Rauðir úlfar eru sjálfsofnæmissjúkdómur og er talinn dæmigerður fyrir þennan flokk sjúkdóma. Á latínu heitir þessi sjúkdómur lupus erythematosus disseminatus. Lupus merkir úlfur og vísar til þess að sjúkdómurinn getur verið algjörlega óútreiknanlegur og getur ráðist af heift á ýmsa vefi líkamans, þar með talið andlitið. Jafnframt veldur hann stundum útbrotum í andliti sem minna á úlfsbit.
Sjúkdómurinn er tífalt algengari meðal kvenna en karla. Orsakir hans eru óþekktar en hann getur lagst á allflest líffærakerfi og vefi líkamans en oftast verður húð, liðir, nýru, slímhimna eða taugakerfið fyrir barðinu á rauðum úlfum. Nýgengi sjúkdómsins er u.þ.b. 4.5 ný tilfelli/ 100.000 íbúa / ári og telja má að á landinu séu um 250 manns með þennan sjúkdóm.
Meðferðin við rauðum úlfum ræðst af virkni og útbreiðslusvæði sjúkdómsins og oft þarf að nota tvö eða fleiri lyf með mismunandi verkun. Sumir fá væga útgáfu af sjúkdómnum en öðrum reynist hann mjög þungbær. Hægt er að bregðast við rauðum úlfum með ýmsum meðferðarmöguleikum.
Sjúkdómurinn kemur oftar fyrir hjá eineggja tvíburum en tvíeggja. Í sumum fjölskyldum eða ættum eru rauðir úlfar algengari en öðrum og þeir eru algengari hjá sumum þjóðum en öðrum.
Vissar tegundir lyfja geta framkallað sjúkdómsástand sem líkist rauðum úlfum.
Útfjólubláir geislar sólar eða frá ljósalömpum geta aukið virkni sjúkdómsins hjá sumum sjúklingum. Sýkingar auka hættuna á því að sjúkdómurinn blossi skyndilega upp.
Eins og áður sagði eru rauðir úlfar algengari meðal kvenna en karla og eiga það til að brjótast út á meðgöngu eða meðan kona hefur barn á brjósti.
Notkun getnaðarvarnataflna virðist ekki hafa áhrif á það hvort sjúkdómurinn brjótist út.
Líklegt má telja að margir orsakaþættir þurfi að koma saman til þess að setja sjúkdóminn af stað.
Algengt er að einkenni rauðra úlfa birtist í mörgum vefjum eða líffærum samtímis eða hverju á fætur öðru.
Einkenni rauðra úlfa eru mjög misjöfn eftir einstaklingum sem gerir það að verkum að mjög erfitt reynist að greina sjúkdóminn á byrjunarstigi.
Því er mikilvægt að læknar spyrji sjúklinga sína hvort þeir finni fyrir þeim einkennum sem oftast fylgja rauðum úlfum ef þeir leita til þeirra með einkenni á borð við eymsli í li&et h;um, útbrot eða nýrnaveiki. Einkum er þetta mikilvægt ef ungar konur eiga í hlut.
Fólk með rauða úlfa þarf að verja sig vel fyrir sólarljósi, annað hvort með því að klæða sólina af sér eða nota öfluga sólarvörn. Margir finna fyrir þreytu af völdum rauðra úlfa og verða að haga störfum sínum eftir því. Því getur verið ráðlegt að hvíla sig reglulega eða minnka við sig vinnu.
Mikilvægt er að sjúklingar tali opinskátt um sjúkdóminn og þær takmarkanir sem hann getur haft í för með sér fyrir viðkomandi og hans nánustu. Þetta er brýnt vegna þess að mörg þeirra einkenna sem að ofan eru nefnd eru ósýnileg þeim sem umgangast sjúklinginn.
Ekki er hægt að gefa nein ráð um sérstakt mataræði eða þess háttar.
Sjúkdómsgreiningin getur reynst erfið, ekki síst á byrjunarstigi sjúkdómsins. Læknar þurfa því að vera á varðbergi gagnvart rauðum úlfum. Til eru alþjóðleg skilmerki sem byggjast á því að greina tiltekin einkenni og niðurstöður úr blóðsýnum.
