Geðsjúkdómar fara ekki í manngreiningararálit og hver sem er getur átt á hættu að veikjast. Með aukinni þekkingu og markvissari endurhæfingu hefur þeim hins vegar fjölgað sem hafa náð góðum bata og endurheimt lífsgæði sín eftir að hafa veikst af geðsjúkdómum. Geðsjúkdómar eru ekki frábugðnir öðrum alvarlegum sjúkdómum að því leyti að þeir geta haft talsverð áhrif á alla fjölskylduna.
Það er mikilvægt að hjálpa öllum sem standa að hinum veika að ná bata. Leiðarljós Geðverndarfélags Íslands er að standa vörð um geðheilbrigði og stuðla að forvörnum. Út frá gildum félagsins að fræða, fyrirbyggja, rannsaka og vinna saman voru sett markmið sem fela í sér að félagið mun leggja áherslur á forvarnir í geðheilbrigðismálum auk þess sem markmiðið er að styðja við og hvetja þá sem vilja leggja sitt af mörkum. Það er von okkar hjá Geðverndarfélagi Íslands að það megi verða þeim hvatning og styrkur sem á þurfa að halda.
Að mati stjórnar Geðverndarfélags Íslands skortir markvissari ákvæði í íslensk lög til samræmis við önnur Norðurlönd þegar kemur að forvörnum og þjónustu við börn sem eiga foreldra með langvinn veikindi. Mikilvægt er að mörkuð verði heildræn stefna í geðheilbrigðismálum til framtíðar og þá er okkur kappsmál að hugað verði vel að börnum þvi þeirra rödd hefur ekki verið sterk hingað til. Oft er talað um mikilvægi þess að ná sátt við fortíðina svo hún standi ekki í vegi fyrir því að við njótum lífsins í dag. Það er því mikilvægt að hvetja og styðja við börn og unglinga sem glíma við erfiðleika og reyna þannig að minnka líkurnar á að fortíðin hamli þroska þeirra síðar meir.
Eftir Gunnlaugu Thorlacius fyrir hönd Geðverndarfélags Íslands. Greinin er sjöunda greinin af tíu í greinarröð jafn margra úrræða og/eða félaga á geðheilbrigðissviðinu á höfuðborgarsvæðinu um Geðorðin 10.