Þegar maður veltir fyrir sér karlmennsku og því sem hana skilgreinir þá fær hver og einn eflaust einhverja mynd upp í hugann. Sumir sjá fyrir sér sterkan, stæltan, jafnvel vel hærðan, eða vaxborinn hárlausan karlmann sem lætur engan bilbug á sér finna. Þá eru aðrir sem sjá fyrir sér föðurlegan, ábyrgan og traustan aðila sem tekur af skarið, veit sínu viti og lætur ekki hlaupa með sig í gönur. Svona mætti lengi telja í stereotýpiseringu, það sem þó flestir tengja við karlmennsku, að minnsta kosti þeir sem eru karlkyns, er hvort þeim rísi hold eður ei.
Þetta grundvallaratriði virðist samofið þessum skilningi karlanna og því ákaflega mikilvægt og ekki síður pínlegt ef það bregst í hita leiksins, sem aftur leiðir til efasemda um eigin getu og hefur áhrif á vellíðan einstaklingins sem á í hlut.
Það er vel þekkt að risvandamál eru algengust hjá eldri karlmönnum, en þau geta komið fyrir á hvaða aldri sem er. Ristruflun hins vegar er samkvæmt skilgreiningu endurtekinn og viðvarandi vandi og er slíkt þekkt hjá karlmönnum frá fertugu, þó í minna mæli sé, en líklegra eftir því sem árin líða. Ef skoðaðar eru tölur um algengi þá hafa rannsóknir sýnt að allt að 40% karla um fertugt glími við slíkt og eykst tíðnin með aldri í allt að 70% hjá körlum um sjötugt. Ekki má rugla saman breyttri kynhvöt, vandamálum með sáðlát annars vegar og ristruflun hins vegar. En sú síðastnefnda byggir fyrst og fremst á vanda við að fá stinningu og að halda henni.
Orsakirnar fyrir slíkum vanda eru fjölmargar, en eðli vandans liggur fyrst og fremst í blóðflæðiröskun og röskunar í taugum. Krónískir sjúkdómar eru hér fremstir í flokki eins og hjarta og æðasjúkdómar, hár blóðþrýstingur, sykursýki, nýrnasjúkdómar, taugasjúkdómar og krabbamein svo eitthvað sé nefnt. Þá eru aðgerðir sem hafa áhrif eins og við meinum í blöðru og blöðruhálskirtli. Fjöldamörg lyf hafa einnig þessi neikvæðu áhrif ein og ákveðnar tegunir blóðþrýstilyfja, þunglyndislyf og róandi lyf.
Þá má ekki gleyma lífsstílnum, en þekkt er að þeir sem reykja eru að minnsta kosti tvöfalt líklegri til að þróa ristruflanir, ofneysla áfengis og ofþyngd hefur einnig töluverð áhrif. Þá hefur verið sýnt fram á að þeir sem hreyfa sig reglubundið og stunda heilbrigðan lífsstíl fá síður þessi vandamál, með þeirri áhugaverðu undantekningu þó að þeir sem hjóla mikið virðast eiga frekar við risvandamál að stríða.
Mjög mikilvægt er að hlúa að hinum andlega þætti sem byggir á jafnvægi og vellíðan en ljóst er að streita, álag og lélegt sjálfsmat hefur gríðarleg áhrif á karlmennskuna á neikvæðan hátt og getur þurft að koma til meðferðar vegna slíkra vandamála.
Þeir sem eru rislágir og finna til þessara einkenna, eiga þó nokkurra kosta völ og er algengast að reynd séu svokölluð stinningarlyf sem auka blóðflæði og hafa þannig jákvæð áhrif annað hvort í töfluformi eða sem sprauta. Aðrar aðferðir eru sértækari og krefjast meiri inngripa af hálfu þvagfæralækna. Aðal atriði í þessu samhengi er að ræða vandann bæði við maka sinn og lækni svo hægt sé að greina vandann sem fyrst og fá viðhlítandi meðferð.
Það er því afar mikilvægt að hreyfa sig reglubundið, borða hollan mat, reykja ekki, drekka áfengi í hófi, nota sem minnst af lyfjum og vera í andlegu jafnvægi til þess að halda reisn!
Teitur Guðmundssom, Læknir