Áður en ég fékk hjartaáfall í febrúar 2003 þá kom það fyrir á ögurstundum að mér reis ekki hold. Það var umsvifalaust skrifað á frammistöðukvíða og ég hafði ekki sérlega hátt um þetta.
Síðustu árin fyrir hjartaáfall kom þetta þó oftar fyrir og féll mér þetta fremur þungt eins og gefur að skilja. Ég beitti ýmsum aðferðum til að finna út úr þessu en allt kom fyrir ekki, hvað eftir annað þá brást risið og allt varð heldur tilkomuminna en áætlanir lögðu upp með.
Um þetta leyti safnaði ég kjarki, fór til heimilislæknis og sagði honum frá vanda mínum. Mér fannst þetta erfitt umræðuefni. Satt best að segja átti ég ekki von á svarinu sem ég fékk en hann mælti með því að ég léti tímann vinna með mér. Því lengur sem ég væri í sambandi þá lagaðist þetta og sagðist hann ekki sjá ástæðu til að láta mig hafa stinningarlyf til að ráða bót á litlu risi eða kanna orsakir þess nánar.
Eins og gefur að skilja var ég ekki sérlega kátur með þetta og fannst læknirinn ekki hafa mikinn skilning á ástandinu. Innst inni fannst mér samt eins og ekki væri allt með felldu en hafði ekkert fyrir mér í því.
Þann 9. febrúar 2003 fékk ég svo hjartaáfall. Að vera þrjátíu og sjö ára gamall og fá hjartaáfall var eitthvað sem ég hafði ekki reiknað með. Að verða fyrir slíku áfalli tekur langan tíma að átta sig á, finna út úr því og skilja til fullnustu það sem raunverulega hefur átt sér stað og hvaða hugsanlegar afleiðingar það hefði í för með sér. Seinna fann ég út að ristruflanir geta verið vísbending um undirliggjandi hjarta eða æðasjúkdóm.
Fyrst eftir áfallið reis mér hold við og við og varð ég glaður og fannst að þrátt fyrir mikin skaða á hjartanu sem fylgdi mikil skerðing á þreki þá fannst mér það huggun að karlmennska mín var til staðar. Ennþá.
Fljótlega fór þó að síga á ógæfuhliðina og mér reis sjaldnar hold og þá lítið og stutt í einu. Ég nefndi þetta við hjartalækninn minn sem ég hafði á þessum tíma og hann lét mig hafa töflur til að prófa sem ég og gerði, þóttist ég nú nokkuð góður. Töflurnar áttu að gera það að verkum að í allt að 48 klukkustundir eftir inntöku ætti mér að rísa hold við örvun.
Það sem að aftur gleymdist alveg að taka með inn í dæmið var að blóðþrýstingur minn var í sögulegu lágmarki og nokkuð sveiflukenndur auk þess sem hann átti það til að falla við minnsta álag.
Þessi tilraun endaði á bráðamóttöku og restin af helginni fór í það að liggja í rúminu og vona að blóðþrýstingurinn færi að þokast upp eftir því sem áhrifa rislyfjanna hætti að gæta.
Þetta varð mér ágætis lexía sem varð til þess að ég þurfti að nálgast samlíf okkar hjóna með öðrum hætti og ég þurfti að æfa mig í nánd. Þrátt fyrir að mér fyndist karlmennska mín ekki mikil á þessum tíma þá var það af orsökum sem að ég hafði ekki vald yfir að ráða fram úr. Þrátt fyrir að það kunni að hljóma klisjukennt þá varð ég að gjöra svo vel að vera jákvæður og sjá hvaða tækifæri fælust í því að þurfa nálgast maka minn með öðrum hætti.
Það mikilvægasta sem ég komst að er að það er grundvallaratriði að hafa maka sinn með í öllum þessum vangaveltum sem koma upp þegar sú tilfinning grípur mann að karlmennskan sé farin og maður geti ekki notið ásta af sama krafti og með sömu reisn og á árum áður, það getur verið erfitt en er eðlilegt.
Það er eðlilegt að lenda í sálarkreppu þegar risið bregst en það er langt því frá að í því kynlífið verði eitthvað verra, það verður bara öðruvísi. Þetta bíður líka upp á tækifæri, tækifæri til að færast nær maka sínum og efla kærleikann. Það er mín reynsla að þetta geti leitt til þess að sambandið getur orðið innilegra og nánara og í því felast tækifæri.
Ég mæli með því að þeir sem eiga við stinningarvandamál að stríða tjái sig um það því það eru til lausnir. Og gildir þá einu hverjar orsakirnar fyrir lélegu risi eru.
Það er hinsvegar mikilvægt að gera sér líka grein fyrir því að ást milli tveggja einstaklinga snýst ekki um hversu öflugt holdrisið er og karlmennska mælist ekki í standpínu.
Björn Ófeigs
bjorn@hjartalif.is
Heimild: hjartalif.is