Útbrot í andliti sem oft eru eins og fiðrildi í útliti þ.e. þekja kinnbeinin með brú yfir nefið.
Staðbundinn helluroði (discoid lupus) (vel afmörkuð útbrot sem eru auðþekkjanleg í smásjá)
Birtist fjögur ofantalinna einkenna samtímis eða meðan sjúkdómurinn herjar er hann greindur sem rauðir úlfar. En þótt þessi skilmerki hafi reynst notadrjúg í rannsóknum og við sjúkdómsgreiningu er gildi þeirra takmarkað á byrjunarstigi sjúkdómsins. Þess vegna er ekki hægt að útiloka að sjúklingur með færri en fjögur einkenni hafi rauða úlfa. Vakni grunur um að svo sé þarf að gera endurteknar rannsóknir með reglulegu millibili í því skyni að staðfesta eða útiloka að um rauða úlfa sé að ræða.
Konur sem eru með virkan sjúkdóm eða fá meðferð með lyfjum sem verka á ónæmiskerfið ættu að forðast þungun. Hins vegar eykst hættan á að rauðir úlfar geti haft áhrif á meðgönguna ekki að ráði ef sjúkdómurinn liggur niðri. Konur með rauða úlfa ala ekkert síður lifandi og heilbrigð börn en konur sem ekki eru haldnar þessum sjúkdómi. Hins vegar eiga þær fyrrnefndu frekar á hættu fósturlát eða að barnið fæðist fyrir tímann. Í lok meðgöngu og á meðan barn er haft á brjósti er aukin hætta á að sjúkdómurinn blossi upp. Ráðlegt er að þungaðar konur sem eru með rauða úlfa séu skoðaðar reglulega af fæðingarlækni og gigtlækni og að fæðingin eigi sér stað á viðurkenndri fæðingardeild.
Rauðir úlfar er langvinnur sjúkdómur sem liggur í dvala milli þess sem hann blossar upp og krefst þá jafnvel meðferðar á sjúkrahúsi. Aukin hætta er á að sjúklingar verði fyrir bakteríu- og veirusýkingum. Tilhneigingin er sú að með aldrinum dragi úr virkni sjúkdómsins en þó eru þess mörg dæmi að hann blossi upp á ný eftir margra ára hlé, jafnvel með nýjum einkennum. Þótt stundum geti verið erfitt að ná tökum á sjúkdómseinkennunum, einkum hjá ungu fólki, þá er mikilvægt að hafa í huga að möguleikar á meðferð til lengri tíma litið eru mun betri nú en þeir voru fyrir örfáum árum. Þess vegna er t.d. mjög mikilvægt að hvetja unga námsmenn sem fá rauða úlfa til þess að halda ótrauðir áfram námi, jafnvel þótt sjúkdómurinn geti hægt á framvindu námsins.
Þegar sjúkdómurinn er í lægð er sjaldnast nokkur ástæða til þess að draga úr íþróttaiðkun eða annarri tómstundaiðju.
Hvernig eru rauðir úlfar meðhöndlaðir?
- Verkjastillandi lyf:
- Einkum parasetamól með eða án kódeins og tramadól-lyf
- Bólgueyðandi lyf án stera (NSA ID-lyf):
- Einkum notuð gegn verkjum í liðum.
- Malaríulyf
- Einkum notuð gegn einkennum frá húð og liðum.
- Barksterar
- Einkum notuð gegn alvarlegum einkennum frá nýrum, miðtaugakerfi eða blóðsjúkdómum.
Til dæmis azatíoprín, cýklófosfamíð og cíklósporín. Einkum notuð sé sjúkdómurinn útbreiddur og mjög virkur. Metotrexat er líka einstaka sinnum notað.
- blóðþrýstingslækkandi lyf
- flogaveikilyf
- lyf gegn þunglyndi
- sýklalyf gegn sýkingum
Heimildir: doktor.is