur í hvorum eggjastokk, sem eru undir 10mm í þvermál hver. Eggjastokkarnir geta orðið 1.5 til þrisvar sinnum stærri en venjulega.
Megrun er nauðsynleg ef um offitu er að ræða. Regluleg hreyfing og heilbrigt mataræði eru því ávallt mikilvægt. Í mörgum tilvikum kann að vera nægilegt að léttast um 5 til 10% af líkamsþunga til að meiri regla komist á blæðingar.
Progestin lyf geta verið nauðsynleg til að koma blæðingum af stað en gera lítið til að stjórna hárvexti eða leiðrétta efnaskiptavandann. Getnaðarvarnapillan er líka hjálpleg til að koma reglu á blæðingar. A.m.k. tvær pillutegundir eru á markaði hérlendis sem einnig hafa mótverkun gegn karlhormónum og geta þannig dregið úr hárlosi/hárvexti. Þetta eru Diane Mite og Yasmin.
Blóðþrýstingslyfið spironolactone (Spirix) hefur and-testósterón áhrif og er því stundum notað til að draga úr óæskilegum hárvexti. Það getur einnig dregið úr bólum. Lyfið er stundum notað ásamt getnaðarvarnarpillu þar sem það getur valdið milliblæðingum.
Lyf sem auka næmi fyrir insúlíni eru nú notuð í vaxandi mæli. Sykursýkislyfið metformin (Glucophage) tilheyrir þessum lyfjaflokki.
Rannsóknir hafa sýnt að metformin kemur reglu á blæðingar hjá u.þ.b. helmingi kvenna sem það taka. Metformin kemur ekki í veg fyrir getnað heldur þvert á móti eykur líkur á egglosi og þar af leiðandi á þungun. Auk þess hefur ein rannsókn bent til þess að metformin geti dregið úr fósturmissi á meðgöngu og dregið úr meðgöngusykursýki en hvorutveggja er algengara meðal kvenna sem hafa PCOS. Mikilvægt er að fylgst sé vel með þessum konum á meðgöngu og tekur læknir afstöðu til þess hvenær rétt er að gera sykurþolspróf til að greina meðgöngusykursýki.
Hversu virkt og öruggt metformin er til langs tíma er enn óvíst hvað varðar PCOS. Það hefur hinsvegar verið notað lengi hér á landi við sykursýki – tegund 2 og reynst mjög vel.
Heimild: doktor.is